Aðalfundir

Innskráning

Nýskráning

Aðalfundir (3)

Aðalfundur FKE 6. apríl 2019

Aðalfundur FKE var haldinn á Grand hóteli 6. apríl 2019, eftir að spiluð hafði verið félagsvist samkvæmt venju.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf.
Fundarstjóri var kjörinn Emil Hjartarson og síðan gengið til dagskrár.

Skýrsla stjórnar 
Pétur Bjarnason formaður flutti skýrslu stjórnar. Fór hann yfir helstu atriði úr starfi síðasta árs, sem var að miklu leyti hefðbundið. Þó var brugðið út af því með utanlandsferð í stað hefðbundinnar haustferðar og var farið til Danmerkur síðasta haust. Var þátttaka góð og ferðin vel heppnuð. Með þessu var brugðist við óskum félagsmanna í skoðanakönnun síðasta vetur. Sama má segja um gönguferðir sem voru vikulega í vetur og verður þeim örugglega framhaldið. Þá voru teknar upp ferðir á söfn, sem mæltust ágætlega fyrir. Margt fleira kom fram í skýrslu stjórnar sem ekki verður tíundað frekar hér.

Kristín Ísfeld flutti skýrslu gjaldkera, en hún var fengin til að taka starfið að sér vegna forfalla Kristjáns Sigfússonar síðasta haust. Kristín er ekki óvön þessum starfa, því hún var gjaldkeri stjórnar í mörg ár, en lét af stjórnarsetu fyrir fimm árum. Fjárhagsstaða félagsins er góð en það fékk nokkra hækkun framlags frá KÍ á síðasta vori.Litlar umræður urðu um skýrslurnar og voru reikningar samþykktir samhljóða.

Kosningar
Í stjórn FKE sátu fyrir aðalfundinn: Pétur Bjarnason, formaður, Guðmundur Kristmundsson, Guðrún Ólafía Samúelsdóttir, Halldór Þórðarson, Kristín Ísfeld, sem hefur starfað sem staðgengill Kristjáns Sigfússonar sem forfallaðist óvænt síðasta haust, Marta Sigurðardóttir, og Sigurlín Sveinbjarnardóttir.

Pétur Bjarnason gengur úr stjórn þar sem hann hefur starfað þar í sex ár og er því ekki gjaldgengur til endurkjörs. Sömuleiðis óska Guðrún Ólafía Samúelsdóttir, Kristján Sigfússon og Sigurlín Sveinbjarnardóttir eftir að láta af stjórnarstörfum.

Tillaga stjórnar lá frammi um Mörtu Sigurðardóttur til embættis formanns, en hún hefur verið í stjórn FKE. Ekki komu fram aðrar tillögur og er Marta því kjörin formaður FKE til eins árs.

Tillaga stjórnar lá frammi um tvo stjórnarmenn til eins árs í stað Kristjáns og Sigurlínar. Lagt var til að Halldór Þórðarson, sem setið hefur í stjórn, og Guðrún Erla Björgvinsdóttir, sem kæmi þá ný inn í stjórnina yrðu kosin til eins árs. Ekki komu fram aðrar tillögur og eru þau því réttkjörnir stjórnarmenn til eins árs.

Kjósa þurfti tvo stjórnarmenn til tveggja ára, skv. lögum og hefðum. Tillaga stjórnar lá frammi um Guðmund Kristmundsson og Kristínu Ísfeld. Guðmundur situr í stjórninni og Kristín kom í gjaldkerastarfið um áramót en hafði ekki hlotið kosningu til starfsins. Ekki komu fram aðrar tillögur og eru þau því rétt kjörnir stjórnarmenn til tveggja ára.

Tillaga stjórnar lá frammi um að Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir komi ný inn sem varamenn í stjórn. Ekki komu fram aðrar tillögur og voru þau því réttkjörnir varamenn til eins árs.

Tillaga stjórnar um skoðunarmenn reikninga FKE: Egill Sigurðsson og Þorvaldur Jónasson, þrautreynda menn var samþykkt með lófataki.
Ekki urðu umræður um önnur mál á aðalfundinum.

Nýkjörinn formaður Marta Sigurðardóttir ávarpaði aðalfundinn, þakkaði traust sér sýnt, ræddi nokkuð um hlutverk stjórnarinnar og verkefni hennar framundan og sleit síðan fundi.

Fundargerð skrifaði Pétur Bjarnason 28.10.2019 eftir minnispunktum og fyrirliggjandi gögnum.

Myndir: Halldór Þórðarson

Aðalfundur FKE 7. apríl 2018

Alls mættu 46 gestir og spilað var á 7 borðum. Myndir voru sýndar úr ýmsum ferðum.
Vinningshafar spilaverðlauna; Gunnar Finnsson fékk karlaverðlaunin og Margrét Barðadóttir kvennaverðlaunin og hlutu þau bókaverðlaun til skemmtilestrar frá Uglu Útgáfu ásamt Pésa Péturs Bjarnasonar.
Þá var kaffihlé með glæsilegum veitingum að vanda.

Aðalfundurinn:
Formaður stjórnaði sjálfur fundinum. Bað hann um leyfi fundarins að breyta röð liða og taka lagabreytingar fyrr inn. Var það samþykkt.
Þá var skýrsla stjórnar flutt og gjaldkeri útskýrði ársreikning. Var hvoru tveggja samþykkt. Lagabreytingarnar miðuðu einkum að samræmingu á orðalagi við lög KÍ. Var tillagan samþykkt.
Kosning stjórnar.
Formaður kosinn til eins árs: Pétur Bjarnason.
Halldór og Guðrún Ólafía voru kosin til tveggja ára í fyrra og eiga því eitt ár eftir. Kristján og Sigurlín voru núna kosin til tveggja ára. Guðmundur og Marta Sigurðardóttir eru í varastjórn, kosin til eins árs.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði punkta frá fundum.

Fundargerð aðalfundar FKE 2017
Aðalfundur Félags kennara á eftirlaunum var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík að lokinni dagskrá á hefðbundnum skemmtifundi félagsins.

Aðalfundinn sátu um 35 manns.
Formaður, Þóra Guðmundsdóttir setti aðalfundinn, bauð félaga velkomna og skipaði Emil Hjartarson fundarstjóra.
Síðan var gengið til dagskrár samkvæmt lögum félgsins.
Formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir starfsemi ársins. Hér verður ekki rakið efni skýrslunnar, þar sem þessi aðalfundargerð berst eingöngu stjórnarmönnum í hendur og fundargerðir stjórnar á árinu lýsa starfi stjórnarinnar að miklu leyti.
Þá lagði gjaldkeri, Kristján Sigfússon, fram reikninga félagsins fyrir árið 2016, fór yfir þá og skýrði einstaka liði. Tekjur og útgjöld stóðust nánast á og sagði Kristján að það ætti í raun að vera markmið félagsins að þeir peningar sem það hefði undir höndum rynnu til félagsmanna. Það er í raun gert með því að greiða verulega niður verð á skemmtifundum og ferðalögum en einnig fá Ekkókórinn og bókaklúburinn fjárframlag frá félaginu. Félagið á í varasjóði sínum um átta milljónir króna, sem er talið tryggja stöðu þess nægjanlega. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.
Þá var lögð fram tillaga stjórnar að lagabreytingu sem kynnt hafði verið með fundarboði. Breytingin varðar 4. grein félagslaganna og er sú, að í stað „Aðalfundur skal haldinn árlega í maí …“ komi: „Aðalfundur skal haldinn árlega í apríl …“ Lagabreytingin var samþykkt samhljóða. Fyrirspurn kom úr sal hvort þessi breyting þýddi að maífundir yrðu aflagðir, en formaður, sem kynnti lagabreytingartillöguna, svaraði því til að skipting funda á mánuði væri annað mál, óháð lögunum, en bundið ákvörðunum stjórnar hverju sinni.
Þá var lauslega kannað á fundinum vilji þeirra sem þar voru mættir til að fella niður maífundi, en áhugi virtist að halda því áfram, sem kom ekki á óvart í ljósi þess að eingöngu voru mættir til þessa fundar þeir sem mæta vilja í maí.
Þá var gengið til kosninga. Þóra formaður hættir störfum þar sem sex ára stjórnarsetu hennar lýkur nú í vor samkvæmt 6. gr. laga FKE. Fundarstjóri, sem er fyrrverandi formaður FKE, þakkaði Þóru samvinnu í stjórn félagsins og einstaklega farsæla formennsku, en hann sagðist hafa neytt hana til starfans er hann gekk úr stjórninni og aldrei hafa iðrast þess. Fundarmenn tóku undir orð fundarstjóra og þökkuðu Þóru fyrir með hressilegu lófataki.
Þóra ávarpaði fundinn og þakkaði stjórninni samstarfið og félagsmönnum sömuleiðis gott samstarf og skemmtilega viðkynningu á undanförnum árum. Hún myndi sjá eftir þessum störfum, sem hefðu veitt henni mikla gleði.
Pétur Bjarnason gaf kost á sér til formennsku í stjórn og þar sem ekki voru fleiri í kjöri var hann sjálfkjörinn formaður til eins árs.
Ekki þurfti að kjósa í aðalstjórn en eitt sæti laust í varastjórn. Tveir gáfu kost á sér til starfans, Hjálmar (Vantar föðurnafn) og Sigurlín Sveinbjarnardóttir. Var gengið til leynilegra kosninga og hlaut Sigurlín kosingu sem varamaður í stjórn til eins árs.
Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Egill Sigurðsson og Þorvaldur Jónasson.
Enginn kvaddi sér hljóðs undir liðnum önnur mál.
Pétur Bjarnason nýkjörinn formaður ávarpaði fundinn, þakkaði traustið, stjórnarmönnum samstarf á undanförnum árum, en hann hefur setið í stjórn FKE í fjögur ár . Hann sagðist taka starfið að sér vegna öflugra stjórnarmanna, sem myndu vafalítið gera sér starfið léttbært.
Að svo búnu var aðalfundi formlega slitið og veitt verðlaun fyrir félagsvistina á skemmtifundinum.

Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.