Fundargerðir

Innskráning

Nýskráning

2019 (9)

414. stjórnarfundur FKE var haldinn á heimili Kristínar Ísfeld, Árskógum 1a 19. desember 2019 kl. 9:00

Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður,  Guðmundur Kristmundsson varaformaður,  Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari,  Kristín Ísfeld gjaldkeri,  Halldór Þórðarson vefstjóri, Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet  Baldvinsdóttir meðstjórnendur.

Fundur var settur eftir góðan morgunverð hjá Kristínu.

 1. Hugmyndir að efni á spila- fræðslu- og skemmtifundi:
  11. janúar verður Margrét Jónsdóttir með erindi um hreyfingu.
  1. febrúar ætlar Gunnlaugur Dan að halda erindi um það hvernig er að dvelja  ,,Spáni á“
  7. mars sem er hátíðarfundur mun  Ekkó kórinn koma fram. Gunnlaugur Dan ætlar að tala við Eyþór Inga um hvort hann geti komið og skemmt á fundinum.

 2. Rætt um ferðir á söfn/ sýningar. Stefnum á að skoða sýninguna í Perlunni um miðjan febrúar. Biðja Gunnar í Perlunni að gera okkur tilboð.

 3. Smyrlabjörg 2ja daga ferð í ágúst og reyna að fá Kára Jónasson sem fararstjóra.
  Þá væri eins dags ferð í Borgarfjörð í júlí æskileg. Skoða svo hugsanlega utanlandsferð í haust.

 4. Fréttabréfið kemur út í janúar og þarf allt sem fara á í bréfið að vera tilbúið um miðjan janúar. Góður kostur væri að setja hlekk úr fréttabréfinu með áhugakönnun um hvert fólk vilji helst ferðast,  vill það fara í Borgarferðir eða sólarlandaferðir.

 5. Hveragerði 2021 – Ákveðið var að taka seinna tilboðinu sem Gunnlaugur fékk frá AD Travel.  Þarf aðeins að láta vita að það gætu orðið fleiri þátttakendur en búið var að nefna. Talað var um 80 í tilboðinu en þeir gætu hugsanlega orðið 90.  Hvað ætlum við að gera þessa daga? Hugsanlega fara Reykjaneshring, til Vestmannaeyja og eitthvað fleira.  Guðrún Erla og Gunnlaugur ætla að skoða hvernig dögunum verði hugsanlega varið.

 6. Alta 2020. Hverjir úr stjórninni hafa áhuga á að fara í ferðina í júní? Fljótlega þarf að taka ákvörðun um það.

 7. Önnur mál:Guðmundur og Halldór ætla að setja saman texta fyrir áhugakönnun, Borgarferðir eða sólarlandaferðir.

 8. Fundi slitið kl.11.50

413. stjórnarfundur   FKE var haldinn á heimili Kristínar Ísfeld Árskógum 1a 19. nóvember 2019 kl. 11:00

Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Kristmundsson varaformaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín Ísfeld gjaldkeri, Halldór Þórðarson vefstjóri og Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir meðstjórnendur.
Formaður setti fund kl. rúmlega 11

 1. Jólafundur FKE verður 7.desember Á fundinum verður félagsvist eins og venjulega kl.13:30, þá verður kaffi og síðan mun Ekkó-kórinn syngja. Eftir söngstund mun Pétur Bjarnason lesa upp úr nýútkominni bók sinni. Mikilvægt er að vekja athygli á jólafundinum. Var Halldór beðinn um að senda tilkynningu á félagsmenn. Þá er einnig mikilvægt að vekja athygli á bókaklúbbnum en mæting í haust hefur ekki verið nægilega góð. Gunnlaugur nefndi að e.t.v. væri snjallt að stjórnendur klúbbsins hefðu netföng þeirra sem mæta eða hefðu sýnt áhuga á bókaklúbbnum og sendu á þá hvetjandi upplýsingar s.s. um hvað fyrirhugað væri að gera í klúbbnum.
 2. Á fundinn sem verður 11. janúar væri gaman að fá íþróttafræðing til þess að tala um hreyfingu. Kristín Ísfeld mun kanna það mál.
 3. Norrænt mót á Íslandi 2021. Skoðað var tilboð frá AD Travel en þar var greinilega verið að reikna með 6 dögum en ekki 5 eins og venjulega hefur verið. Ef sleppa á einum ferðadegi var rætt um að sleppa Gullna hringnum. Gunnlaugur Dan mun hafa samband við ferðaskrifstofuna. 
 4. Sumarferðir FEK 2020. Hugsanlega verður dagsferð í Borgarfjörð og tveggja daga ferð að Smyrlabjörgum. Miklu máli skiptir að fá góðan og fróðan leiðsögumann. Rætt var um að fara í skoðunarferð í Perlu og annan dag ,,Flugferð yfir Ísland“ sem staðsett er út á Granda.
 5. Ákveðið var að Halldór sendi út könnun á félagsmenn og athugi hvernig ferðum þeir hafi áhuga á. Vilja þeir fara í sólarlandaferðir eða borgarferðir ?
 6. Stjórnin samþykkti að kaupa tölvu fyrir vefstjóra. Í félagi FEK eru 1900 félagsmenn og af þeim hafa 1357 virk netföng.
 7. Guðrún Erla ætlar að senda Halldóri nokkrar línur eftir fundi á Grand Hóteli. Segja t.d. frá því hverjir fái verðlaun í félagsvistinni og e.t.v. einhverju fleiru markverðu. Þá væri æskilegt að í næsta fréttabréfi komi fram nöfn þeirra sem fengu verðlaun í félagsvistinni 2. nóvember.
  Næsti fundur verður 18. desember kl.11 hjá Kristínu Ísfeld.

Fundi slitið kl. 13:15.

412. stjórnarfundur FKE var haldinn á heimili formanns að Sólheimum 23, 30. október 2019 kl 11:00

Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Kristmundsson varaformaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín Ísfeld gjaldkeri, Halldór Þórðarson vefstjóri, Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir meðstjórnendur.

Formaður setti fund kl.rúmlega 11:00

  1. Tilnefna tengilið við Grandhótel.
   Ákveðið var að Marta taki að sér samskipti við hótelið og sjái um að koma með spilin.
  2. Fundur á Grandhóteli 2. Nóvember.
   Fyrir utan félagsvist og kaffi var rætt um að áhugavert væri að fá íþróttakennara til þess að ræða um nauðsyn hreyfingar. Ætlar Kristín að kanna þau mál. Gangi það ekki ætlar Guðmundur að lesa upp úr bók Þórðar Helgasonar.
  3. Hugmyndir að efni á fund 7. desember.
   Samþykkt að Ekkó kórinn komi fram og gaman væri að fá Pétur til þess að lesa upp úr bókinni sem hann er að gefa út.
  4. Norrænt mót 2021
   Guðrún Erla og Gunnlaugur voru með tilboð frá Park inn hóteli í Keflavík. Einnig var Gunnlaugur með tilboð frá Örk í Hveragerði.
   Meiri áhugi var á að semja við Örk. Hugsanlega væri það aðgengilegri staður fyrir hópinn og meira við að vera. Gunnlaugur ætlar að hafa samband við AD travel og kanna hvort þeir geti tekið að sér skipulagningu.
  5. Ferðir á vegum félagsins næsta sumar.
   Hugsanlegt að fara í sólarlandaferð. Gunnlaugur ætlar að kanna með ferð til Spánar. Rætt um dagsferð í Þjórsárdal en ekki tekin ákvörðun um tveggja daga ferð að svo stöddu.
  6. Önnur mál

Ekkert fleira lá fyrir. 
Fundi slitið kl.13.00

 411. Stjórnarfundur FKE haldinn í  Kennarahúsinu við Laufásveg 11. september 2019


Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Kristmundsson varaformaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Halldór Þórðarson vefstjóri, Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir meðstjórnendur. Fjarverandi var Kristín Ísfeld gjaldkeri.

 1. Formaður setti fund og bauð stjórnarmenn velkomna.
  Í september kemur út 1. Fréttabréf vetrarins og er því nauðsynlegt að allar upplýsingar sem í því eiga að birtast komi sem fyrst. Árlega koma út þrjú Fréttabréf, í september, janúar og í maí. Í ár er 39. árgangur Fréttabréfsins.
 2. Mánaðarlegir fundir á Grandhóteli verða 5. október, þar sem spiluð verður félagsvist, sagt frá ferðalögum sumarsins og síðan er kaffi og meðlæti. 2. nóvember,félagsvist og kaffiveitingar en ekki enn ákveðið hvað verður til skemmtunar. 7. desember verður jólafundur og þá verður auk félagsvistar lesið upp úr jólabókum og Ekkó-kórinn syngur. 11. janúar, félagsvist og kaffi. 1. febrúar, félagsvist og kaffi. 7. mars verður hátíðarfundur og 4. apríl verður aðalfundur, auk félagsvistar og veitinga. Samþykkt var að biðja Kristínu gjaldkera um að athuga með verð á kaffi og meðlæti og e.t.v. að draga aðeins úr meðlætinu en það hefur verð óþarflega mikið.
 3. Bókaklúbburinn er tvisvar sinnum í mánuði á fimmtudögum . Stjórnin sér um að panta aðstöðu í Kennarahúsinu. Umsjón með klúbbnum í vetur verða Gréta Kaldalóns og Guðlaug Unnur Magnúsdóttir. Bókaklúbburinn hefur séð um upplestur á jólafundi.
 4. Heimsóknir á söfn og stofnanir. Rætt um að skoða safnið í Perlunni fyrir áramót t.d. í október og Hellisheiðavirkjun eftir áramót. Þá var rætt um að skoða Vigdísarhús, fyrir áramót e.t.v. í nóvember en ekki búið að taka ákvörðun um hvert verði farið eftir áramótin.
 5. Gönguferðir verða á mánudögum kl.13:00 eins og áður og farið í kaffi og spjall eftir göngu. Pétur sér um að leiða göngurnar og Valborg Elísabet verður vara leiðsögumaður. 
 6. Norrænt samstarf - öll Norðurlönd nema Grænland hafa tekið þátt í því samstarfi. Aðal hugsun á bak við samstarfið er að hafa gaman saman. Að sjálfsögðu er ástæða til þessa að skoða eitthvað markvert í viðkomandi landi og halda samstarfsfundi. Ísland hefur aðeins 10 sæti í þessu samstarfi en alls geta þetta verið um eða yfir 100 manns frá þessum 6 löndum. Næsti fundur verður í Noregi 13.-19. júní 2020. Fundur verðu haldinn á Íslandi 7.- 11. júní 2021. Búið er að panta herbergi á Hótel Keflavík en ákveðið að Gunnlaugur Dan og Guðrún Erla kanni aðstæður og komi með hugmyndir að dagskrá þessa daga á Suðurnesjum.
 7. Fleira ekki gert. Fundi slitið rétt fyrir kl.12:00
  Næsti fundur 23. október kl.11.00

 410. fundur var haldinn 7. maí 2019  í Kennarahúsinu.

 1. Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Kristmundsson varaformaður, Kristín Ísfeld gjaldkeri, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Halldór Þórðarson vefstjóri, Valborg Elísabet Baldvinsdóttir og Gunnlaugur Dan Ólafsson meðstjórnendur
  Fundur settur: Marta setti fund kl.rúmlega 10
 2. Breytingar í hópi Færeyjaferðalanga
  Tveir þátttakendur boðuðu forföll. Var búið var að greiða ferðina að fullu, en svo heppilega vildi til að Valborg Baldvins og Ingibjörg Júlíusdóttir ætla að fara í stað þeirra sem duttu út.
 3. Sumarferð til Stykkishólms 17. júlí. Kristín var með tvö tilboð um verð á mat. Annars vegar frá Hamri og hins vegar Landnámssetrinu í Borgarnesi. Ákveðið var að taka tveggja rétta tilboði frá Landnámssetri. Lagt verður af stað frá Reykjavík kl. 8:00, stutt stopp í Borgarnesi og vera komin í Stykkishólm rúmlega hálf ellefu. Báturinn leggur af stað kl. 11:00 en áætlað er að fara í 3ja tíma siglingu frá Stykkishómi. Eftir siglinu getur fólk skoðað sig um í Hólminum. Matur á Landnámssetrinu kl. 18.00 og komið til Reykjavíkur um kl.21:00. Verð á ferðinni með matnum kr. 12.000.
 4. Sumarferð að Stóru-Tjörnum 14.-16. ágúst.
  Verð á tveggja manna herbergi með baði er kr. 29.000 nóttin. Eins manns herbergi með baði kr. 24.000. Talað um að stansa jafnvel á Hvammstanga á leið norður, borða súpu og skoða selasafnið. Fara svo næsta dag til Húsavíkur, um Tjörnes og í Ásbyrgi.
  Áætlað að borða fyrra kvöldið á hótelinu á Stóru-Tjörnum og á Húsavík seinna kvöldið. Hugsanlegt að borða hádegisverð á Laugabakka á bakaleið. Koma til Reykjavíkur kl.16:00-17:00
 5. Gönguhópur varð til eftir að óskir bárust frá áhugasömum félögum. Pétur Bjarna og Valborg Baldvins ætla að taka að sér stjórn gönguhópsins. Göngurnar eru á mánudögum kl. 13.00
 6. Fréttabréf FKE kemur út um miðjan maí. Allt efni í bréfið þarf að vera komið um næstu helgi.
 7. Hugmyndir
  Grandfundir eru og verða fyrsta laugardag í mánuði. Áætlað að fara tvisvar á söfn, fyrir og eftir áramót. Heimsókn í stofnanir en ekki búið að ákveða í hvaða stofnanir verður farið.
 8. Önnur mál
  Bréf barst frá Kára Kaaber um að FKE sendi fulltrúa á fund í málræktarsjóði. Fundurinn verður 7. júní. Guðmundur kannar hvort ástæða sé til þess að senda fulltrúa.
 9. Fundið slitið kl.11.20

409. fundur var haldinn 2. apríl 2019  í Hveragerði að heimili Sigurlínar.

Mætt voru Sigurlín, Kristín, Marta, Halldór, Pétur, Guðrún og Guðmundur.

Formaður setti fund kl. 10.30

 1. Formaður gerði grein fyrir bréfi sem félaginu barst um launakjör eftirlaunafólks. Launamál hafa ekki verið á dagskrá FKE. Þau eiga heima á öðrum vettvangi. 
 2. Rætt var um tillögur að kjöri fulltrúa í stjórn á væntanlegum aðalfundi. Guðmundur og Marta eru varamenn og lagt er til að þau verði í kjöri sem aðalmenn. Þá er lagt til að Marta verði í kjöri sem formaður til eins árs. Kristín og Guðmundur verði kjörin í aðalstjórn til tveggja ára. 
 3. Rætt um frekara skipulag aðalfundar og undirbúning, m.a. að hafa kjörseðla tilbúna. 
 4. Rætt um almenna fundi í framtíðinni (Grandfundi) og talið að það yrðu að vera laugardagsfundir eins og verið hefur. Það virðist gefast best. 
 5. Gönguferðir hafa gengið vel í vetur og hlotið lof göngumanna. Ferðir á árinu þóttu takast mjög vel og fólk ánægt með þær. Hið sama gildir um ferðir á Þjóðminjasafn og Sjóminjasafn. 
 6. Rætt um ferðir í sumar. Skipulag þeirra er komið vel á veg. Ljúka þarf við skipulag ferðar norður í land í ágúst og ákveða hvaða staðir verða heimsóttir fyrir norðan. Búið er að festa rútu og gist verður að Stórutjörnum. 
 7. Kristín spurði hvort í lagi væri að færa reikninga félagsins með það fyrir augum að fá betri vexti. Var það samþykkt. 
 8. Þetta var síðasti fundur Péturs formanns og þakkaði hann samveruna. Fundarmenn þökkuðu Sigurlín fyrir góðan viðurgjörning.

Fundi slitið kl. 11.30

408. stjórnarfundur FKE var haldinn þann 11.03.19 í Austra í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Guðrún Ólafía, Marta, Kristín, Guðmundur og Sigurlín.

Áður en fundur hófst kom Kristján og skilaði af sér kassa með skiptimynt og tók nýr  gjaldkeri við honum. Stjórnarmenn buðu Kristjáni að koma með í ferð félagsins til Dublínar í september nk. og þáði hann það.

Pétur setti fund.

 1. Rætt var um Dublínarferð í haust. Allt lítur vel út, 36 eru bókaðir í ferðina og enn er möguleiki á viðbót.
 2. Norrænt mót er fyrirhugað hjá okkur 2021. Sigurlín sagði frá því að hún hefði kannað hótel á Suðurnesjum og litist best á Hótel Keflavík því þeir geta tekið á móti 80-90 manna hópi. Hún hefur bókað þar frá 7.-11. júní 2021 en ekki fengið svar um verð ennþá. Hún mun halda áfram að vinna í þessu.
 3. Aðalfundur verður haldinn 6. apríl nk. Ljóst er að það vantar nýtt fólk í stjórn og það þarf að auglýsa aðalfundinn og laus stjórnarsæti á vefnum. Nokkrar hugmyndir hafa komið fram en gjaldkeri verður áfram Kristín Ísfeld sem kom inn í vetur og bjargaði félaginu í forföllum Kristjáns. Formaður mun koma með tillögu að nýrri stjórn og leggja hana fyrir aðalfund.
 4. Fyrirhugað er að fara í Sjóminjasafnið þann 13. mars kl. 13.00. Það þarf að auglýsa heimsóknina með vefpósti, ókeypis aðgangur.
 5. Færeyjaferð stjórnarmanna átti að vera tilbúin og aukanætur í lagi. En þá kom í ljós að ekki var búið að panta og greiða fyrir legginn heim (verðum í hópi strandaglópa). Guðmundur vinnur hörðum höndum að því koma okkur aftur heim og mun þá verðið líka hækka.
 6. Önnur mál: Gjaldkeri er að skoða hvernig hægt er að fá betri ávöxtun á reikninga félagsins. Því var vel tekið, það munar um allt.

Haldinn verður einn stjórnarfundur fyrir aðalfund: Næsti fundur var ákveðinn þriðudaginn 2. apríl kl. 10 að Lækjarbrún 22 í Hveragerði.

Fundi slitið um kl. 11.25.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

407. stjórnarfundur, haldinn 12. febrúar 2019 kl. 13:00 í Kennarahúsinu

Mættir: Kristín, Halldór, Marta, Sigurlín, Pétur, Guðmundur. Guðrún Ólafia boðaði forföll

Formaður setti fund kl. 13.00

 1. Sumarferðir
  Stórutjarnir, gisting fyrir 36 manns bókuð 14.-16. ágúst
  Ferð til Stykkishólms ásamt siglingu 17. júlí. Búast má við 40-60 manna hópi. Senda þarf upplýsingar um fjölda viku fyrir ferð. Lagt er til að bóka rútur sem fyrst.
  35 bókaðir i ferð til Dublinar. Nú eru laus 2 tveggja manna herbergi og eitt eins manns herbergi.
  Ákveðið að ganga frá skipulagi ferða á næsta fundi.
  Jón Baldvin Halldórsson fararstjóri í Dublinarferð.
 2. Hátíðarfundur 2. mars.
  Hundur í óskilum mun skemmta. Eccokórinn syngur og stefnt að samsöng.
  Hátíðardögurður.
  Sent verður út skeyti þar sem farið er fram á skráningu á hátíðarfundinn. Gæta þarf þess að geta um gjald fyrir fundinn. Félagsmenn greiða 3000 kr.  Halldór, Pétur og Guðrún Ólafía annast framkvæmd.
  Færeyjaferð á fund stjórna félaga kennara á eftirlaunum á Norðurlöndum.
  Búið að bóka ferð. Ekki þarf að bóka eins manns herbergi þar sem 2 fundarmenn ætla að deila herbergi. Farið verður 4. júní og heim 10. júní. Því þarf að bóka gistingu í upphafi og enda ferðar.
 3. Norrænt mót 2021
  Ákveða þarf og bóka gistingu sem fyrst. Nokkrar umræður urðu um stað. Einna best leist mönnum á Keflavík og nágrenni. Rætt var nokkuð um væntanlegan fund og tímasetningu hans. Menn veltu fyrir sér dagsetningu og tillaga kom fram um 7.-11. eða 14.-18. júní 2021.
 4. Önnur mál. Gönguferðir á mánudögum hafa gengið vel. Sigurlín gat þess að nauðsynlegt væri að þeir sem ætluðu sér að hætta gerðu grein fyrir ætlan sinni í tíma. Sigurlín tilkynnti að hún ætli að hætta og nefndi þá ástæðu að það væri henni erfitt að búa í Hveragerði og sækja fundi í Reykjavík. Aðalfundur verður haldinn 2. apríl.
  Þeir sem hætta í stjórn: Pétur formaður, Kristján, Sigurlín og ef til vill Guðrún Ólafia. Það virðist því vanta 4 menn í stjórn. Kristín er til í að koma inn sem aðalmaður.

Fundi slitið kl. 14.15. Næsti fundur boðaður mánudaginn 11. mars kl. 10.00-12.00 í Austra.
Guðmundur skráði fundargerð

406. stjórnarfundur, haldinn 16. janúar 2019 kl 10:00 í Kennarahúsinu

Mættir: Kristín, Halldór, Marta, Sigurlín, Pétur, Guðrún, Guðmundur

Formaður setti fund kl. 10.00

 1. Færeyjaferð: Eftirfarandi hafa hug á að fara: Kristín, Marta, Guðmundur, Guðrún Ólafia, Halldór og Sigurlín. Ekki voru þau öll alveg ákveðin. Guðmundi falið ásamt Kristínu að ganga frá bókun.
 2. Dublinarferð 6.-10. sept.: Talsvert spurt um ferðina en hvetja þarf félaga til að bóka. Halldór tók að sér að senda út hvatningarpóst. Ráðlegt talið að einn úr stjórninni fari.
 3. Fyrsti Grandfundur ársins gekk vel, um 40 mættu. Hringfarinn Kristján Gíslason flutti erindi og var því mjög vel tekið. Guðrún tók að sér að kaupa verðlaun vegna spilamennsku á næsta Grandfundi.
 4. Hátíðarfundur kl. 13.00 2. mars. Ekkókórinn syngur og Sigurlín mun kynna nýútkomna bók Þórðar í Skógum. Athuga fleiri skemmtiatriði. Rætt var um Hund í óskilum. Ákveðið að ræða við þá og tók Pétur að sér að hafa samband. Félagar greiði 3000 kr. á þessum fundi. Guðrún Ólafía tók að sér að hafa samband við Grand hótel og árétta að þessi fundur er í mars en ekki febrúar. Rætt um fjármál vegna kaupa á skemmtiatriðum. Ekki þótti tiltökumál að fá góð atriði á hátíðarfund, þó svo þau kostuðu eitthvað.
 5. Önnur mál: Marta leiddi síðustu göngu. Kristín gjaldkeri bað um undirskriftir vegna breytinga á prófkúru.

Fundi slitið 11.15 Næsti fundur boðaður 12. febrúar kl. 13:00 

Guðmundur skráði fundargerð