Prenta þessa síðu

Fundargerð aðalfundar FKE 2017

Fundargerð aðalfundar FKE 2017
Aðalfundur Félags kennara á eftirlaunum var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík að lokinni dagskrá á hefðbundnum skemmtifundi félagsins.

Aðalfundinn sátu um 35 manns.
Formaður, Þóra Guðmundsdóttir setti aðalfundinn, bauð félaga velkomna og skipaði Emil Hjartarson fundarstjóra.
Síðan var gengið til dagskrár samkvæmt lögum félgsins.
Formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir starfsemi ársins. Hér verður ekki rakið efni skýrslunnar, þar sem þessi aðalfundargerð berst eingöngu stjórnarmönnum í hendur og fundargerðir stjórnar á árinu lýsa starfi stjórnarinnar að miklu leyti.
Þá lagði gjaldkeri, Kristján Sigfússon, fram reikninga félagsins fyrir árið 2016, fór yfir þá og skýrði einstaka liði. Tekjur og útgjöld stóðust nánast á og sagði Kristján að það ætti í raun að vera markmið félagsins að þeir peningar sem það hefði undir höndum rynnu til félagsmanna. Það er í raun gert með því að greiða verulega niður verð á skemmtifundum og ferðalögum en einnig fá Ekkókórinn og bókaklúburinn fjárframlag frá félaginu. Félagið á í varasjóði sínum um átta milljónir króna, sem er talið tryggja stöðu þess nægjanlega. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.
Þá var lögð fram tillaga stjórnar að lagabreytingu sem kynnt hafði verið með fundarboði. Breytingin varðar 4. grein félagslaganna og er sú, að í stað „Aðalfundur skal haldinn árlega í maí …“ komi: „Aðalfundur skal haldinn árlega í apríl …“ Lagabreytingin var samþykkt samhljóða. Fyrirspurn kom úr sal hvort þessi breyting þýddi að maífundir yrðu aflagðir, en formaður, sem kynnti lagabreytingartillöguna, svaraði því til að skipting funda á mánuði væri annað mál, óháð lögunum, en bundið ákvörðunum stjórnar hverju sinni.
Þá var lauslega kannað á fundinum vilji þeirra sem þar voru mættir til að fella niður maífundi, en áhugi virtist að halda því áfram, sem kom ekki á óvart í ljósi þess að eingöngu voru mættir til þessa fundar þeir sem mæta vilja í maí.
Þá var gengið til kosninga. Þóra formaður hættir störfum þar sem sex ára stjórnarsetu hennar lýkur nú í vor samkvæmt 6. gr. laga FKE. Fundarstjóri, sem er fyrrverandi formaður FKE, þakkaði Þóru samvinnu í stjórn félagsins og einstaklega farsæla formennsku, en hann sagðist hafa neytt hana til starfans er hann gekk úr stjórninni og aldrei hafa iðrast þess. Fundarmenn tóku undir orð fundarstjóra og þökkuðu Þóru fyrir með hressilegu lófataki.
Þóra ávarpaði fundinn og þakkaði stjórninni samstarfið og félagsmönnum sömuleiðis gott samstarf og skemmtilega viðkynningu á undanförnum árum. Hún myndi sjá eftir þessum störfum, sem hefðu veitt henni mikla gleði.
Pétur Bjarnason gaf kost á sér til formennsku í stjórn og þar sem ekki voru fleiri í kjöri var hann sjálfkjörinn formaður til eins árs.
Ekki þurfti að kjósa í aðalstjórn en eitt sæti laust í varastjórn. Tveir gáfu kost á sér til starfans, Hjálmar (Vantar föðurnafn) og Sigurlín Sveinbjarnardóttir. Var gengið til leynilegra kosninga og hlaut Sigurlín kosingu sem varamaður í stjórn til eins árs.
Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Egill Sigurðsson og Þorvaldur Jónasson.
Enginn kvaddi sér hljóðs undir liðnum önnur mál.
Pétur Bjarnason nýkjörinn formaður ávarpaði fundinn, þakkaði traustið, stjórnarmönnum samstarf á undanförnum árum, en hann hefur setið í stjórn FKE í fjögur ár . Hann sagðist taka starfið að sér vegna öflugra stjórnarmanna, sem myndu vafalítið gera sér starfið léttbært.
Að svo búnu var aðalfundi formlega slitið og veitt verðlaun fyrir félagsvistina á skemmtifundinum.

Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.

Lesið 1004 sinnum