Fundargerðir

Innskráning

Nýskráning

384. stjórnarfundur

Fundargerð 
384. stjórnarfundur FKE haldinn 20. mars 2017 heima hjá Þóru formanni í Glæsibæ 6.

Mættir voru allir stjórnarmenn. 

Kristján lagði í upphafi fundar fram rekstraryfirlit fyrir árið 2016. Tekjur og gjöld stóðust nánast á, halli upp á kr. 4.659. en velta var rúmar níu milljónir króna. Norræn samvinna var dýrust, kr. 1.315 þúsund. Fréttabréf og vefumsjón kostuðu rúma milljón samanlagt. Þá voru skemmtifundir og árshátíð sem kostuðu um hálfa milljón hvort um sig, en á árshátíðina var kórnum boðið að þessu sinni í þakklætisskyni fyrir veitta þjónustu og skemmtan í áranna rás. Án kórsins hefði árshátíðin verið afar fámenn, enda haldin í síðasta sinn. Kr. 400 þúsund voru lagðar til starfsemi Ekkókórsins.
Formaður ræddi um næsta skemmtifund þar sem Guðmundur Kristmundsson verður með erindi um nýlega Indlandsferð sína. Nauðsynlegt verður að byrja á erindinu og hafa síðan félagsvistina á eftir. Þetta þarf að auglýsa vel í netpósti.
Ákveðið að fá inni á Grand hóteli næsta vetur enda við orðin hagvön þar og þjónusta yfirleitt góð.
Áhugi er fyrir því að að færa aðalfund fram til apríl ár hvert og mun stjórnin leggja fram tillögu til lagabreytingar þar að lútandi á næsta aðalfundi.
Núverandi umsjónarmenn bókmenntaklúbbsins óska lausnar frá störfum sínum þar eftir tímabilið. Því þarf að huga að nýju fólki í þeirra stað. Umræður urðu um form bókmenntaklúbbsins, skemmtifundanna og almennt um störf stjórnar og hlutverk. Spurt hvort félagið hafi staðnað í vinnubrögðum og hvort nýjar leiðir væru e.t.v. færar til að ná til fleiri félagsmanna. Til dæmis mætti fækka spilafundum en taka upp annað áhugavert efni í þeirra stað. Þá þarf að huga að því hvort slíkt þyrfti endilega að vera mjög dýrt. Gera mætti fréttabréfið fjölbreyttara og færa það í áföngum úr tilkynninga- og dagskrárriti í að vera einnig vettvang fréttapunkta og stuttra pistla.
Líflegar og góðar umræður urðu um þessi málefni og ákveðið að kynna vel aðalfund sem verður í maí og óska eftir framboðum til þeirra embætta sem þá verður kosið til.
Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 3. apríl kl. 14:00.
Fleira ekki gert, fundi slitið undir klukkan 16:00 og sest að veglegu kaffiborði formannsins.
Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.

Lesið 507 sinnum