Aðalfundir

Innskráning

Nýskráning

Fundargerð aðalfundar FKE 2019

Aðalfundur FKE 6. apríl 2019

Aðalfundur FKE var haldinn á Grand hóteli 6. apríl 2019, eftir að spiluð hafði verið félagsvist samkvæmt venju.
Á dagskrá voru venjuleg aðalfundarstörf.
Fundarstjóri var kjörinn Emil Hjartarson og síðan gengið til dagskrár.

Skýrsla stjórnar 
Pétur Bjarnason formaður flutti skýrslu stjórnar. Fór hann yfir helstu atriði úr starfi síðasta árs, sem var að miklu leyti hefðbundið. Þó var brugðið út af því með utanlandsferð í stað hefðbundinnar haustferðar og var farið til Danmerkur síðasta haust. Var þátttaka góð og ferðin vel heppnuð. Með þessu var brugðist við óskum félagsmanna í skoðanakönnun síðasta vetur. Sama má segja um gönguferðir sem voru vikulega í vetur og verður þeim örugglega framhaldið. Þá voru teknar upp ferðir á söfn, sem mæltust ágætlega fyrir. Margt fleira kom fram í skýrslu stjórnar sem ekki verður tíundað frekar hér.

Kristín Ísfeld flutti skýrslu gjaldkera, en hún var fengin til að taka starfið að sér vegna forfalla Kristjáns Sigfússonar síðasta haust. Kristín er ekki óvön þessum starfa, því hún var gjaldkeri stjórnar í mörg ár, en lét af stjórnarsetu fyrir fimm árum. Fjárhagsstaða félagsins er góð en það fékk nokkra hækkun framlags frá KÍ á síðasta vori.Litlar umræður urðu um skýrslurnar og voru reikningar samþykktir samhljóða.

Kosningar
Í stjórn FKE sátu fyrir aðalfundinn: Pétur Bjarnason, formaður, Guðmundur Kristmundsson, Guðrún Ólafía Samúelsdóttir, Halldór Þórðarson, Kristín Ísfeld, sem hefur starfað sem staðgengill Kristjáns Sigfússonar sem forfallaðist óvænt síðasta haust, Marta Sigurðardóttir, og Sigurlín Sveinbjarnardóttir.

Pétur Bjarnason gengur úr stjórn þar sem hann hefur starfað þar í sex ár og er því ekki gjaldgengur til endurkjörs. Sömuleiðis óska Guðrún Ólafía Samúelsdóttir, Kristján Sigfússon og Sigurlín Sveinbjarnardóttir eftir að láta af stjórnarstörfum.

Tillaga stjórnar lá frammi um Mörtu Sigurðardóttur til embættis formanns, en hún hefur verið í stjórn FKE. Ekki komu fram aðrar tillögur og er Marta því kjörin formaður FKE til eins árs.

Tillaga stjórnar lá frammi um tvo stjórnarmenn til eins árs í stað Kristjáns og Sigurlínar. Lagt var til að Halldór Þórðarson, sem setið hefur í stjórn, og Guðrún Erla Björgvinsdóttir, sem kæmi þá ný inn í stjórnina yrðu kosin til eins árs. Ekki komu fram aðrar tillögur og eru þau því réttkjörnir stjórnarmenn til eins árs.

Kjósa þurfti tvo stjórnarmenn til tveggja ára, skv. lögum og hefðum. Tillaga stjórnar lá frammi um Guðmund Kristmundsson og Kristínu Ísfeld. Guðmundur situr í stjórninni og Kristín kom í gjaldkerastarfið um áramót en hafði ekki hlotið kosningu til starfsins. Ekki komu fram aðrar tillögur og eru þau því rétt kjörnir stjórnarmenn til tveggja ára.

Tillaga stjórnar lá frammi um að Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir komi ný inn sem varamenn í stjórn. Ekki komu fram aðrar tillögur og voru þau því réttkjörnir varamenn til eins árs.

Tillaga stjórnar um skoðunarmenn reikninga FKE: Egill Sigurðsson og Þorvaldur Jónasson, þrautreynda menn var samþykkt með lófataki.
Ekki urðu umræður um önnur mál á aðalfundinum.

Nýkjörinn formaður Marta Sigurðardóttir ávarpaði aðalfundinn, þakkaði traust sér sýnt, ræddi nokkuð um hlutverk stjórnarinnar og verkefni hennar framundan og sleit síðan fundi.

Fundargerð skrifaði Pétur Bjarnason 28.10.2019 eftir minnispunktum og fyrirliggjandi gögnum.

Myndir: Halldór Þórðarson

Lesið 992 sinnum