Myndbönd

Innskráning

Nýskráning

Administrator

Föstudagur, 13 September 2019 14:04

Ferð á Norðausturland í ágúst 2019

Um miðjan ágúst skelltu glaðir kennarar á eftirlaunum sér í 3ja daga ferð norður. Farið var í Ásbyrgi, Goðafoss , Þorgeirskirkju og fleiri fallega staði á Norð-austurlandi.
Ekið var sem leið lá frá Reykjavík, með nokkrum hressingarstoppum og hádegismat á Hvammstanga og í gistingu að Stórutjörnum.
Næsta dag var byrjað á að skoða Goðafoss og Þorgeirskirkju og haldið áfram sem leið lá að skólasetrinu Laugum í Reykjadal, þá var ekið um Tjörnes í átt að Ásbyrgi. Veðrið þennan dag var kaflaskipt, stundum þoka og rigning en inn á milli birti til og sólin vermdi okkur og við sáum fallegu staðina sem þarna voru. Í Ásbyrgi var sólskin og blíða og þvílík fegurð og náttúruundur. Því næst var sýningin í Gljúfrastofu skoðuð. Kvöldmatur var á Húsavík.
Síðasta daginn var ekið til Reykjavíkur og veðrið var eins fallegt og hugsast getur, sólin og birtan gerðu sveitirnar svo undurfagrar að maður var andaktugur.
Við ókum um miðbæ Akureyrar og skoðuðum Lystigarðinn sem var í fallegum blóma. Guðmundur Kristmundsson sá um leiðsögn á leiðinni norður og suður og fræddi okkur mikið og gaf mörgum stöðum líf og merkingu, en hann er vel kunnugur á þessu svæði og á ferðinni um Þingeyjarsýslu sagði Valborg Baldvinsdóttir okkur frá svæðinu, en hún á ættir að rekja þangað og dvaldi þar áður fyrr um tíma.

Myndir: Marta Sigurðardóttir

Laugardagur, 03 Ágúst 2019 14:45

Dagsferð í Stykkishólm

Að morgni 18. júlí lagði vaskur hópur félagsmanna af stað, ekið var sem leið lá í gegnum fagrar sveitir landsins í blíðskaparveðri, þar til komið var í Stykkishólm. Þar var ferðinni heitið í siglingu um Breiðafjörð með Særúnu, þar sem við skoðuðum fjölskrúðugt fuglalíf og eyjar og var okkur sagt frá og sagðar sögur af svæðinu. Settur var niður poki sem dreginn er eftir sjávarbotni og síðan dreginn upp og gefst þátttakendum kostur á að bragða á því fiskmeti sem dregið er upp og var því vel tekið. Það sem ekki var borðað fékk að fara aftur í sjóinn. Veðrið var eins dásamlegt og hugsast getur, bjart, sólríkt, nánast logn og hlýtt.
Að loknum hádegisverði var farið í skoðunarferð og vorum við svo heppinn að Gunnar Svanlaugsson fyrrverandi kennari og skólastjóri frá Stykkishólmi tók að sér að segja okkur frá staðnum, við byrjuðum í kirkjunni, fórum hring um bæinn og enduðum í Vatnasafninu. Því næst gátu ferðalangar gert það sem hugur þeirra stóð til uns lagt var af stað til Reykjavíkur með viðkomu í Landnámssetrinu í Borgarnesi þar sem snæddur var kvöldverður.
Frábær ferð með góðu fólki og hjálpaði veðrið mikið til að gera þessa ferð minnnisstæða.

Mánudagur, 03 Júní 2019 13:30

Göngur í maí

Þann 6. maí var gengið um Elliðaárdalinn og gengnir stígar í skóginum í miðjum dalnum.  Það hafði rignt um morguninn og þvílíkur gróðurilmur.

Þann 13. maí var farið inn í skóginn við Rauðavatn, það rigndi hressilega þennan dag og var reynt að ganga sem mest inni í þéttum trjáþyrpingum til að fá skjól fyrir rigningunni.  Fengum okkur hressingu hjá Olís í Norðlingaholti.

Þann 20. maí var lagt upp frá Selásskóla og gengið sem leið lá í gegnum hverfið og á göngubrú yfir í Norðlingaholt og þar gengið í stóran hring og það var eins og við værum komin langt upp í sveit, þvílík fegurð og friður.  Að göngu lokinn buðu Þóra og Bjarni göngumönnum í kaffi heima hjá sér í Árbænum.

Síðasta gangan var mánudaginn 27. maí og þá var gengið um Laugardalinn og garðurinn skoðaður í vor/sumarskrúða.

Myndir: Marta Sigurðardóttir

 

Sunnudagur, 12 Maí 2019 22:49

Ganga 13. maí

Á dagskránni á morgun var að ganga yfir í Norðlingaholt, en veðurspáin er ekki sérstök, svo við ætlum að bregða fyrir okkur betri fætinum og mæta á Olísstöðina  í Norðlingaholti og fara í göngu í skóginum (vörn fyrir regni og vindi) við Rauðavatn, ef veðrið verður betra en við gerum ráð fyrir finnum við góðar gönguleiðir á svæðinu.

Eftir göngu verður fínt að fara í kaffi hjá Bakarameistaranum í Krónunni/ Húsgagnahöllinni.

Fimmtudagur, 02 Maí 2019 11:13

Næsta ganga 6. maí

Mánudaginn 6. maí ætlum við að ganga um Elliðaárdalinn og munum við hittast við Atlantsolíu við Sprengisand kl. 13.

Fimmtudagur, 02 Maí 2019 10:51

Gangan 29. apríl

Hópurinn hittist  við eiðið á Geldinganesi og gekk síðan sem leið lá yfir eiðið í blíðskaparveðri og inn að námu, en það er stórt skarð þar sem efni var sótt í þegar verið var að fylla upp fyrir Sundahöfnina á sínum tíma.  Í dag er það orðið gróið og fallegt á að líta. Eftir gönguna var farið á kaffihús og setið yfir spjalli og veitingum.

Myndir: Marta Sigurðardóttir

Föstudagur, 12 Apríl 2019 11:30

409. stjórnarfundur

409. fundur var haldinn 2. apríl 2019  í Hveragerði að heimili Sigurlínar.

Mætt voru Sigurlín, Kristín, Marta, Halldór, Pétur, Guðrún og Guðmundur.

Formaður setti fund kl. 10.30

 1. Formaður gerði grein fyrir bréfi sem félaginu barst um launakjör eftirlaunafólks. Launamál hafa ekki verið á dagskrá FKE. Þau eiga heima á öðrum vettvangi. 
 2. Rætt var um tillögur að kjöri fulltrúa í stjórn á væntanlegum aðalfundi. Guðmundur og Marta eru varamenn og lagt er til að þau verði í kjöri sem aðalmenn. Þá er lagt til að Marta verði í kjöri sem formaður til eins árs. Kristín og Guðmundur verði kjörin í aðalstjórn til tveggja ára. 
 3. Rætt um frekara skipulag aðalfundar og undirbúning, m.a. að hafa kjörseðla tilbúna. 
 4. Rætt um almenna fundi í framtíðinni (Grandfundi) og talið að það yrðu að vera laugardagsfundir eins og verið hefur. Það virðist gefast best. 
 5. Gönguferðir hafa gengið vel í vetur og hlotið lof göngumanna. Ferðir á árinu þóttu takast mjög vel og fólk ánægt með þær. Hið sama gildir um ferðir á Þjóðminjasafn og Sjóminjasafn. 
 6. Rætt um ferðir í sumar. Skipulag þeirra er komið vel á veg. Ljúka þarf við skipulag ferðar norður í land í ágúst og ákveða hvaða staðir verða heimsóttir fyrir norðan. Búið er að festa rútu og gist verður að Stórutjörnum. 
 7. Kristín spurði hvort í lagi væri að færa reikninga félagsins með það fyrir augum að fá betri vexti. Var það samþykkt. 
 8. Þetta var síðasti fundur Péturs formanns og þakkaði hann samveruna. Fundarmenn þökkuðu Sigurlín fyrir góðan viðurgjörning.

Fundi slitið kl. 11.30

Laugardagur, 06 Apríl 2019 05:40

Gangan 1. apríl

Í göngu FKE 1.4. s.l. mættu alls 14. Gengið var frá Suðurhlíðum út í Nauthólsvík í dásamlegu veðri og fylgst með sjósundfólki. Kaffi í Bakarameistaranum í Austurveri á eftir.

Myndir: Pétur Bjarnason

Laugardagur, 06 Apríl 2019 05:32

Aðalfundur FKE 6. apríl 2019

Stjórnarkjör á aðalfundi FKE 6. apríl, 2019
Í stjórn FKE eru nú: Pétur Bjarnason, formaður, Guðmundur Kristmundsson, Guðrún Ólafía Samúelsdóttir, Halldór Þórðarson, Kristín Ísfeld, hefur starfað sem staðgengill Kristjáns Sigfússonar, sem þurfti að láta af störfum, Marta Sigurðardóttir, og Sigurlín Sveinbjarnardóttir.
Pétur Bjarnason lætur af starfi formanns eftir sex ára stjórnarsetu, þar af tvö sem formaður FKE.
Formaður er kosinn til eins árs.
Tillaga stjórnar í embætti formanns: Marta Sigurðardóttir, sem nú er í stjórn FKE.
Þeir tveir stjórnarmenn sem kosnir voru til tveggja ára í fyrra hafa báðir óskað að láta af störfum.
Aðrir stjórnarmenn sem óska endurkjörs voru kosin til eins árs í fyrra, þannig að kjósa þarf nú um alla stjórnarmenn.
Tillaga stjórnar FKE að stjórnarfólki er eftirfarandi:
Í aðalstjórn:
Kosin til tveggja ára: Guðmundur Kristmundsson og Kristín Ísfeld.
Kosin til eins árs: Halldór Þórðarson og Guðrún Erla Björgvinsdóttir.
Í varastjórn til eins árs: Gunnlaugur Dan Ólafsson og Valborg Elísabet Baldvinsdóttir.

Tillaga stjórnar um skoðunarmenn reikninga: Egill Sigurðsson og Þorvaldur Jónasson.

Sunnudagur, 31 Mars 2019 14:09

408. Stjórnarfundur

408. stjórnarfundur FKE var haldinn þann 11.03.19 í Austra í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Guðrún Ólafía, Marta, Kristín, Guðmundur og Sigurlín.

Áður en fundur hófst kom Kristján og skilaði af sér kassa með skiptimynt og tók nýr  gjaldkeri við honum. Stjórnarmenn buðu Kristjáni að koma með í ferð félagsins til Dublínar í september nk. og þáði hann það.

Pétur setti fund.

 1. Rætt var um Dublínarferð í haust. Allt lítur vel út, 36 eru bókaðir í ferðina og enn er möguleiki á viðbót.
 2. Norrænt mót er fyrirhugað hjá okkur 2021. Sigurlín sagði frá því að hún hefði kannað hótel á Suðurnesjum og litist best á Hótel Keflavík því þeir geta tekið á móti 80-90 manna hópi. Hún hefur bókað þar frá 7.-11. júní 2021 en ekki fengið svar um verð ennþá. Hún mun halda áfram að vinna í þessu.
 3. Aðalfundur verður haldinn 6. apríl nk. Ljóst er að það vantar nýtt fólk í stjórn og það þarf að auglýsa aðalfundinn og laus stjórnarsæti á vefnum. Nokkrar hugmyndir hafa komið fram en gjaldkeri verður áfram Kristín Ísfeld sem kom inn í vetur og bjargaði félaginu í forföllum Kristjáns. Formaður mun koma með tillögu að nýrri stjórn og leggja hana fyrir aðalfund.
 4. Fyrirhugað er að fara í Sjóminjasafnið þann 13. mars kl. 13.00. Það þarf að auglýsa heimsóknina með vefpósti, ókeypis aðgangur.
 5. Færeyjaferð stjórnarmanna átti að vera tilbúin og aukanætur í lagi. En þá kom í ljós að ekki var búið að panta og greiða fyrir legginn heim (verðum í hópi strandaglópa). Guðmundur vinnur hörðum höndum að því koma okkur aftur heim og mun þá verðið líka hækka.
 6. Önnur mál: Gjaldkeri er að skoða hvernig hægt er að fá betri ávöxtun á reikninga félagsins. Því var vel tekið, það munar um allt.

Haldinn verður einn stjórnarfundur fyrir aðalfund: Næsti fundur var ákveðinn þriðudaginn 2. apríl kl. 10 að Lækjarbrún 22 í Hveragerði.

Fundi slitið um kl. 11.25.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Page 5 of 14