Myndbönd

Innskráning

Nýskráning

Administrator

Mánudagur, 16 Desember 2019 15:32

Gangan 16. 12.

Gengið var frá Glæsibæ sem leið liggur Laugardalinn að Sundlaugavegi, til baka Reykjaveg, meðfram Suðurlandsbraut og aftur í Glæsibæ. Samtals um 4 km á 1 klst.
Síðan var hressing í Bakarameistaranum Glæsibæ. Alls voru 13 mættir.
Næsta ganga áætluð 30. des.

Myndir; Halldór Þórðarson og Pétur Bjarnason

Sunnudagur, 15 Desember 2019 23:27

Gangan 9. 12.

Gengið var frá Umferðamiðstöðinni  um Hljómskálagarðinn, umhverfis Tjörnina og kaffi á eftir í Umferðamiðstöðinni.

Myndir;Pétur Bjarnason

Sunnudagur, 15 Desember 2019 23:23

Ganga 16. 12.

Spáin fyrir mánudaginn er frost og einhver norðangjóla
Við skulum hittast vel búin á planinu við Glæsibæ og ganga um
Laugardalinn. Kaffi í Bakarameistaranum í Glæsibæ um tvöleytið.
Síðasta ganga fyrir jól.

Mánudagur, 09 Desember 2019 01:15

Gangan 9. 12.

Við mætum á Umferðamiðstöðina klukkan þrettán og göngum um Hljómskálagarðinn, umhverfis Tjörnina og kaffi á Umferðamiðstöðinni, sem ég held að hafi opnað að nýju.

Bestu kveðjur, Pétur

Sunnudagur, 08 Desember 2019 15:27

Jólafundur á Grand hóteli

Jólafundur FEK var haldinn á Grand hóteli 7. desember 2019. Fundurinn hófst á félagsvist eins og venjulega og spilað var á 7 borðum. Vinninghafar voru Ásdís Gunnarsdóttir spiladrottning og Sigríður Einarsdóttir spilakóngur, en hún spilaði í hópi karla.
Kaffi og kökur voru strax að lokinni félagsvist og þá söng Ekkó kórinn. Jóhanna Ósk Valsdóttir eiginkona Bjarts Loga kórsstjóra söng einsöng í laginu ,,Líður að kveldi“. 
Pétur Bjarnason las síðan upp úr nýútkominni bók sinni ,,Nótabátur leggst í víking“.

63 mættu á fundinn.

Myndir; Halldór Þórðarson

Miðvikudagur, 04 Desember 2019 17:04

Grandfundur 2. nóvember 2019

Fræðslu- og skemmtifundur FKE var haldinn á Grand hóteli 2. nóvember.
33 félagsmenn voru mættir sem er óvenju fámennt en síðar kom í ljós að tölvupóstþjónusta félagsins hafði brugðist og enginn fengið póstinn sem sendur var út fyrir fundinn.
Spiluð var félagsvist á 7 borðum. Spiladrottning varð Sólveig Jóhannsdóttir og spilakóngur Þórunn Lárusdóttir.
Að loknum spilum voru bornar fram veitingar að hætti hússins á meðan gestir neyttu flutti Guðmundur Kristmundsson erindi sem hann nefndi Saga úr skóla og nokkur ljóð.

 

Myndir: Halldór Þórðarson 

Þriðjudagur, 03 Desember 2019 23:59

Grandfundur 7. desember

Næsti fræðslu- og skemmtifundur FKE,  jólafundur, verður haldinn n. k.  laugardag, 7. desember á Grand hóteli við Sigtún.

Fundurinn hefst kl 13:30 með því að spiluð verður félagsvist, þá verður kaffi og síðan mun Ekkó-kórinn syngja. Eftir söngstund mun Pétur Bjarnason lesa upp úr nýútkominni bók sinni.

Þriðjudagur, 03 Desember 2019 23:18

Göngur í nóvember

4. nóvember var gengið frá bílastæði Nauthóls meðfram ströndinni, langleiðina út á Seltjarnarnes og til baka. Fengum okkur kaffi og meðlæti í Nauthól. Engar myndir teknar.

11. nóvember hittist hópurinn við Lindarkirkju í Kópavogi og gekk í stóran hring að Hnoðraholti í Garðabæ þegar haldið var til baka og endað í kaffi í Smáralind (Bakarameistaranum).

18. nóvember hófst gangan á bílastæði við golfskála GKG við Vífilsstaðaveg.Síðan var gengið yfir að Vífilsstöðum og farið stuttlega yfir merka sögu hússins og staðarins. Svo var gengið frekar stuttan hring niður fyrir og umhverfis Vífilsstaði og aftur að golfskálanum, að hluta í skjóli af skógi. Kaffi í golfskálanum um kl. 14:00

25. nóvember Gengið var frá Víkingsheimilinu vestur Fossvogsdal og til baka.Kaffi í Bakarameistaranum í Austurveri við Háaleitisbraut að lokinni göngu.

Þriðjudagur, 26 Nóvember 2019 17:46

413. stjórnarfundur

413. stjórnarfundur   FKE var haldinn á heimili Kristínar Ísfeld Árskógum 1a 19. nóvember 2019 kl. 11:00

Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Kristmundsson varaformaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín Ísfeld gjaldkeri, Halldór Þórðarson vefstjóri og Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir meðstjórnendur.
Formaður setti fund kl. rúmlega 11

 1. Jólafundur FKE verður 7.desember Á fundinum verður félagsvist eins og venjulega kl.13:30, þá verður kaffi og síðan mun Ekkó-kórinn syngja. Eftir söngstund mun Pétur Bjarnason lesa upp úr nýútkominni bók sinni. Mikilvægt er að vekja athygli á jólafundinum. Var Halldór beðinn um að senda tilkynningu á félagsmenn. Þá er einnig mikilvægt að vekja athygli á bókaklúbbnum en mæting í haust hefur ekki verið nægilega góð. Gunnlaugur nefndi að e.t.v. væri snjallt að stjórnendur klúbbsins hefðu netföng þeirra sem mæta eða hefðu sýnt áhuga á bókaklúbbnum og sendu á þá hvetjandi upplýsingar s.s. um hvað fyrirhugað væri að gera í klúbbnum.
 2. Á fundinn sem verður 11. janúar væri gaman að fá íþróttafræðing til þess að tala um hreyfingu. Kristín Ísfeld mun kanna það mál.
 3. Norrænt mót á Íslandi 2021. Skoðað var tilboð frá AD Travel en þar var greinilega verið að reikna með 6 dögum en ekki 5 eins og venjulega hefur verið. Ef sleppa á einum ferðadegi var rætt um að sleppa Gullna hringnum. Gunnlaugur Dan mun hafa samband við ferðaskrifstofuna. 
 4. Sumarferðir FEK 2020. Hugsanlega verður dagsferð í Borgarfjörð og tveggja daga ferð að Smyrlabjörgum. Miklu máli skiptir að fá góðan og fróðan leiðsögumann. Rætt var um að fara í skoðunarferð í Perlu og annan dag ,,Flugferð yfir Ísland“ sem staðsett er út á Granda.
 5. Ákveðið var að Halldór sendi út könnun á félagsmenn og athugi hvernig ferðum þeir hafi áhuga á. Vilja þeir fara í sólarlandaferðir eða borgarferðir ?
 6. Stjórnin samþykkti að kaupa tölvu fyrir vefstjóra. Í félagi FEK eru 1900 félagsmenn og af þeim hafa 1357 virk netföng.
 7. Guðrún Erla ætlar að senda Halldóri nokkrar línur eftir fundi á Grand Hóteli. Segja t.d. frá því hverjir fái verðlaun í félagsvistinni og e.t.v. einhverju fleiru markverðu. Þá væri æskilegt að í næsta fréttabréfi komi fram nöfn þeirra sem fengu verðlaun í félagsvistinni 2. nóvember.
  Næsti fundur verður 18. desember kl.11 hjá Kristínu Ísfeld.

Fundi slitið kl. 13:15.

Miðvikudagur, 13 Nóvember 2019 13:30

412. stjórnarfundur

412. stjórnarfundur FKE var haldinn á heimili formanns að Sólheimum 23, 30. október 2019 kl 11:00

Mættir voru: Marta Sigurðardóttir formaður, Guðmundur Kristmundsson varaformaður, Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari, Kristín Ísfeld gjaldkeri, Halldór Þórðarson vefstjóri, Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir meðstjórnendur.

Formaður setti fund kl.rúmlega 11:00

  1. Tilnefna tengilið við Grandhótel.
   Ákveðið var að Marta taki að sér samskipti við hótelið og sjái um að koma með spilin.
  2. Fundur á Grandhóteli 2. Nóvember.
   Fyrir utan félagsvist og kaffi var rætt um að áhugavert væri að fá íþróttakennara til þess að ræða um nauðsyn hreyfingar. Ætlar Kristín að kanna þau mál. Gangi það ekki ætlar Guðmundur að lesa upp úr bók Þórðar Helgasonar.
  3. Hugmyndir að efni á fund 7. desember.
   Samþykkt að Ekkó kórinn komi fram og gaman væri að fá Pétur til þess að lesa upp úr bókinni sem hann er að gefa út.
  4. Norrænt mót 2021
   Guðrún Erla og Gunnlaugur voru með tilboð frá Park inn hóteli í Keflavík. Einnig var Gunnlaugur með tilboð frá Örk í Hveragerði.
   Meiri áhugi var á að semja við Örk. Hugsanlega væri það aðgengilegri staður fyrir hópinn og meira við að vera. Gunnlaugur ætlar að hafa samband við AD travel og kanna hvort þeir geti tekið að sér skipulagningu.
  5. Ferðir á vegum félagsins næsta sumar.
   Hugsanlegt að fara í sólarlandaferð. Gunnlaugur ætlar að kanna með ferð til Spánar. Rætt um dagsferð í Þjórsárdal en ekki tekin ákvörðun um tveggja daga ferð að svo stöddu.
  6. Önnur mál

Ekkert fleira lá fyrir. 
Fundi slitið kl.13.00

Page 3 of 14