Myndbönd

Innskráning

Nýskráning

Administrator

Mánudagur, 31 Ágúst 2020 12:01

Smyrlabjargaferð

FKE stóð fyrir einni ferð í sumar, Suðurlandsferð frá Reykjavík að Smyrlabjörgum með viðkomu á ýmsum stöðum. Vegna aðstæðna komust færri með en vildu. Því olli m. a. takmarkaður sætafjöldi, þó rútan væri 56 manna komust aðeins 33 þátttakendur með. Ferðin hófst mánudaginn 24. ágúst með brottför frá Kennaraháskólanum við Stakkahlíð kl 8:30, ekið á Hvolsvöll og síðan að Skógum, fossinn skoðaður og myndaður. Næsti áfangi var að Dyrhólaey þar sem staldrað var við síðan ekið í Vík þar sem fólk gat fengið sér næringu. Þá var ekið að Fjallsárlóni sem var myndað og sumir fengu snert af ís. Næstsíðasti viðkomustaður á austurleið var svo Jökulsárlón og þar fóru sumir í siglingu á lóninu meðan hinir fengu sér göngu um svæðið. Lokaáfanginn var svo að Smyrlabjörgum þar sem snæddur var dýrindis kvöldverður áður en gengið var til náða. Næsta morgun var glampandi sól og heiðskírt og að loknum morgunverði var haldið af stað og fyrsti viðkomustaður var að Hala. Þórbergssetur skoðað að loknum skemmtilegum fyrirlestri sem Þorbjörg Anna, forstöðumaður safnsins og tengdadóttir Steinþórs bróður Þórbergs, flutti. Næsti viðkomustaður var Svínafellsjökull og síðan Skaftafell hvar fólk fékk sér hádegishressingu og myndaði Hvannadalshnjúk sem var vel sýnilegur í sólinni. Næst var komið að Dverghömrum þar sem tekin var hópmynd. Aftur var staldrað við í Vík þar sem sumir fengu sér kaffi og með því. Reynisfjara og Seljalandsfoss voru svo síðust á dagskrá áður en boðið var til kvöldverðar á Hótel Selfossi. Komið til Reykjavíkur um kl 22:00 að lokinni frábærri ferð og fararstjórn.

Myndir: Halldór Þórðarson

Fimmtudagur, 20 Ágúst 2020 19:18

Smyrlabjargaferð

Það hefur gengið á ýmsu varðandi ferðina okkar að Smyrlabjörgum. Ýmist verið að fara í ferðina eða fresta henni. Ástæðan er sú að stöðugar breytingar hafa átt sér stað varðandi reglur og ástandið í samfélaginu vegna Covid-19. En nú teljum við að sé lag og höfum þess vegna tekið ákvörðun um að  fara austur að Smyrlabjörgum. Ákvörðunin er tekin með það í huga að farið verði eftir sóttvarnarreglum í hvívetna, grímur til staðar í rútu og spritt og rétt fjarlægð á milli borða á áningarstöðum. Ef ekki er hægt að virða 2ja metra nándarmörk í rútu skulu farþegar vera með andlitsgrímur (Ferðamálastofa, leiðbeiningar fyrir hópferðabíla). Gott er fyrir þá sem eiga andlitsgrímur að hafa þær meðferðis. Líklega verður gengið inn í rútu að aftan og þeir sem eiga heimili saman eða eru nánir geta setið saman. Við munum ferðast í stórri rútu, þannig að rúmt verður um alla. Áréttað verður að, fólk ferðist á eigin ábyrgð undir framangreindum reglum sem öllum ber að virða.

Að lokum skal áréttað að við förum frá bílaplaninu við Kennaraháskóla Íslands/v Stakkahlíð kl. 08:30, mánudagsmorguninn 24. ágúst. Greinargóðar upplýsingar um ferðina er að finna í fréttabréfinu frá því í júní í sumar.

Mánudagur, 08 Júní 2020 11:54

Úthlutunarreglur Orlofssjóðs KÍ

Þar sem stjórninni hafa borist margar fyrirspurnir um úthlutanarreglur Orlofssjóðs á sumarhúsum og fleira sem þeim tengjast, fengum við fund með Ólöfu S. Björnsdóttur. Hún fór yfir reglurnar með okkur og tók svo saman þetta ágrip til upplýsingar fyrir félagsmenn FKE.

LÁGMARKSPUNKTAEIGN
Til að geta bókað eða nýtt aðra þjónustu OKÍ þurfa félagsmenn að eiga orlofspunkta. Ef punktaeign fer niður fyrir mínus -23 punkta missa félagsmenn réttinn það árið eða þar til ný orlofspunktaúthlutun hefur átt sér stað (mars ár hvert). Félagsmenn ávinna sér 24 orlofspunkta á ári. Félagsmenn geta ef svo ber undir keypt viðbótarpunkta og er þá verðgildi hvers punkts kr. 500. Að hámarki er hægt að kaupa 24 punkta á 365 daga tímabili. Hafa þarf samband við skrifstofu ef slíks er óskað.
 

Leiga orlofshúsa eða önnur niðurgreidd þjónusta krefst þess einnig að félagsmenn eigi tiltekinn fjölda punkta. Einnig þarf að athuga að til þess að þeir félagsmenn sem hafa látið af störfum geta nýtt orlofsvefinn þá þurfa þeir að vera skráðir félagsmenn í FKE.

Á vef Orlofssjóðs er að finna gjafabréf í flug, flugmiða innanlands, kort, orlofshús og annað til sölu með eða án punktafrádráttar.

Sjóðfélagar sem eiga orlofspunkta geta keypt þjónustu á bókunarvef sjóðsins eða á skrifstofu Orlofssjóðs.

REGLUR ORLOFSSJÓÐS KÍ

Hér er hlekkur í núgildandi reglur orlofssjóðs:

https://www.ki.is/media/tsdlv3xy/orlof_reglur_2019_til_2020_uppfaert_a_vef_260619.pdf

REGLUR UM ÚTHLUTUN OG PUNKTAKERFI
Úthlutun orlofshúsa KÍ fer eftir orlofspunktaeign félaga. Úthlutunartímabil orlofshúsa KÍ eru þrjú á ári. Opnun fyrir sumartímabil (júní-ágúst) er í byrjun apríl ár hvert; hausttímabil (lok ágúst-byrjun janúar) er til úthlutunar í byrjun júní og seinni hluti vetrar/vor er til úthlutunar í byrjun september ár hver.

Á sumartímabili gilda tvær reglur: “úthlutun” (vikuleigur) eða „fyrstur kemur, fyrstur fær“ (flakkarar). Úthlutunarreglan er á þann máta að félagsmenn hafa nokkrar vikur til að bóka og geta jafnframt valið um allt að sex eignir. Bókunarkerfið úthlutar síðan eftir punktaeign félagsmanna. Reglan “fyrstur kemur fyrstur fær” felur í sér að þeir félagsmenn sem eiga flesta punkta geta fyrstir byrjað að bóka leigu á Orlofsvefnum og er hann [orlofsvefurinn] stilltur í samræmi við það. Opnunartímabil og dagsetningar eru auglýst á orlofsvef KÍ sem og send til félagsmanna í fjölpósti.

Félagsmenn í Félagi kennara á eftirlaunum (FKE) eiga ekki lengur punktaeignarforgang til að bóka orlofseignir þegar opnað verður fyrir sumarúthlutanir. Þeir geta því einungis bókað orlofseignir þegar opnað verður fyrir almenna úthlutun sumartímabilsins. Yfir vetrartímann eru ekki teknir punktar fyrir leigur í miðri viku í orlofshúsum á Flúðum og Kjarnaskógi.

Fimmtudagur, 28 Maí 2020 16:12

Gangan 24. maí

 Farið var frá Lindakirkju í Kópavogi og gengið um hverfið.

 

Myndir: Pétur Bjarnason

Fimmtudagur, 28 Maí 2020 15:18

418. stjórnarfundur

418. stjórnarfundur FKE,  miðvikudaginn 27. maí kl. 9:00 í Litla Holti, húsnæði Kennarasambandsins við Borgartún.

Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Björn Kristmundsson varaformaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Valborg Elísabet Baldvinsdóttir meðstjórnandi og Halldór Þórðarson vefstjóri.

Fjarverandi: Kristín Ísfeld gjaldkeri og  Gunnlaugur Dan Ólafsson meðstjórnandi

Fundur var settur kl.9:20

 1. Réttindi eftirlaunakennara
  Ákveðið hafði verið á fundi 5.maí að fá einhvern frá orlofssjóði til þess að ræða réttindi eftirlaunakennara til leigu orlofshúsa og íbúða. 


  Ólöf Sigríður Björnsdóttir sér um orlofssjóðinn og var hún svo elskuleg að koma og svara spurningum okkar.
  Réttindi  eftirlaunakennara til leigu orlofsíbúða eru hin sömu og kennara í starfi alla mánuði ársins nema sumarmánuðina, júní, júlí og ágúst. Þá mánuði fá kennarar sem eru í starfi að hafa forgang en fjórum dögum eftir að opnað er fyrir kennara í  starfi er opnað fyrir eftirlaunakennara. 
  Allir kennarar þurfa að eiga punkta. Hægt er að kaupa 24 orlofspunkta á ári. Verðgildi hvers punkts er kr.500-.
  Í lok ágúst er hægt að panta fram í janúar. Í september er opnað fyrir það sem er til leigu seinnihluta vetrar. Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu eiga einnig rétt á íbúðum í Reykjavík.  Ekki má áframleigja íbúðirnar. 
  Vörðuleiti 2 er nýtt hús sem KÍ hefur keypt og vill í þess stað selja íbúðir  við Sóleyjargötu. Ekki hefur sala á Sóleyjargötu gengið ennþá en vonandi rætist úr því. 
  Nú er hætt að prenta orlofsblaðið og handbókina. Það eru ákvarðanir þeirrar stjórnar sem er við völd hverju sinni.
  Ólöf nefndi einnig að réttur kennara úr endurmenntunarsjóði, sjúkrasjóði og öðrum sjóðum félagsins falli niður um leið og kennari fer á eftirlaun. 
  Þá hvatti hún okkur í FKE að skrifa bréf varðandi dánarbætur sem henni fannst að allir sem hefðu verið í KÍ ættu að eiga rétt á. Það væri sjálfsagður virðingaréttur. Öll vorum við sammála um að mikilvægt sé að allar upplýsingar varðandi styrki og réttindi séu augljósar og aðgengilegar þegar starfslok nálgast.

  Netfang Ólafar er This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

 2. Ferðin að Smyrlabjörgum2
  Rætt var um að ferðin að Smyrlabjörgum væri á áætlun og að Gunnlaugur Dan mundi verða áfram í sambandi við Kára Jónasson, hótelið og rútuna. Í fundargerð 417 kom fram að ekki væri búið að reikna út verð á mann í þá ferð en miðað var við 30 manns.
 3. Aðalfundurinn
  Marta ætlar að panta salinn á Grand Hóteli fyrir aðalfundinn 3. október. Hún ætlar einnig að hafa samband við Bergþór og Albert. Fundurinn hefst kl.13:30.
  Fréttabréfið kemur út í september og þá verður aðalfundurinn auglýstur.

Ekki var ákveðin dagsetning fyrir næsta fund.

Fundi var slitið kl.10:45

Mánudagur, 18 Maí 2020 17:29

Gangan 18. maí

Gengið var frá IKEA umhverfis Urriðaholtið, rúmlega 4 kílómetrar, og kaffi í IKEA á eftir.

17 voru mættir. 

Myndir: Halldór Þórðarson

Mánudagur, 18 Maí 2020 17:19

Starfið framundan

Í ljósi þess að óvíst er um hve lengi áhrif COVID-19 veirunnar vara, ákvað stjórnin á síðasta fundi sínum að fresta útkomu maí fréttabréfs þar til í júní.

Vonandi verður þá orðið ljóst hvað af áður áætlaðri starfsemi félagsins verður hægt að framkvæma. Ólíklegt er að af dagsferðinni í júlí geti orðið en tveggja daga ferð að Smyrlabjörgum 24.-25. ágúst er líkleg og aðalfundurinn verður að öllum líkindum í byrjun október.

Mánudagur, 18 Maí 2020 17:05

Ganga 11. maí

Gengið var frá Golfskála GKG umhverfis Vífilstaðavatn og síðan kaffi á eftir í Golfskálanum.

Metþátttaka var eða 18 manns.

Myndir: Pétur Bjarnason

Föstudagur, 15 Maí 2020 11:35

417. stjórnarfundur

417. stjórnarfundur FKE, haldinn þriðjudaginn 5. maí í Litla Holti, nýju húsnæði Kennarasambandsins við Borgartún.

Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Björn Kristmundsson varaformaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín Ísfeld gjaldkeri, Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir meðstjórnendur og Halldór Þórðarson vefstjóri.

Fundur var settur kl. 10:45 eftir að Ragnar Þór Pétursson formaður KÍ og Anna María Gunnarsdóttir varaformaður höfðu gengið með okkur um hið nýja húsnæði og sýnt okkur aðstöðuna. Húsnæðið er hið glæsilegasta og ólíkt rýmra en var í gamla skólahúsinu við Laufásveg.

Fundargerð síðasta fundar var samþykkt.

 1. Fundurinn í Alta.
  Marta ætlar að senda út fyrirspurn til Per Sætre um hvort áætlaður fundur stjórna eftirlaunakennara sem vera átti í júní 2020 verði í Noregi 2021 eða hvort Norðmenn detti út í þessari umferð.
 2. Ferðin í Borgarfjörð.
  Ákveðið var að fella niður ferðina í Borgarfjörð sem átti að vera um miðjan júlí.
 3. Ferðin að Smyrlabjörgum.
  Athugandi er að stefna áfram í ferð að Smyrlabjörgum um miðjan ágúst. Skoða þarf verð á mann miðað við að 30 manns fari í ferðina.
 4. Borgarferð í haust.
  Augljóst er að ekki verði farið í slíka ferð þetta haustið.
 5. Fréttabréfið.
  Verður sent út í byrjun júní.
 6. Starfið í haust.
  Áætlað er að halda aðalfund 3. október 2020 og reyna að fá Bergþór Pálsson og Albert á þann fund en sleppa spilavistinni.
 7. Stjórnarmenn 2020-2021.
  Í stjórnina vantar formann og vefstjóra.
 8. Önnur mál.
  Taka fyrir á næsta fundi hvaða reglur gildi um eftirlaunakennara varðandi leigu á orlofshúsum og íbúðum KÍ.

Næsti fundur verður 27. maí kl.9:00

Fundi slitið rétt fyrir kl.12:00

Sunnudagur, 10 Maí 2020 13:16

Ganga 4. maí

Gengið var frá Víkingsheimilinu og um Elliðaárdal.

Page 1 of 14