Fundargerðir

Innskráning

Nýskráning

2017 (11)

Fundargerð 
393. stjórnarfundur FKE haldinn 11.12.2017 í Kennarahúsinu kl. 11:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Kristján, Guðrún Ólafía, Guðrún Lára og Guðmundur.

Sigurlín var erlendis.
Pétur setti fund í seinna lagi.
Kristján greindi frá því að niðurgreiðslur vegna þriggja skemmtifunda næmi rúmlega þrjú hundruð þúsund krónum, en þar vegur þungt góð mæting á desemberfund. Menn voru sammála um að þeta væri of mikið.
Hækkun gjalds um áramót mun slá á þennan kostnað.
Formaður bað Kristján gjaldkera að afla upplýsinga úr ársreikningum eða frá fyrri gjaldkera um það hvenær framlag Kennarasambandsins til FKE hækkaði síðast með það að markmiði að sækja um hækkun sem fyrst.
Rætt um möguleika á að færa sig um set með skemmtifundina eða þþa starfsemi sem verður ákveðin næsta haust og Borgir, félagsheimili Korpúlfa koma sterklega inn í myndina. Pétur mun kanna það. Þá var Guðrúnu Ólafíu ásamt Pétri falið að kanna verð á veitingum fyrir hátíðafund í mars. Aðgangseyrir á hann verður kr. 3.500.
Farið var yfir fréttabréf í janúar 2017 og fastir liðir yfirfærðir á næsta fréttbréf skv. venju. Texti þeirra verður styttur og þar skapast pláss fyrir aðrar fréttir.
Sumarferðirnar verða kynntar þannig að það verður væntanlega komin dagsetning á Þórsmerkurferðina fyrir prentun um miðjan janúar, en síðan verður sagt frá athugun stjórnar á mögulegri utanlandsferð næsta haust.
Aðgangseyrir skemmtifunda verður kr. 2.500 eftir áramót. Það verður kynnt og ástæður útskýrðar.
Greint verður frá könnuninni um starf FKE sem fer af stað eftir áramótin.
Halldór og Pétur verða í sambandi um texta á síðu 3 og e.t.v. 4 varðandi framangreint o.fl.
Ákveðið að Guðrún Lára verður með dagskrá á janúarfundinum og segi frá ferðalagi sínu í Austurlöndum en Pétur í febrúar, þar sem Kyndilmessa og sólargangur vítt um land verði tekið fyrir. Ekki ákveðið enn hver verður dagskrá hátíðafundarins en þar verði gjarnan tónlistaratriði og skemmtiatriði. Í apríl, sem verði jafnframt síðasti fundur vetrarins verði aðalfundarstörf og e.t.v. eitthvað fleira.
Fundi slitið um kl. 12.05.
Næsti fundur var ákveðinn 22. janúar 2018 kl. 11 í Kennarahúsinu, Austra.

Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
392. stjórnarfundur FKE haldinn 15.11.2017 í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Kristján, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur.

Guðrún Lára var erlendis.

Pétur setti fund.

Rætt var um skemmtifund 2. desember. Þar mun EKKÓ-kórinn syngja en einnig er formaður að vinna í því að fá bókakynningu. Var rætt um hvaða höfundar væru áhugaverðastir. Vilborg Davíðsdóttir mun ekki koma núna heldur í febrúar og fjallar þá nánar um þann sagnaheim sem hún hefur kannað svo vel. Pétur vinnur áfram að málinu.
Sumarferðir 2018. Dagsferðin var ákveðin í Þórsmörk um miðjan júlí, skoða Eldfjallasetrið á Hvolsvelli og borða kvöldmat þar á svæðinu.
Verið er að kanna verð og möguleika á 5 daga ferð til Danmerkur í lok ágúst. Sigurlín er búin að vinna nokkra undirbúningsvinnu og hefur leitað upplýsinga hjá Vibeke Nörgaard Nielsen sem hún hefur skipulagt ferðir með í rúm tuttugu ár. Vibeke býr á Jótlandi og það er gott að hafa einhvern staðkunnugan. Ferðaskrifstofa Guðmundar Jónassonar er tilbúin að sjá um allar bókanir á flugmiðum, gistingu og útvega rútu. Pétur og Sigurlín munu mæta á fund hjá ferðaskrifstofunni eftir nokkra daga. Eftir umræður var samþykkt að halda áfram með þessa vinnu.
Lagður var fyrir listi með spurningum fyrir tölvu-könnun til að heyra hvaða nýbreytni félagsmenn kynnu að vilja í starfið. Farið var yfir hann og orð á haft að hann væri góður. Halldór vinnur þetta áfram.
Rætt var um fréttabréf fyrir janúar 2018. Efnið verður unnið og verður að vera tilbúið á næsta fundi (í desember). Þar þarf að segja frá sumarferðunum, það verður að hækka verðið á kaffinu á Grand hóteli í kr. 2.500 og útskýra hvers vegna og síðan segja frá könnuninni.
Engin önnur mál.

Formaður sleit fundi kl. 11.15.

Næsti fundur var ákveðinn 11. desember kl. 11 í Kennarahúsinu.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
391. stjórnarfundur FKE haldinn 16.10.2017 í Kennarahúsinu kl. 14:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur.

Kristján var forfallaður.

Pétur setti fund.
Halldór biður um að fá meira efni til að setja inn á netið. Rætt var um að skrifa stutta frásögn af skemmti- og fræðslufundunum. Ritari mun sjá um það.
Laugardaginn 4.11. verða kynnt verk frá leikhúsunum, eitt frá hvoru; Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Formaður hefur verið í sambandi við þau og þetta mun skýrast nánar þegar nær dregur.
Laugardaginn 2.12. verður bókakynning og er formaður einnig að vinna að því. Bókatíðindi verða þá líka komin út. Nefnd var Kristín Steins. sem möguleiki.
Huga þarf að ferðum næsta sumars. Dagsferð gæti verið í Þórsmörk um miðjan júlí, skoða Eldfjallasetrið í Hvolsvelli og borða þar á svæðinu.
Lengri ferðin til Danmerkur í lok ágúst. Sigurlín vinnur áfram að því að kanna möguleika á þessum ferðum og kemur með tillögur á næsta fund.
Rætt var um að gera tölvu-könnun til að heyra hvaða nýbreytni félagsmenn kynnu að vilja í starfið.
Engin önnur mál.

Formaður sleit fundi kl. 15.15.

Næsti fundur var ákveðinn 15. nóvember kl. 10 í vestra í Kennarahúsinu.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
390. stjórnarfundur FKE haldinn 14.09.2017 í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Kristján, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur.

Fyrir fundinn var tekið rækilega til í skápum félagsins og ýmsu hent.

Pétur setti fund.
Halldór sýndi síðan á skjá fréttabréfið sem á að fara að senda út. Engar athugasemdir voru gerðar og allir ánægðir.
Beiðni hafði borist frá ekkju félagsmanns um hvort hún gæti haldið áfram í félaginu þótt hún hafi ekki verið kennari. Það var samþykkt.
Kristján fór yfir innkomu og kostnað vegna sumarferða 2017. Þær hafa staðið undir sér.
Þá var ákveðið verð fyrir skemmti- og fræðslufundina í vetur. Ákveðið var að það verði óbreytt til áramóta þrátt fyrir aukinn kostnað, kr. 2000 á mann.
Halldór þarf laun fyrir mikla vinnu við vefinn. Ákveðið var að hann fái kr. 25.000 á mánuði frá 1. september að telja. Síðan verður að skoða betur um eingreiðslu vegna yfirfærslunnar. Greiðslur til Gísla falla niður frá sama tíma.

Fundur 30. september; sagt verður frá og sýndar myndir úr sumarferðunum. Kristján segir frá Reykjanesferðinni en Ólafur Rúnar Þorvaldsson frá Grindavík var fararstjóri. Varðandi Siglufjarðarferðina setur Halldór upp myndir en Pétur segir frá.
Eftir er að ákveða hvað verður á dagskrá á fundum okkar í nóvember og desember. Verður það gert á næsta fundi.
Sigurlín verður tengiliður vegna norræna samstarfsins.

Önnur mál; Huga þarf að ferðum næsta sumars. Dagsferð gæti t.d. verið í Þórsmörk, Lengri ferðin etv. til Danmerkur. Sigurlín vinnur áfram að því.

Næsti fundur var ákveðinn 16. október kl. 14. í Kennarahúsinu.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 11:15.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
389. stjórnarfundur FKE haldinn 04.09.2017 í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur sem kom nokkru seinna. Kristján var forfallaður.

Pétur setti fund og þakkaði fyrir sumarferðirnar sem báðar tókust afar vel.

Halldór sýndi á skjá nýja vefinn sem hann er búinn að vinna mikið í. Fréttabréfin eru m.a. kominn inn og margt annað frá gamla vefnum. Hann mun vinna áfram með þetta. Fundarmenn lýstu ánægju sinni og þökkuðu honum frábæra vinnu.

Nú liggur á að koma næsta fréttabréfi út og var rætt um hvaða fréttum væri mikilvægt að koma að. Þótt fréttabréfið sé að mestu hefðbundið til að kynna vetrarstarf félagsins þarf að koma fyrir texta um nýtt samstarfsverkefni. Þar er um að ræða verkefni á vegum Rauða krossins í Reykjavík sem heitir Heilahristingur og snýr að heimanámsaðstoð fyrir börn. Verkefnið er unnið í samstarfi við Borgarbókasafnið sem lánar aðstöðu sína, en það vantar sjálfboðaliða. Stjórn FKE er jákvæð fyrir þessu verkefni og vill kynna það fyrir sínum félagsmönnum. Halldór mun koma texta inn í fréttablaðið.

Fræðslu- og skemmtifundirnir á Grand Hóteli munu halda áfram og verða einu sinni í mánuði, nema októberfundurinn færist í lok september: 30. sept., 4. nóv., 2. des., 6. jan., 3. feb., 3. mars, 7. apríl og 5. maí kl. 13-14.30. Pétur mun stjórna þeim sem formaður og Guðrún Ólafía mun sjá um spilaverðlaunin með aðstoð Guðmundar. Ekki liggur endanleg ákvörðun fyrir um verð á veislukaffinu til félagsmanna, enda gjaldkeri fjarverandi. Á haustmisseri mun stjórnin sjá um fræðsluþáttinn, nánar síðar.
Bókmenntaklúbburinn mun starfa á fimmtudögum í Kennarahúsinu í Austra. Eru það Unnur og Gréta Kaldalóns sem sjá um hann. Það verður: 5. og 19.okt., 2., 16. og 30. nóv., 11. og 25. jan., 8. og 22. feb., 8. og 22. mars, 5. og 26, apríl.

Ekkó-kórinn mun starfa eins og áður undir stjórn Bjarts Loga Guðjónssonar. Guðrún Erla er formaður stjórnar kórsins..

Örstutt var rætt um ferðir næsta sumars. Það er orðið mjög dýrt að ferðast um Ísland og gista á hótelum. Sigurlín var falið að athuga með ferð til Danmerkur, t.d. flug til Billund og ferðast um Jótland og Fjón. Skotland var einnig nefnt sem möguleiki í sumarferð.
Ákveðið var að næsti stjórnarfundur verði þann 14.9. nk. kl. 10.00.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 11:45.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
388. stjórnarfundur FKE haldinn 27.05.2017 í Kennarahúsinu kl. 16:00.

Mættir voru allir stjórnarmenn.

Rætt var um spila- og skemmtifundina á Grand Hóteli. Guðrún Ólafía hefur kannað málið og leitað samninga. Þeir bjóða kaffihlaðborðið á kr. 3.500. Í kaffihlaðborðinu er eftirfarandi; marensterta, flatkökur með hangikjöti, brauðterta með rækjum og skinku, nýsteiktar kleinur, döðlugott, blandaðir ferskir ávextir og saltkaramellu, rice krispies rjómabomba.
Þetta verður einu sinni í mánuði, nema októberfundurinn færist í lok september. 29. sept., 4. nóv., 2. des., 6. jan., 3. feb., 3. mars, 7. apríl og 5., maí. kl. 13-14.30.

Þá var enn rætt um sumarferðirnar, en lagt verður af stað í báðar ferðir klukkan 9:00 frá BSÍ. Kominn er fararstjóri í Reykjanesferðina, hún mun kosta kr. 12.000 á mann en Siglufjarðarferðin kr. 90.000 miðað við tveggja manna herbergi og kr. 130.000 í eins manns herbergi. Pétur og Sigurlín munu skipta með sér leiðsögn í þeirri ferð og Guðmundur taka á móti hópnum á staðnum og síðan leiðsegja um nágrennið. Skráning í báðar ferðirnar fer fram í gegnum síma KÍ. Stjórnarmenn skipta með sér verkum um skráningu dagana 1. -11. júni, frá kl. 13.-16. Þar munu tveir í senn taka við skráningu. Allt er frágengið varðandi sumarferðirnar.

Rætt var um bókmenntaklúbbinn og verður kynnt í haustblaðinu um starfsemi hans.

Allt er klárt fyrir Svíþjóðarferð og allir komnir með farseðla.

Ákveðið var að næsti stjórnarfundur verði eftir sumarferðirnar.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 18:00.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
387. stjórnarfundur FKE haldinn 10.05.2017 að Geitlandi 8 kl. 16:00.

Mættir voru allir stjórnarmenn auk Þóru A. Guðmundsdóttur, fráfarandi formanni.

Stjórnin skipti með sér verkum:
Pétur Bjarnason, formaður, kosinn á aðalfundi.
Guðrún Lára Ásgeirsdóttir, varaformaður.
Kristján Sigfússon, gjaldkeri.
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, ritari og umsjón með norrænum samskiptum (þó ekki fund í Svíþjóð í júni nk. þar sem það var allt skipulagt sl. haust).
Halldór Þórðarson, hefur vefumsjón, sér um félagatal og fréttabréf.
Stjórnarmenn og varamenn hafa ætíð verið jafngildir í störfum.

Halldór hefur nú fengið lénið www.fke.is og er sá vefur í vinnslu. Lénið kostar kr. 5.980. á ári. Fréttabréfið er einnig í vinnslu og var rætt um það. Formaður tók að sér að skrifa um aðalfundinn og eins þarf að finna myndir þaðan. Síðan þarf að fá límmiða hjá KÍ (Fjólu) til að senda þeim sem ekki hafa gefið upp netföng.

Þá var rætt nánar um sumarferðirnar en lagt verður af stað í báðar ferðir klukkan 9:00 frá BSÍ. Kominn er fararstjóri í Reykjanesferðina, en hún mun kosta kr. 12.000 á mann en Siglufjarðarferðin kr. 90.000 miðað við tveggja manna herbergi og kr. 130.000 í eins manns herbergi. Pétur, Guðrún Lára og Sigurlín munu skipta með sér leiðsögn í þeirri ferð og Guðmundur taka á móti hópnum á staðnum. Skráning í báðar ferðirnar fer fram í gegnum síma KÍ frá 1. til 15. júní (kynnt í fréttabréfinu).

Rætt var um skemmtifundina sem verið hafa á Grand hóteli á laugardögum. Ákveðið var að kanna nánar verð á veitingunum. Pétur og Guðrún Ólafía gera það.

Ákveðið var að stefna að næsta stjórnarfundi 22. maí, kl. 13:00 í Kennarahúsinu.
Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 18:15

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
385.stjórnarfundur FKE haldinn 3. apríl 2017 heima hjá Guðrúnu Láru varaformanni á Hagamel 14.

Mættir voru stjórnarmenn aðrir en Guðmundur sem hafði boðað forföll.

Formaður setti fund.
Rætt var um efni fréttabréfs. Það mun snúast um sumarferðir eins og áður en æskilegt að koma þar inn öðru efni um starfsemina.
Þá var rætt um bókmenntaklúbbinn og nauðsyn þess að fá honum umsjónarmenn. E.t.v. mætti breyta einhverju þar, en áhersla hefur verið lögð á að þetta er bókmenntaklúbbur en ekki leshringur.
Rætt um lagabreytingar sem þyrfti að leggja fyrir aðalfund. Í fyrsta lagi að aðalfundur verði framvegis haldinn í apríl en ekki í maí og að reikningsárið verði miðað við áramót. Ef til vill væri þörf á fleiri breytingum en þeirra yrði þá að geta í fundarboði.
Formaður upplýsti að fræðslunámskeið KÍ fyrir kennara sem eru að fara á eftirlaun verði hér syðra 26. apríl n.k. Óskað er eftir kynningu frá FKE hliðstætt því sem var á Akureyri í fyrra. Formaður fór þess á leit að ritari yrði með henni á þessum fundi líkt og þá. Ekki voru gerðar athugasemdir við það.
Auglýsa þarf aðalfund með tveggja vikna fyrirvara og þá um leið að geta tillagna til lagabreytinga.
Skrifstofa KÍ vill annast skráningu í ferðir okkar en finnst það nokkuð álag og ónæði af því.
Næsti fundur verður boðaður með netpósti frá formanni.
Fleira ekki gert, hægt á fundi undir klukkan 15:00 og sest að kaffi og kruðeríi hjá Guðrúnu Láru.
Ritari vék af fundinum kl. 15:15 sem virtist þá kominn að lokum.
Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.

Fundargerð 
384. stjórnarfundur FKE haldinn 20. mars 2017 heima hjá Þóru formanni í Glæsibæ 6.

Mættir voru allir stjórnarmenn. 

Kristján lagði í upphafi fundar fram rekstraryfirlit fyrir árið 2016. Tekjur og gjöld stóðust nánast á, halli upp á kr. 4.659. en velta var rúmar níu milljónir króna. Norræn samvinna var dýrust, kr. 1.315 þúsund. Fréttabréf og vefumsjón kostuðu rúma milljón samanlagt. Þá voru skemmtifundir og árshátíð sem kostuðu um hálfa milljón hvort um sig, en á árshátíðina var kórnum boðið að þessu sinni í þakklætisskyni fyrir veitta þjónustu og skemmtan í áranna rás. Án kórsins hefði árshátíðin verið afar fámenn, enda haldin í síðasta sinn. Kr. 400 þúsund voru lagðar til starfsemi Ekkókórsins.
Formaður ræddi um næsta skemmtifund þar sem Guðmundur Kristmundsson verður með erindi um nýlega Indlandsferð sína. Nauðsynlegt verður að byrja á erindinu og hafa síðan félagsvistina á eftir. Þetta þarf að auglýsa vel í netpósti.
Ákveðið að fá inni á Grand hóteli næsta vetur enda við orðin hagvön þar og þjónusta yfirleitt góð.
Áhugi er fyrir því að að færa aðalfund fram til apríl ár hvert og mun stjórnin leggja fram tillögu til lagabreytingar þar að lútandi á næsta aðalfundi.
Núverandi umsjónarmenn bókmenntaklúbbsins óska lausnar frá störfum sínum þar eftir tímabilið. Því þarf að huga að nýju fólki í þeirra stað. Umræður urðu um form bókmenntaklúbbsins, skemmtifundanna og almennt um störf stjórnar og hlutverk. Spurt hvort félagið hafi staðnað í vinnubrögðum og hvort nýjar leiðir væru e.t.v. færar til að ná til fleiri félagsmanna. Til dæmis mætti fækka spilafundum en taka upp annað áhugavert efni í þeirra stað. Þá þarf að huga að því hvort slíkt þyrfti endilega að vera mjög dýrt. Gera mætti fréttabréfið fjölbreyttara og færa það í áföngum úr tilkynninga- og dagskrárriti í að vera einnig vettvang fréttapunkta og stuttra pistla.
Líflegar og góðar umræður urðu um þessi málefni og ákveðið að kynna vel aðalfund sem verður í maí og óska eftir framboðum til þeirra embætta sem þá verður kosið til.
Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 3. apríl kl. 14:00.
Fleira ekki gert, fundi slitið undir klukkan 16:00 og sest að veglegu kaffiborði formannsins.
Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.

Fundargerð
383. stjórnarfundur FKE haldinn 1. febrúar. 2017 í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mættir voru allir stjórnarmenn.
Halldór kynnti FKE síðu á KÍ vefnum. Þar eru komnir tenglar á myndasíðu fyrri vefs (GÓP) og fréttahorn ásamt fleiru.
Farið var yfir dagskrá skemmtifundar á laugardag sem er í föstum skorðum skv. venju.
Þóra sagði frá pöntun á flugi til Svíþjóðar í vor, horfur á næturflugi þangað, sem flestum þótti vera í góðu lagi.
Lengri sumarferðin verður farin til Siglufjarðar 29.júlí -30. ágúst. Verð fyrir tveggja manna herbergi í tvær nætur kr. 33.770 á mann. Tillaga kom fram að fara um Ýdali á heimleið, en það er líklega of mikið úr leið. Þá var stungið upp á Merkigili. Nánar um það síðar.
Styttri ferðin verður farin 18. júlí um Reykjanesskagann ef allt gengur upp með veitingar. Pétri var falið að ræða við Kristján rútubílstjóra um verð í báðar ferðirnar.
Rætt um dagskrána á hátíðafundinum 4. mars, sem er nokkurn veginn frágengin. Þetta verður nýtt form á hátíðahöldum í stað árshátíðar, sem var gengin sér til húðar að mati stjórnarmanna.
Fleira ekki gert og fundi slitið