Fréttir

Innskráning

Nýskráning

Að morgni 18. júlí lagði vaskur hópur félagsmanna af stað, ekið var sem leið lá í gegnum fagrar sveitir landsins í blíðskaparveðri, þar til komið var í Stykkishólm. Þar var ferðinni heitið í siglingu um Breiðafjörð með Særúnu, þar sem við skoðuðum fjölskrúðugt fuglalíf og eyjar og var okkur sagt frá og sagðar sögur af svæðinu. Settur var niður poki sem dreginn er eftir sjávarbotni og síðan dreginn upp og gefst þátttakendum kostur á að bragða á því fiskmeti sem dregið er upp og var því vel tekið. Það sem ekki var borðað fékk að fara aftur í sjóinn. Veðrið var eins dásamlegt og hugsast getur, bjart, sólríkt, nánast logn og hlýtt.
Að loknum hádegisverði var farið í skoðunarferð og vorum við svo heppinn að Gunnar Svanlaugsson fyrrverandi kennari og skólastjóri frá Stykkishólmi tók að sér að segja okkur frá staðnum, við byrjuðum í kirkjunni, fórum hring um bæinn og enduðum í Vatnasafninu. Því næst gátu ferðalangar gert það sem hugur þeirra stóð til uns lagt var af stað til Reykjavíkur með viðkomu í Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem snæddur var kvöldverður.
Frábær ferð með góðu fólki og hjálpaði veðrið mikið til að gera þessa ferð minnnisstæða.

Þann 6. maí var gengið um Elliðaárdalinn og gengnir stígar í skóginum í miðjum dalnum.  Það hafði rignt um morguninn og þvílíkur gróðurilmur.

Þann 13. maí var farið inn í skóginn við Rauðavatn, það rigndi hressilega þennan dag og var reynt að ganga sem mest inni í þéttum trjáþyrpingum til að fá skjól fyrir rigningunni.  Fengum okkur hressingu hjá Olís í Norðlingaholti.

Þann 20. maí var lagt upp frá Selásskóla og gengið sem leið lá í gegnum hverfið og á göngubrú yfir í Norðlingaholt og þar gengið í stóran hring og það var eins og við værum komin langt upp í sveit, þvílík fegurð og friður.  Að göngu lokinn buðu Þóra og Bjarni göngumönnum í kaffi heima hjá sér í Árbænum.

Síðasta gangan var mánudaginn 27. maí og þá var gengið um Laugardalinn og garðurinn skoðaður í vor/sumarskrúða.

Myndir: Marta Sigurðardóttir

 

Hópurinn hittist  við eiðið á Geldinganesi og gekk síðan sem leið lá yfir eiðið í blíðskaparveðri og inn að námu, en það er stórt skarð þar sem efni var sótt í þegar verið var að fylla upp fyrir Sundahöfnina á sínum tíma.  Í dag er það orðið gróið og fallegt á að líta. Eftir gönguna var farið á kaffihús og setið yfir spjalli og veitingum.

Myndir: Marta Sigurðardóttir

Í göngu FKE 1.4. s.l. mættu alls 14. Gengið var frá Suðurhlíðum út í Nauthólsvík í dásamlegu veðri og fylgst með sjósundfólki. Kaffi í Bakarameistaranum í Austurveri á eftir.

Myndir: Pétur Bjarnason

Þann 25. mars var gengið um Fossvogsdalinn.

Gangan er talin sú lengsta sem hópurinn hefur gengið í senn fram til þessa, því 5,6 km voru lagðir að baki á klukkutíma og tíu mínútum.

Í leiðbeiningum sem gefnar voru til að finna  bílastæðið í Fossvogi var nefnd leiðin niðureftir, stundum kölluð Milli lífs og dauða.

Einn göngumanna, Skarphéðinn Guðmundsson, Siglfirðingur laumaði vísu til göngustjóra:

(Hugsað til Lykla-Péturs)

Viljum með Pétri gjarnan ganga

um göngustíga næstum auða.

En skrítið er líka að langa

á leið milli lífs og dauða.

Myndir: Pétur Bjarnason

FKE stóð fyrir ferð í Sjóminjasafnið 13. mars s.l.

Milli þrjátíu og fjörutíu manns mættu í afar fróðlega og skemmtilega ferð.

Vegna þessa  fjölda var hópnum skipt, fór helmingur um safnið fyrst og hinn helmingurinn skoðaði varðskipið Óðin undir mjög góðri leiðsögn Pálma Hlöðverssonar, fyrrum stýrimanns og skipherra þar.

Á safninu vöktu athygli fjölbreyttir möguleikar með aðstoð margmiðlunar og fornleifarannsóknir fyrir ströndum landsins.

Síðan skiptu hóparnir.

Þessi heimsókn þótti afar vel heppnuð og svo voru menn áhugasamir að myndatökur gleymdust með öllu, en tvær eru látnar fylgja af heimasíðu safnsins.

Gangan 11. mars var frá Gróttu og gengið umhverfis golfvöllinn í hvössu en þurru veðri.

Engin myndataka varð í þeirri göngu, sem var nokkuð fjölmenn.

Gangan 18. mars var frá Olísstöðinni í Norðlingaholti.

Gengið var að Rauðavatni og um skóginn í nágrenninu, en vegna veðurskilyrða og aurbleytu var ákveðið að fresta göngu umhverfis vatnið.

Tíu mættu í gönguna og kaffi var í Olísstöðinni á eftir.

Myndirnar tilheyra þessari göngu.

Myndir: Pétur Bjarnason

Hátíðafundurinn var haldinn laugardaginn 2. mars s.l. á Grand Hótel. Vegna góðrar aðsóknar, en um 110 manns sóttu fundinn, var hann færður upp á fjórðu hæð í glæsilegan sal með útsýni nánast allan hringinn. Meðal skemmtiatriða var söngur Ekkókórsins, sem einnig minntist látins formanns, Guðfinnu Ingu Guðmundsdóttur sem lést í fyrri viku, og söng kórinn fallegt lag í minningu hennar.

Þá var Hundur í óskilum á svæðinu og heillaði fundargesti með list sinni, sem er sérstæð og óvenjuleg, en alltaf skemmtileg..

Ýmislegt fleira smálegt var á dagskránni og mjög góðar veitingar. Almennt virtust gestir afar ánægðir með þennan fund og viðurgjörning þar.

Myndir: Halldór Þórðarson

Gengið var frá Húsasmiðjunni inn yfir Elliðaárnar og umhverfis Geirsnef. Jafnframt var tekið út nýtt hverfi sem er að rísa í Vogabyggð.

Mæting var góð og endað í bollukaffi í Húsasmiðjunni.

Myndir: Pétur Bjarnason

12 voru mættir. Gengið var frá Ikea upp á Urriðaholtið, að nýbyggða skólanum sem er efst á holtinu.

Hittum þar hönnuði skólans sem greindu frá áformum um viðbætur við skólann en hann er aðeins hálfbyggður. Eftir er að byggja álmur fyrir eldri nemendur, sundlaug og íþróttahús.

Síðan var gengið niður að Ikea aftur og sumir fengu sér hressingu í kaffihúsi Ikea 

Myndir: Halldór Þórðarson

Page 1 of 2