Myndbönd

Innskráning

Nýskráning

Administrator

Sunnudagur, 30 Desember 2018 15:02

405. stjórnarfundur

405. stjórnarfundur FKE haldinn 11. 12. 2018 kl. 10:00 í Kennarahúsinu

Mættir: Halldór, Marta, Kristján, Guðrún, Kristín, Pétur og Guðmundur sem ritaði fundargerð. Sigurlín boðaði forföll vegna veðurs. 

Formaður setti fund kl. 10.05

 1. Kristín Ísfeld var boðin velkomin á fundinn. Formaður greindi frá því sem áður hefur verið rætt í tölvupóstum að vegna fjölskylduaðstæðna hefur Kristján Sigfússon óskað eftir lausn frá stjórnarstörfum og þar með starfi gjaldkera. Kristín Ísfeld, fyrrum gjaldkeri FKE er tilbúin að taka við starfi gjaldkera af Kristjáni. Óskaði formaður eftir formlegri afgreiðslu stjórnar á þessari breytingu og var hún samþykkt samhljóða. Kristín mun því gegna starfi gjaldkera frá áramótum.
 2. Formaður greindi frá niðurstöðum máls vegna sumarferðar sl. sumar. GJ travel býðst til að greiða þeim 15.000 kr. sem voru 2 nætur í annexíu, sem ekki var samkvæmt ferðalýsingu, og 7.500 þeim sem voru eina nótt við slíkar aðstæður. Fundarmenn samþykktu þessa lausn.
 3. Fréttabréfið framundan: Illa gekk með spilafundi í haust og fáir mættu. Formaður lagði til að Grandfundum yrði fjölgað um 2-3 fundi. Það var samþykkt. Guðrúnu falið að kanna hvort 5. eða 12. janúar gangi hjá Grand hóteli. Halldór benti á að Hringfari væri til í að halda fyrirlestur á Grandfundi. 2. feb. hátíðarfundur, 2. mars spilafundur, 6. apríl Grandfundur, aðalfundur.
  Gönguferðir á mánudögum hafa gengið vel og hópurinn verið 5-14 manns. Pétur tók að sér að búa til skrá um göngur til aprílloka. Skrá birt í næsta fréttablaði.
  Minnt verður á starf kórsins í vetur sem verður með sama sniði. Bókmenntaklúbburinn starfar samkvæmt dagskrá sem birt verður í fréttabréfinu.
  Þá var ákveðið að gera grein fyrir könnuninni og hvernig þær upplýsingar reyndust í starfinu. Þá þarf að setja inn upplýsingar um breytingar á stjórn, svo sem fram kom í upphafi fundar.
 4. Færeyjar: Rætt um ferð stjórnar á fund til Færeyja. Formaður gerði grein fyrir samskiptum við Færeyinga um málið. Mörtu og Guðmundi falið að kanna fargjöld og leiðir.
 5. Ferðir á komandi sumri: Rætt var að bjóða upp á dagsferð innanlands og tveggja til þriggja daga ferð innanlands auk utanlandsferðar. Þetta þarf að skoða og ákveða. Fólk var ánægt með utanlandsferðina síðastliðið sumar, þrátt fyrir fáein vandamál. Til greina kæmi t.d. dagsferð til Stykkishólms og bátsferð um Breiðafjörð. Hugsanlega miðvikudaginn 17. júlí og ef til vill tveggja til þriggja daga ferð í lok ágúst og þá um Norðausturland. Einnig var rætt um utanlandsferð og kom þá til álita 4-5 daga ferð um Skotland eða Írland. Ákveðið var að safna upplýsingum um slíkar ferðir fyrir næsta fund.
 6. Söfn: Vel þótti takast til í heimsókn á Þjóðminjasafn og lagt til á fundinum að fara aðra slíka ferð í vetur, líklega í mars. Rætt var um Perluna eða Sjóminjasafn. Leist mönnum vel á báðar stofnanir en ræddu að gott væri að fara fyrst á Sjóminjasafnið og til þess væri 13. mars heppilegur dagur.
 7. Önnur mál: Kristján minnti á norræna fundinn sem halda á hér 2021 og nauðsynlegt væri að fara að undirbúa hann nú í vetur, einkum væri mikilvægt að velja stað og bóka hótel. Fundarmenn hvattir til að hugleiða málið og koma með tillögur

Fundi slitið 11.40

Næsti fundur boðaður 16. janúar 2019 kl. 10:00

Þriðjudagur, 04 Desember 2018 14:00

Gangan 3. desember

Gönguhópurinn hittist í Nauthólsvík s.l. mánudag í svölu veðri en nánast logni. Gengið var fyrir enda N-S flugbrautar út að brimvarnargarði langleiðina að Suðurgötu og til baka u.þ.b. 4 km.

Að göngu lokinni var komið við í Bragganum og drukkið kaffi til að fá hita í kroppinn.

Myndir: Halldór Þórðarson

Þriðjudagur, 04 Desember 2018 11:27

Breytingar á dagskránni í vetur

Frá stjórn FKE.

vist 01Bridge 7. 21. 11.
Fyrri myndin er frá félagsvist 7. 11. en hin frá briddsdegi 21. 11. 

 Félagsvist, sem átti að vera 6. desember fellur niður. Sömuleiðis fellur niður bridds sem  var áformað þann 19. desember.

Ástæðurnar eru ónóg þátttaka í báðum þessum viðburðum. Því verður ekki spilað á áformuðum dögum eftir áramót.

Ný áform verða kynnt í fréttabréfi í janúar.

Gönguhópurinn mun halda sínu striki og ganga 10. og 17. desember en svo verður gert hlé fram til mánudagsins 7. janúar.

Bestu jóla- og nýársóskir til ykkar allra með þökk fyrir samstarfið á árinu.

Þriðjudagur, 27 Nóvember 2018 16:34

Gangan 26. nóvember

Gönguhópurinn hittist við Perluna og gekk í blíðskaparveðri um nágrennið í u.þ.b. klukkustund.
Að þessu sinni voru þátttakendur 8 talsins.

Myndir: Halldór Þórðarson

Fimmtudagur, 22 Nóvember 2018 11:49

Ferð á Þjóðminjasafnið

Ferð FKE í Þjóðminjasafnið 15. nóv. gekk vel. Ellefu mættu og fengu 
mjög góða leiðsögn um safnið. Í alla staði skemmtilegt og áhugavert.
Til tals hefur komið að efna einnig til safnferðar á vormisseri.

Myndir: Pétur Bjarnason

Fimmtudagur, 22 Nóvember 2018 11:23

404. Stjórnarfundur

Fundargerð
404. stjórnarfundur FKE haldinn 15.11. 2018 kl. 11.00 í Kennarahúsinu. 

Mætt voru: Pétur, Halldór, Marta og Guðmundur. Aðrir boðuðu forföll

Formaður setti fund.

 1. Formaður greindi frá lyktum máls varðandi hótel í sumarferð. Komist hefur verið að samkomulagi við ferðaskrifstofu um að þeir sem urðu að gista í annexíu fengju 7.500 kr. í bætur og fararstjóri fengi bætur vegna óviðunandi aðstöðu.
 2. Grein var gerð fyrir starfinu í haust. Haustfundur gekk vel og var vel sóttur. Nánast engin ásókn var í að spila vist, einungis 2 mættu auk stjórnarmanna. Ákveðið var að félagsvist yrði ekki í boði eftir áramót. Þessar undirtektir voru alls ekki í samræmi við könnun. Betur lítur út með bridge. Þar hefur nokkur hópur komið saman. Þá hefur vel tekist til með gönguhóp sem kemur saman á mánudögum. Þar hafa 14 manns mætt.
 3. Formaður greindi frá væntanlegum fundi norrænna stjórnarmanna í Færeyjum og bréf varðandi hann. Þar hefur dagsetningu verið hnikað til. Stjórnarmenn töldu það ekki verða til vandræða.
 4. Nokkuð var rætt um ferðir næsta sumar. Nauðsynlegt er að ákveða þær strax upp úr áramótum. Hugmyndir kviknuðu um ferð annað hvort til Skotlands eða Póllands. Jafnframt var rætt um ferð eða ferðir innanlands. Þar var nefnd ferð um Snæfellsnes og ef til vill bátsferð um Breiðafjörð. Einnig var rædd ferð um Þingeyjarsýslur.
 5. Svolitlar umræður urðu um norrænt mót á Íslandi 2021. Það þarf að fara að undirbúa og gróf áætlun þyrfti að liggja fyrir í vetrarlok svo unnt verði að bóka hótel og aðra aðstöðu. Tveir staðir voru nefndir, Suðurnes og nágrenni Akureyrar. Mönnum leist betur á Suðurnes.
 6. Önnur mál: Ræddar breytingar á starfsáætlun. Svo virðist sem ástæða væri til að fjölga Grandfundum í ljósi þess að aðsókn hefur verið dræm t.d. í spilafundi. Huga þarf að breytingum og senda út í byrjun næsta árs.

Næsti fundur boðaður 11. desember.

Fundi slitið

Þriðjudagur, 20 Nóvember 2018 22:42

Gönguhópurinn

Hér eru gönguhrólfarnir eftir gönguna 19. nóv.. Þrír höfðu reyndar yfirgefið hópinn áður en náðist að taka  mynd.

Mynd: Marta Sigurðardóttir

Miðvikudagur, 14 Nóvember 2018 10:54

Metþátttaka í góðu veðri

Fjórtán mættu í fína göngu út Kársnesið í blíðu og stilltu veðri s. l. mánudag. Svo kaffi í Bakarameistaranum upp úr hálfþrjú.

Mætum næsta mánudag við Perluna kl. hálftvö og kaffi í Bakarameistaranum rúmlega hálfþrjú.

Myndir: Pétur Bjarnason

Sunnudagur, 04 Nóvember 2018 02:32

403. stjórnarfundur

Fundargerð
403. stjórnarfundur FKE haldinn 15.10.2018 í Kennarahúsinu kl. 10:00. 

Mætt voru; Pétur, Kristján, Halldór, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Marta. Guðmundur var forfallaður.

Pétur setti fund.

 1. Helsta umræðuefni fundarins er hvernig félagsstarfið fer af stað á þessu hausti. Vikulegar gönguferðir eru komnar af stað, gengið í rúman klukkutíma. Hópurinn er ekki stór en fer vonandi stækkandi. Búið er að spila félagsvist einu sinni og ekki var jafn fjölmennt og á Grand-fundunum en fólk er ekki búið að átta sig alveg á hvar þetta fer fram. Salurinn góður og konan sem sér um kaffið frábær, en borðin eru kannski svolítið of stór. Bridds verður í fyrsta sinn á miðvikudaginn og verður spennandi hvernig það verður. Þetta heldur allt áfram til áramóta og þá metum við hvernig til hefur tekist. Stjórnarmenn skiptast á að mæta og sjá um verðlaun.
  Bókmenntaklúbburinn hefur hafið starfsemi sína á fimmtudögum og heldur henni áfram í október og nóvember.
  Þann 6. október var skemmtilegur hátíðarfundur á Grand-hóteli þar sem vel var mætt (hátt í 50 manns). Sagt var frá sumarferðunum og sýndar myndir, Guðmundur Kristmundsson flutti skemmtilegt erindi sem fjallaði um uppvöxt hans, og kökuborðið var að venju glæsilegt. Fólk var hið ánægðasta.
 2. Ekkókórinn hefur sótt um aukinn styrk enda hefur hann ekki fengið hækkun í mörg ár. Samþykkt var að þeir fái 50.000 til viðbótar eða 450.000.
 3. Næsti fundur verður þann 15.11. kl. 11. Farið verður í heimsókn í Þjóðminjasafnið eftir hádegi þann dag.

Önnur mál voru engin.
Fundi slitið kl. 11.15.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Sunnudagur, 04 Nóvember 2018 02:25

402. stjórnarfundur

Fundargerð
402 stjórnarfundur 10. september 2018 haldinn í Kennarahúsinu

Viðstaddir: Pétur, Guðrún, Halldór, Kristján, Marta, Guðmundur. Sigurlín boðaði forföll.

Formaður setti fund kl. 14.00

Einkum var rætt um útkomu næsta fréttabréfs og þá liði á dagskrá vetrarins sem þar þyrftu að eiga rúm.

Halldór greindi frá því að Kristín Ísfeld væri reiðubúin að sjá um bridgehóp.

Pétur greindi frá stöðu mála varðandi Danmerkurferð í sumar og þeim agnúum sem þar urðu á. Hann sagðist halda málinu vakandi og hafa frekara samband við ferðaskrifstofu.

Halldór gerði grein fyrir stöðu á næsta fréttabréfi og lagði fram nokkuð fullbúin drög. Fundarmenn lásu yfir. Nokkuð var rætt um beiðni um „lestrarvini“ úr röðum félagsmanna og áðurkomna beiðni Rauðakross Íslands um svipað efni. Ákveðið var að geta þessa í fréttabréfinu.

Guðmundur greindi frá samskiptum við Þjóðminjasafn vegna kynningar 15. nóvember. Honum var falið að ganga frá málinu. Ákveðið var að hver þátttakandi greiddi 1000 kr., þ.e. helming af kostnaði einstaklings.

Nokkrar umræður urðu um fyrsta fund vetrarins á Grandhóteli hinn 6. október. Formaður sagðist verða fjarverandi og bað fundarmenn að stýra fundinum. Samþykkt var eftirfarandi dagskrá:

 1. Vetrarstarf kynnt.
 2. Frásögn af ferðum sumarsins.
 3. Stutt erindi Guðmundar sem hann kallar Litið til baka
 4. Kaffi og spjall.

Gjaldkeri lagði fram stöðuyfirlit frá áramótum til september 2018 og er fjárhagur allgóður eða um 2.2 millj.

Næsti fundur ákveðinn mánudaginn 8. október kl. 10:00

Fundi slitið kl. 15.20

Guðmundur ritaði fundargerð

Page 8 of 14