Fundargerðir

Innskráning

Nýskráning

2018 (12)

405. stjórnarfundur FKE haldinn 11. 12. 2018 kl. 10:00 í Kennarahúsinu

Mættir: Halldór, Marta, Kristján, Guðrún, Kristín, Pétur og Guðmundur sem ritaði fundargerð. Sigurlín boðaði forföll vegna veðurs. 

Formaður setti fund kl. 10.05

 1. Kristín Ísfeld var boðin velkomin á fundinn. Formaður greindi frá því sem áður hefur verið rætt í tölvupóstum að vegna fjölskylduaðstæðna hefur Kristján Sigfússon óskað eftir lausn frá stjórnarstörfum og þar með starfi gjaldkera. Kristín Ísfeld, fyrrum gjaldkeri FKE er tilbúin að taka við starfi gjaldkera af Kristjáni. Óskaði formaður eftir formlegri afgreiðslu stjórnar á þessari breytingu og var hún samþykkt samhljóða. Kristín mun því gegna starfi gjaldkera frá áramótum.
 2. Formaður greindi frá niðurstöðum máls vegna sumarferðar sl. sumar. GJ travel býðst til að greiða þeim 15.000 kr. sem voru 2 nætur í annexíu, sem ekki var samkvæmt ferðalýsingu, og 7.500 þeim sem voru eina nótt við slíkar aðstæður. Fundarmenn samþykktu þessa lausn.
 3. Fréttabréfið framundan: Illa gekk með spilafundi í haust og fáir mættu. Formaður lagði til að Grandfundum yrði fjölgað um 2-3 fundi. Það var samþykkt. Guðrúnu falið að kanna hvort 5. eða 12. janúar gangi hjá Grand hóteli. Halldór benti á að Hringfari væri til í að halda fyrirlestur á Grandfundi. 2. feb. hátíðarfundur, 2. mars spilafundur, 6. apríl Grandfundur, aðalfundur.
  Gönguferðir á mánudögum hafa gengið vel og hópurinn verið 5-14 manns. Pétur tók að sér að búa til skrá um göngur til aprílloka. Skrá birt í næsta fréttablaði.
  Minnt verður á starf kórsins í vetur sem verður með sama sniði. Bókmenntaklúbburinn starfar samkvæmt dagskrá sem birt verður í fréttabréfinu.
  Þá var ákveðið að gera grein fyrir könnuninni og hvernig þær upplýsingar reyndust í starfinu. Þá þarf að setja inn upplýsingar um breytingar á stjórn, svo sem fram kom í upphafi fundar.
 4. Færeyjar: Rætt um ferð stjórnar á fund til Færeyja. Formaður gerði grein fyrir samskiptum við Færeyinga um málið. Mörtu og Guðmundi falið að kanna fargjöld og leiðir.
 5. Ferðir á komandi sumri: Rætt var að bjóða upp á dagsferð innanlands og tveggja til þriggja daga ferð innanlands auk utanlandsferðar. Þetta þarf að skoða og ákveða. Fólk var ánægt með utanlandsferðina síðastliðið sumar, þrátt fyrir fáein vandamál. Til greina kæmi t.d. dagsferð til Stykkishólms og bátsferð um Breiðafjörð. Hugsanlega miðvikudaginn 17. júlí og ef til vill tveggja til þriggja daga ferð í lok ágúst og þá um Norðausturland. Einnig var rætt um utanlandsferð og kom þá til álita 4-5 daga ferð um Skotland eða Írland. Ákveðið var að safna upplýsingum um slíkar ferðir fyrir næsta fund.
 6. Söfn: Vel þótti takast til í heimsókn á Þjóðminjasafn og lagt til á fundinum að fara aðra slíka ferð í vetur, líklega í mars. Rætt var um Perluna eða Sjóminjasafn. Leist mönnum vel á báðar stofnanir en ræddu að gott væri að fara fyrst á Sjóminjasafnið og til þess væri 13. mars heppilegur dagur.
 7. Önnur mál: Kristján minnti á norræna fundinn sem halda á hér 2021 og nauðsynlegt væri að fara að undirbúa hann nú í vetur, einkum væri mikilvægt að velja stað og bóka hótel. Fundarmenn hvattir til að hugleiða málið og koma með tillögur

Fundi slitið 11.40

Næsti fundur boðaður 16. janúar 2019 kl. 10:00

Fundargerð
404. stjórnarfundur FKE haldinn 15.11. 2018 kl. 11.00 í Kennarahúsinu. 

Mætt voru: Pétur, Halldór, Marta og Guðmundur. Aðrir boðuðu forföll

Formaður setti fund.

 1. Formaður greindi frá lyktum máls varðandi hótel í sumarferð. Komist hefur verið að samkomulagi við ferðaskrifstofu um að þeir sem urðu að gista í annexíu fengju 7.500 kr. í bætur og fararstjóri fengi bætur vegna óviðunandi aðstöðu.
 2. Grein var gerð fyrir starfinu í haust. Haustfundur gekk vel og var vel sóttur. Nánast engin ásókn var í að spila vist, einungis 2 mættu auk stjórnarmanna. Ákveðið var að félagsvist yrði ekki í boði eftir áramót. Þessar undirtektir voru alls ekki í samræmi við könnun. Betur lítur út með bridge. Þar hefur nokkur hópur komið saman. Þá hefur vel tekist til með gönguhóp sem kemur saman á mánudögum. Þar hafa 14 manns mætt.
 3. Formaður greindi frá væntanlegum fundi norrænna stjórnarmanna í Færeyjum og bréf varðandi hann. Þar hefur dagsetningu verið hnikað til. Stjórnarmenn töldu það ekki verða til vandræða.
 4. Nokkuð var rætt um ferðir næsta sumar. Nauðsynlegt er að ákveða þær strax upp úr áramótum. Hugmyndir kviknuðu um ferð annað hvort til Skotlands eða Póllands. Jafnframt var rætt um ferð eða ferðir innanlands. Þar var nefnd ferð um Snæfellsnes og ef til vill bátsferð um Breiðafjörð. Einnig var rædd ferð um Þingeyjarsýslur.
 5. Svolitlar umræður urðu um norrænt mót á Íslandi 2021. Það þarf að fara að undirbúa og gróf áætlun þyrfti að liggja fyrir í vetrarlok svo unnt verði að bóka hótel og aðra aðstöðu. Tveir staðir voru nefndir, Suðurnes og nágrenni Akureyrar. Mönnum leist betur á Suðurnes.
 6. Önnur mál: Ræddar breytingar á starfsáætlun. Svo virðist sem ástæða væri til að fjölga Grandfundum í ljósi þess að aðsókn hefur verið dræm t.d. í spilafundi. Huga þarf að breytingum og senda út í byrjun næsta árs.

Næsti fundur boðaður 11. desember.

Fundi slitið

Fundargerð
403. stjórnarfundur FKE haldinn 15.10.2018 í Kennarahúsinu kl. 10:00. 

Mætt voru; Pétur, Kristján, Halldór, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Marta. Guðmundur var forfallaður.

Pétur setti fund.

 1. Helsta umræðuefni fundarins er hvernig félagsstarfið fer af stað á þessu hausti. Vikulegar gönguferðir eru komnar af stað, gengið í rúman klukkutíma. Hópurinn er ekki stór en fer vonandi stækkandi. Búið er að spila félagsvist einu sinni og ekki var jafn fjölmennt og á Grand-fundunum en fólk er ekki búið að átta sig alveg á hvar þetta fer fram. Salurinn góður og konan sem sér um kaffið frábær, en borðin eru kannski svolítið of stór. Bridds verður í fyrsta sinn á miðvikudaginn og verður spennandi hvernig það verður. Þetta heldur allt áfram til áramóta og þá metum við hvernig til hefur tekist. Stjórnarmenn skiptast á að mæta og sjá um verðlaun.
  Bókmenntaklúbburinn hefur hafið starfsemi sína á fimmtudögum og heldur henni áfram í október og nóvember.
  Þann 6. október var skemmtilegur hátíðarfundur á Grand-hóteli þar sem vel var mætt (hátt í 50 manns). Sagt var frá sumarferðunum og sýndar myndir, Guðmundur Kristmundsson flutti skemmtilegt erindi sem fjallaði um uppvöxt hans, og kökuborðið var að venju glæsilegt. Fólk var hið ánægðasta.
 2. Ekkókórinn hefur sótt um aukinn styrk enda hefur hann ekki fengið hækkun í mörg ár. Samþykkt var að þeir fái 50.000 til viðbótar eða 450.000.
 3. Næsti fundur verður þann 15.11. kl. 11. Farið verður í heimsókn í Þjóðminjasafnið eftir hádegi þann dag.

Önnur mál voru engin.
Fundi slitið kl. 11.15.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð
402 stjórnarfundur 10. september 2018 haldinn í Kennarahúsinu

Viðstaddir: Pétur, Guðrún, Halldór, Kristján, Marta, Guðmundur. Sigurlín boðaði forföll.

Formaður setti fund kl. 14.00

Einkum var rætt um útkomu næsta fréttabréfs og þá liði á dagskrá vetrarins sem þar þyrftu að eiga rúm.

Halldór greindi frá því að Kristín Ísfeld væri reiðubúin að sjá um bridgehóp.

Pétur greindi frá stöðu mála varðandi Danmerkurferð í sumar og þeim agnúum sem þar urðu á. Hann sagðist halda málinu vakandi og hafa frekara samband við ferðaskrifstofu.

Halldór gerði grein fyrir stöðu á næsta fréttabréfi og lagði fram nokkuð fullbúin drög. Fundarmenn lásu yfir. Nokkuð var rætt um beiðni um „lestrarvini“ úr röðum félagsmanna og áðurkomna beiðni Rauðakross Íslands um svipað efni. Ákveðið var að geta þessa í fréttabréfinu.

Guðmundur greindi frá samskiptum við Þjóðminjasafn vegna kynningar 15. nóvember. Honum var falið að ganga frá málinu. Ákveðið var að hver þátttakandi greiddi 1000 kr., þ.e. helming af kostnaði einstaklings.

Nokkrar umræður urðu um fyrsta fund vetrarins á Grandhóteli hinn 6. október. Formaður sagðist verða fjarverandi og bað fundarmenn að stýra fundinum. Samþykkt var eftirfarandi dagskrá:

 1. Vetrarstarf kynnt.
 2. Frásögn af ferðum sumarsins.
 3. Stutt erindi Guðmundar sem hann kallar Litið til baka
 4. Kaffi og spjall.

Gjaldkeri lagði fram stöðuyfirlit frá áramótum til september 2018 og er fjárhagur allgóður eða um 2.2 millj.

Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 8. október kl. 10:00

Fundi slitið kl. 15.20

Guðmundur ritaði fundargerð

Fundargerð
401. stjórnarfundur FKE 6. sept 2018 í Austra

Fundur settur kl. 10.00
Viðstaddir: Pétur, Sigurlín, Guðrún, Halldór, Kristján, Marta, Guðmundur

 1. Ferðir sumarsins: Pétur gerði grein fyrir ferðum sumarsins. Finnlandsferð norrænna stjórnarmanna tókst vel í hvívetna. Þórsmerkurferð tókst einnig mjög vel. Pétur gerði grein fyrir Danmerkurferð og þakkaði Sigurlín fyrir gott og mikið starf við að skipuleggja hana. Ferðin tókst vel að flestu leyti. Einhver vandræði urðu vegna hótels. Pétur kom á framfæri kvörtun við GJ-travel.og las bréf sem fóru á milli hans og ferðaskrifstofunnar.
 2. Vetrarstarfið framundan: Þrír fundir ákveðnir á Grand. Á fyrsta fundi þarf að ræða vetrarstarfið og segja frá ferðum sumarsins. 
 3. Spiladagar í Jötunheimum, tveir í mánuði, annar í bridds og hinn vist. Spilamennska hefst kl. 13.30 og stendur til 16.00. Ákveðið að biðja Kristínu Ísfeld um að taka þennan þátt að sér. Halldór tók að sér að ræða við hana.– Pétur bauðst til að stýra félagsvist.
 4. Annað starf í vetur, með könnunina í huga: Bókmenntahópur hefur starfað lengi og áhugi virðist fyrir hendi. Sigurlín benti á góðan bókmenntahóp á vegum U3A, ef okkar hópur yrði of fámennur. Benda mætti á ýmislegt sem er í gangi, t.d. á bókasöfnum og víðar. Lagt til að kanna annað fyrir næsta fund, svo sem sundleikfimi, qi gong og fleira. Athuga mætti leikhúsferð t.d í nóvember. Tillaga um heimsókn á þjóðminjasafn, þar mætti jafnvel hafa fullveldið í huga. Guðmundi var falið að hafa samband við safnið og fá leiðsögn seinni hluta nóvember. Hugmyndir ræddar um gönguhóp og ákveðið að gera tilraun með hann. Hefja göngu í Öskjuhlíð og mæta við Perluna kl. 13.30 á mánudegi. Margar hugmyndir komu fram. Pétur er til í að hafa nokkra umsjón en stjórnarmenn taki þátt eins og þurfa þykir. Æskilegt er að hópurinn verði sjálfstæður þannig að þátttakendur leiði göngur.
 5. Fréttabréf haustsins: Kynning á vetrarstarfinu, m.a. skemmti- og fræðslufundum á Grand og spilafundum. Fyrstu fundir í Jötunheimum, skátaheimilinu í Garðabæ, verða 3. okt. og 17. okt. Rætt var um óskir til kennara á eftirlaunum um að taka að sér að lesa fyrir og með börnum, einkum börnum með annað mál en íslensku. Lagt til að þetta verði auglýst í blaði félagsins.
 6. Önnur mál: Formaður lagði fram fána sem félaginu barst frá Kennarasambandinu vegna fyrsta norræna mótsins hér á landi.

Næsti fundur boðaður mánudag 10. sept. kl. 14.00
Fundi slitið kl. 11.45
Guðmundur B. Kristmundsson skráði fundargerð

Fundargerð
400. stjórnarfundur FKE haldinn 28.5.2018 í Kennarahúsinu kl. 13:00.

Mætt voru; Pétur, Kristján,Halldór, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Marta. Guðmundur var forfallaður.

Pétur setti fund.

Það sem mest liggur á er lokafrágangur sumarferðanna. Ekki verður aftur haldinn fundur um þær en við munum skiptast á tölvupóstum þegar nær dregur. Sumarferðir okkar hafa verið niðurgreiddar eins og önnur dagsskrá hjá félaginu, þannig njóta félagsmenn styrksins sem fæst til starfseminnar.
Þórsmerkurferð 18. júlí.
Fullbókað er í þessa dagsferð enda er hún glæsileg og á lágu verði. Fengist hefur betra tilboð í rútur hjá GJ ferðir og búið er að staðfesta eina 49 manna og aðra 16 manna. Þeir sem ætla með af stjórnarmönnum eru Halldór, Guðmundur +1, Pétur +1, Kristján +1, Sigurlín +1, Guðrún og etv. Marta. Fólkið þarf að mæta við Olísstöðina í Norðlingaholti kl. 8.45 þar sem við getum ekki lengur farið frá Umferðamiðstöð. Sigurlín sér um samlokur í nesti og kaffi í hitabrúsum. Hún kemur í bílinn á Hvolsvelli. Einnig er hún búin að panta fyrir hópinn í Eldgosa-setrinu á Hvolsvelli og í mat á Hótel Rangá um kvöldið.
Jótlandsferð 27.-31. ágúst.
Enn eru laus sæti í þessa ferð og ljóst að ekki verða 40 eins og lagt var af stað með heldur nær 30. Þeir af stjórninni sem ætla með eru Kristján +1, Guðrún og Sigurlín (samið var um tvo frímiða). Þörf er á að senda út ítrekunarbréf og biðja fólk að ákveða sig sem fyrst en skráningu lýkur 10. júní og þá verður miðunum ráðstafað annað. Nú hefur ferðaskrifstofan ákveðið verðið kr. 159.200 sem dekkar allt nema tvo hádegisverði. Því var rætt að rétt væri að þeir félagsmenn sem fara í þessa ferð fái að njóta niðurgreiðslu af styrk félagsins eins og allir aðrir og að FKE bjóði í einn hádegisverð. Var það samþykkt.
Finnlandsferð 11.-15. 6. 2018.
Allt er undirbúið undir ferð til Hanaholmen í Finnlandi á ”Lærerpensionisttref”, búið að velja söngtexta og hvaðeina. Stjórnarmenn hittast í Leifsstöð.

Eftir þessar skemmtilegu ferðir í sumar tekur við að skipuleggja betur félagsstarfið í vetur. Pétur tekur að sér að tala betur við þá sem hafa með salinn í Garðabæ að gera svo það sé allt tryggt þegar við förum að vinna áfram með vetrardagsskrána í ágúst.
Önnur mál voru engin. Næsti fundur verður í ágúst.
Fundi slitið kl. 14.45.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð
399. stjórnarfundur FKE haldinn 23.4.2018 í Kennarahúsinu kl. 13:00.

Mætt voru; Pétur, Kristján, Guðrún Ólafía, Guðmundur, Sigurlín og Marta. Halldór var erlendis.

Pétur setti fund og afsakaði seinkun frá boðuðum fundartíma.

Nýskipuð stjórn skipti með sér verkum. Pétur er áfram formaður til eins árs, Guðrún Ólafía varaformaður til eins árs, Kristján gjaldkeri til eins árs og Sigurlín ritari kosin til tveggja ára. Aðrir eru meðstjórnendur.
Guðmundur sagði frá KÍ-þingi sem hann og Guðrún Lára sátu. Það var áhugavert og fróðlegt einkum pallborð sem hann lét vel af sem Jón Torfi stjórnaði prýðilega. Þegar kom að nefndarstörfum fór Guðrún í orlofshóp en hann í skólamálahóp. Guðrún kom okkar sjónarmiðum að í sínum hópi. Margar ályktanir voru sendar út að loknu nefndarstarfinu. Það var ánægjulegt hversu margir sýndu félaginu áhuga og spurðu um margt.

Fréttabréf þarf ekki að koma út fyrr en í byrjun maí. Halldór kemur til landsins á morgun. Pétur klárar ásamt Halldóri að ganga frá því sem eftir er. Fram þarf að koma varðandi sumarferðirnar hvenær á að vera búið að skrá sig og hvar og helst að greiða sem fyrst. Nokkuð var rætt um þetta en það þarf að leita upplýsinga s.s hjá GJ ferðum.

Rætt var um Skemmti- og fræðslufundina. Pétur stingur upp á að ekki verði alveg hætt við Grand-fundina þótt þeir séu dýrir, en við höldum okkur við þrjá fundi: 6. október upplýsingar um vetrarstarfið, 2. febrúar hátíðarfund og 6. apríl aðalfund. Var vel tekið í þessa tillögu og fer Guðrún með þau skilaboð til samninga við Grand hótel. Síðan verði kynnt í haust önnur starfsemi félagsins í fréttabréfi og á fundi.
Önnur mál voru engin.

Næsti fundur verður mánudaginn 28. maí kl 13.
Fundi slitið kl. 14.35.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð
398. stjórnarfundur FKE haldinn 5.4.2018 í Kennarahúsinu kl. 11:00.

Mætt voru; Pétur, Kristján, Halldór, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Guðmundur og Sigurlín.
Pétur setti fund.
Aðalfundur er eftir aðeins tvo daga, þann 7. apríl. Fram kom að Guðrún Lára gefur ekki kost á sér áfram í stjórn en hún gæti verið eitt ár enn. Pétur gefur kost á sér aftur í formannssætið. Huga þarf að nýjum stjórnarmanni/konu í stað Guðrúnar Láru. Fram kom uppástunga um Mörtu Sigurðardóttur, fyrrum leikskólastjóra, sem farið hefur með okkur í ferðirnar síðastliðin ár.
Sigurlín sagði frá Danmerkurferð sem skipulögð er í samvinnu við Ferðaskrifstofu GJ 27.-31. ágúst 2018. Flogið er til Billund, ekið til Skagen og gist í tvær nætur, síðan farið á Fjón einn dag en gist á Mið-Jótlandi í tvær nætur (nálægt flugvellinum). Á báðum stöðum góð hótel. Miðað við 40 manns er verðið 159.200 á mann, allt innifalið nema hádegishressing í tvo daga þar sem fólk hefur frjálsan tíma og er dreift.
Einnig var fjallað um dagsferð í Bása í Þórsmörk sem er fyrirhuguð miðvikudaginn 18. júlí 2018. Sigurlín leggur til að haft verði nesti með í Bása, kaffi á brúsum og samlokur. Síðan verði nýja eldfjallasetrið Lava á Hvolsvelli skoðað og kvöldverður snæddur á Hótel Rangá. Verð á dagsferð verður nálægt 12.000 kr.
Báðar þessar ferðir verða kynntar í Fréttablaði sem út kemur í lok apríl nk. Þarf að vera tilbúið 18.4.
Rætt var um orlofshugmyndina, að komast inn í orlofshópinn og koma hugmyndum inn. Guðmundur og Guðrún Ólafía eru með þetta mál og huga að því að koma inn tillögu í haust.
Farið var yfir niðurstöður könnunar sem gerð var í vetur meðal félagsmanna. Verða þessar niðurstöður hafðar að leiðarljósi í skipulagi félagsstarfs næsta vetrar. Formaður fór vel yfir niðurstöður og var búinn að draga saman nokkra þætti. Sumarferðirnar eru inni og liggja nú þegar fyrir. Gönguferðir verða inni, þarf að útfæra það nánar. Einnig ferðir á söfn eða leikhús. Spiladagar munu breytast m.a. vegna mikils kostnaðar og þarf að vinna að lausn þeirra. En Grandfundir verða þó til áfram, s.s. hátíðarfundurinn. Lesklúbburinn á helst að halda áfram. Þetta krefst allt mikillar skipulagningar og munum við vinna úr þessu í vor og sumar.

Fundi slitið um kl. 12.50.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð
397. stjórnarfundur FKE haldinn 22.3. 2018 kl 14.00 í Kennarahúsinu.

Mætt voru; Pétur, Kristján, Halldór, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Guðmundur og Sigurlín.

Formaður setti fund.
Til fundar var boðað einkum vegna komandi aðalfundar og væntanlegra breytinga á lögum félagsins.
Tillögur að lagabreytingum lagðar fram
2. grein. Brott falli málsgreinin: fylgjast með og vinna að gerð kjarasamninga fyrir félagsmenn Kennarasambands Íslands,
4. grein. Brott falli orðið „bréflega“ í boðun aðalfundar, fyrsta lína greinarinnar. Einnig falli brott síðasta málsgrein „Á aðalfundi, sem haldinn er sama ár og þing Kennarasambands Íslands, skal kjósa tvo fulltrúa í Kjararáð Kennarasambands Íslands“.
5. grein. Í fjórða málslið dagskrár aðalfundar falli brott „og eins til vara“. Fimmti málsliður greinarinnar falli brott, sbr. breytingar við 2. gr.: „Kosning tveggja fulltrúa í kjararáð Kennarasambands Íslands (þriðja hvert ár)“.
6. grein. í stað orðsins „endurskoðendur“ í fjórðu málsgrein komi: „skoðunarmenn reikninga“, til samræmis við fjórða málslið dagskrár aðalfundar. Í síðustu málsgrein 6. greinar komi punktur á eftir „ ... félagsins“, en brott falli lok málsgreinarinnar, „ ... t.d. fulltrúa á þing Kennarasambands Íslands“.

Verðlaun fyrir sigurvegara í spilum á Grandfundum
Sigurlín gaf 4 bækur sem veittar verða í verðlaun. Stuttar almennar umræður um verðlaun og Sigurlín þakkaðar bækurnar.
Sumarferðir
Sigurlín gerði grein fyrir Þórsmerkurferð 18. júlí. Rætt var um veitingar. Samþykkt var að bjóða upp á samlokur og kaffi í Þórsmörk en góða máltíð á leiðinni heim. Sigurlín tók að sér að kanna verð og veitingastaði.
Nokkuð var rætt um Danmerkurferð. Þar liggur skipulag og verð fyrir en Sigurlín gerði að tillögu sinni að heimsækja góðan veitingastað í Kerteminde áður en haldið væri til Óðinsvéa, síðasta daginn. Þessi breyting var samþykkt.
Nokkuð var rætt um kynningu ferðanna og útkomu næsta fréttablaðs. Halldór benti á tímamörk.
Ákveðið var að ganga frá skipan og verði ferða á næsta fundi, svo unnt væri að koma þeim upplýsingum í fréttabréf.
Kjör stjórnarmanna á aðalfundi
Nokkrar umræður urðu um stjórn félagsins og hlutverk einstakra stjórnarmanna og kjörtímabil þeirra. Þau mál ligga fyrir og tengjast kosningu á aðalfundi.
Önnur mál
Fyrirspurn til stjórnar frá fundi stjórnenda í leikskólum. Þeir lýsa óánægju með það að geta ekki notað áunna punkta vegna sumarbústaða eins og verið hefur. Telja ekki réttlátt að hafa víkjandi aðgang. Málið var lítillega rætt og stjórnarmenn sýndu því skilning. Ef til vill ætti að taka þetta upp við stjórn Olofssjóðs.
Ákveðið að fjalla um niðurstöður könnunar á næsta fundi 5. apríl kl. 11.00.

Fundargerð
396. stjórnarfundur FKE haldinn 26.2.2018 í Kennarahúsinu kl. 11:00.

Mætt voru; Pétur, Kristján, Halldór, Guðrún Lára, Guðmundur og Sigurlín.
Pétur setti fund. 

Sigurlín sagði frá Danmerkurferð sem skipulögð er í samvinnu við Ferðaskrifstofu GJ 27.-31. ágúst 2018. Ferðin er að verða tilbúin en nokkur atriði voru rædd, m.a. hádegisverðir: Flogið er til Billund, ekið til Skagen og gist í tvær nætur, síðan farið á Fjón einn dag en gist á Mið-Jótlandi í tvær nætur (nálægt flugvellinum). Á báðum stöðum góð hótel. Miðað við 40 manns er verðið 159.200 á mann, allt innifalið nema hádegishressing í tvo daga þar sem fólk hefur frjálsan tíma og er dreift.
Einnig var fjallað um dagsferð í Bása í Þórsmörk sem er fyrirhuguð miðvikudaginn 18. júlí 2018. Sigurlín leggur til að haft verði nesti með í Bása, kaffi á brúsum og samlokur. Síðan verði nýja eldfjallasetrið Lava á Hvolsvelli skoðað og kvöldverður snæddur á Hvolsvelli þar sem um nokkra nýja staði er um að velja.
Báðar þessar ferðir verða kynntar í Fréttablaði sem út kemur í lok apríl nk.
Farið var yfir niðurstöður könnunar sem gerð var í vetur meðal félagsmanna. Yfirlit Guðmundar og Péturs voru rædd. Verða þessar niðurstöður hafðar að leiðarljósi í skipulagi félagsstarfs næsta vetrar.
Sönglögin fyrir Finnlandsferð hafa verið valin og hefur Pétur safnað þeim saman og haldið utan um.
Hátíðarfundur á Grand hóteli 3. mars var ræddur. Það verður mæting kl. 13 og léttur málsverður sem kostar kr. 4.000. Nornirnar munu sjá um söngatriði og Helgi R. Einarsson stjórnar fjöldasöng.
Önnur mál:
Árskýrsla verður gerð frá áramótum til áramóta fyrir aðalfundinn í apríl.
Bréf til KÍ varðandi hækkun framlags til FKE hefur verið sent og er til umfjöllunar. Formaður KÍ nefndi 19. gr. í lögum félagsins þar sem FKE er nefnt í tengslum við lífeyrismál. Engin ástæða þótti að hafa þetta áfram. Var því eftirfarandi samþykkt bókuð:
Stjórn FKE samþykkir fyrir sitt leyti að felld verði út eftirfarandi málsgrein í 19. gr. laga KÍ: Boða skal formann FKE á fund stjórnar KÍ þegar fjallað er um lífeyrismál. Formaður FKE hefur ekki atkvæðisrétt á stjórnarfundum KÍ.

Fundi slitið um kl. 12.10.
Næsti fundur var ákveðinn 22. febrúar 2018 kl. 14 í Kennarahúsinu.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.