Fréttir

Innskráning

Nýskráning

Smyrlabjargaferð

FKE stóð fyrir einni ferð í sumar, Suðurlandsferð frá Reykjavík að Smyrlabjörgum með viðkomu á ýmsum stöðum. Vegna aðstæðna komust færri með en vildu. Því olli m. a. takmarkaður sætafjöldi, þó rútan væri 56 manna komust aðeins 33 þátttakendur með. Ferðin hófst mánudaginn 24. ágúst með brottför frá Kennaraháskólanum við Stakkahlíð kl 8:30, ekið á Hvolsvöll og síðan að Skógum, fossinn skoðaður og myndaður. Næsti áfangi var að Dyrhólaey þar sem staldrað var við síðan ekið í Vík þar sem fólk gat fengið sér næringu. Þá var ekið að Fjallsárlóni sem var myndað og sumir fengu snert af ís. Næstsíðasti viðkomustaður á austurleið var svo Jökulsárlón og þar fóru sumir í siglingu á lóninu meðan hinir fengu sér göngu um svæðið. Lokaáfanginn var svo að Smyrlabjörgum þar sem snæddur var dýrindis kvöldverður áður en gengið var til náða. Næsta morgun var glampandi sól og heiðskírt og að loknum morgunverði var haldið af stað og fyrsti viðkomustaður var að Hala. Þórbergssetur skoðað að loknum skemmtilegum fyrirlestri sem Þorbjörg Anna, forstöðumaður safnsins og tengdadóttir Steinþórs bróður Þórbergs, flutti. Næsti viðkomustaður var Svínafellsjökull og síðan Skaftafell hvar fólk fékk sér hádegishressingu og myndaði Hvannadalshnjúk sem var vel sýnilegur í sólinni. Næst var komið að Dverghömrum þar sem tekin var hópmynd. Aftur var staldrað við í Vík þar sem sumir fengu sér kaffi og með því. Reynisfjara og Seljalandsfoss voru svo síðust á dagskrá áður en boðið var til kvöldverðar á Hótel Selfossi. Komið til Reykjavíkur um kl 22:00 að lokinni frábærri ferð og fararstjórn.

Myndir: Halldór Þórðarson

Lesið 27 sinnum
Meira í þessum flokki « Úthlutunarreglur Orlofssjóðs KÍ