Fréttir

Innskráning

Nýskráning

 

 

Spilafundur FKE var haldinn á Grand Hóteli 1. febrúar 2020.

Spilað var á 9 borðum og urðu vinningshafar Pálína Jónsdóttir spiladrottning og Sigríður Einarsdóttir spilakóngur en hún spilaði fyrir hönd karla. Hlutu þær að launum harðfisk og smjör.

Eftir kaffi og meðlæti hélt Gunnlaugur Dan Ólafsson erindi sem hann nefndi ,,á Spáni á“ Gunnlaugur hefur reynslu af því að búa á Spáni og kynnast daglegu lífi fólks sem þar býr. Var erindið mjög áhugavert og gott.

Fundinn sóttu 48 félagsmenn og gestir.

Myndir:Halldór Þórðarson

Fyrsti fræðslu- og spilafundur FKE  á þessu ári var haldinn á Grand Hóteli 11. janúar. Spilað var á 5 borðum og urðu Margrét Barðadóttir og Karl Guðmundur Karlsson efst. Hlutu þau að launum harðfisk og stórt stykki af smjöri.

Eftir félagsvistina var gengið að fallega skreyttu kaffiborði með ljúffengum veitingum.

Margrét Jónsdóttir íþróttakennari hélt erindi um nauðsyn hreyfingar og lét hún fundargesti taka þátt í ýmsum æfingum sem auðveldar eru til þess að stunda heima.

Var létt yfir hópnum og hafði fólk greinilega mjög gaman af erindi Margrétar.

 Myndir: Guðrún Erla Björgvinsdóttir

Gengið var frá Glæsibæ sem leið liggur Laugardalinn að Sundlaugavegi, til baka Reykjaveg, meðfram Suðurlandsbraut og aftur í Glæsibæ. Samtals um 4 km á 1 klst.
Síðan var hressing í Bakarameistaranum Glæsibæ. Alls voru 13 mættir.
Næsta ganga áætluð 30. des.

Myndir; Halldór Þórðarson og Pétur Bjarnason

Gengið var frá Umferðamiðstöðinni  um Hljómskálagarðinn, umhverfis Tjörnina og kaffi á eftir í Umferðamiðstöðinni.

Myndir;Pétur Bjarnason

Jólafundur FEK var haldinn á Grand hóteli 7. desember 2019. Fundurinn hófst á félagsvist eins og venjulega og spilað var á 7 borðum. Vinninghafar voru Ásdís Gunnarsdóttir spiladrottning og Sigríður Einarsdóttir spilakóngur, en hún spilaði í hópi karla.
Kaffi og kökur voru strax að lokinni félagsvist og þá söng Ekkó kórinn. Jóhanna Ósk Valsdóttir eiginkona Bjarts Loga kórsstjóra söng einsöng í laginu ,,Líður að kveldi“. 
Pétur Bjarnason las síðan upp úr nýútkominni bók sinni ,,Nótabátur leggst í víking“.

63 mættu á fundinn.

Myndir; Halldór Þórðarson

Fræðslu- og skemmtifundur FKE var haldinn á Grand hóteli 2. nóvember.
33 félagsmenn voru mættir sem er óvenju fámennt en síðar kom í ljós að tölvupóstþjónusta félagsins hafði brugðist og enginn fengið póstinn sem sendur var út fyrir fundinn.
Spiluð var félagsvist á 7 borðum. Spiladrottning varð Sólveig Jóhannsdóttir og spilakóngur Þórunn Lárusdóttir.
Að loknum spilum voru bornar fram veitingar að hætti hússins á meðan gestir neyttu flutti Guðmundur Kristmundsson erindi sem hann nefndi Saga úr skóla og nokkur ljóð.

 

Myndir: Halldór Þórðarson 

4. nóvember var gengið frá bílastæði Nauthóls meðfram ströndinni, langleiðina út á Seltjarnarnes og til baka. Fengum okkur kaffi og meðlæti í Nauthól. Engar myndir teknar.

11. nóvember hittist hópurinn við Lindarkirkju í Kópavogi og gekk í stóran hring að Hnoðraholti í Garðabæ þegar haldið var til baka og endað í kaffi í Smáralind (Bakarameistaranum).

18. nóvember hófst gangan á bílastæði við golfskála GKG við Vífilsstaðaveg.Síðan var gengið yfir að Vífilsstöðum og farið stuttlega yfir merka sögu hússins og staðarins. Svo var gengið frekar stuttan hring niður fyrir og umhverfis Vífilsstaði og aftur að golfskálanum, að hluta í skjóli af skógi. Kaffi í golfskálanum um kl. 14:00

25. nóvember Gengið var frá Víkingsheimilinu vestur Fossvogsdal og til baka.Kaffi í Bakarameistaranum í Austurveri við Háaleitisbraut að lokinni göngu.

Mánudaginn 7. okt. var gengið um Fossvogsdalinn, 14. október umhverfis Vífilsstaðavatn, 21. október um Elliðaárhólma og dal og 28. október var gengið umhverfis Rauðavatn.
Veður alltaf ágætt og þátttaka hefur verið afar góð en síst í Rauðavatnsgöngunni.

Myndir tóku: Pétur Bjarnason, Marta Sigurðardóttir og Halldór Þórðarson

Þrjátíu og sex manns tók þátt í ferð FKE til Dublin og um Vestur-Írland, sem Bændaferðir tóku að sér að sjá um og var farin í byrjun september. Fararstjóri var Jón Baldvin Halldórsson, sem var bæði sinnugur og margfróður um Dublin og Írland. Samdóma álit ferðafélaganna var að þessi ferð hefði í alla staði tekist mjög vel og hvergi hljóp snurða á þráðinn. Þá var ekki verra að veðrið lék við ferðalangana allan tímann.

Bændaferðir og Jón Baldvin fararstjóri okkar fá bestu þakkir fyrir vel heppnaða ferð.

Myndir: Kristján Sigfússon

Um miðjan ágúst skelltu glaðir kennarar á eftirlaunum sér í 3ja daga ferð norður. Farið var í Ásbyrgi, Goðafoss , Þorgeirskirkju og fleiri fallega staði á Norð-austurlandi.
Ekið var sem leið lá frá Reykjavík, með nokkrum hressingarstoppum og hádegismat á Hvammstanga og í gistingu að Stórutjörnum.
Næsta dag var byrjað á að skoða Goðafoss og Þorgeirskirkju og haldið áfram sem leið lá að skólasetrinu Laugum í Reykjadal, þá var ekið um Tjörnes í átt að Ásbyrgi. Veðrið þennan dag var kaflaskipt, stundum þoka og rigning en inn á milli birti til og sólin vermdi okkur og við sáum fallegu staðina sem þarna voru. Í Ásbyrgi var sólskin og blíða og þvílík fegurð og náttúruundur. Því næst var sýningin í Gljúfrastofu skoðuð. Kvöldmatur var á Húsavík.
Síðasta daginn var ekið til Reykjavíkur og veðrið var eins fallegt og hugsast getur, sólin og birtan gerðu sveitirnar svo undurfagrar að maður var andaktugur.
Við ókum um miðbæ Akureyrar og skoðuðum Lystigarðinn sem var í fallegum blóma. Guðmundur Kristmundsson sá um leiðsögn á leiðinni norður og suður og fræddi okkur mikið og gaf mörgum stöðum líf og merkingu, en hann er vel kunnugur á þessu svæði og á ferðinni um Þingeyjarsýslu sagði Valborg Baldvinsdóttir okkur frá svæðinu, en hún á ættir að rekja þangað og dvaldi þar áður fyrr um tíma.

Myndir: Marta Sigurðardóttir

Page 1 of 3