Myndbönd

Innskráning

Nýskráning

Administrator

Sunnudagur, 04 Nóvember 2018 02:18

401. stjórnarfundur

Fundargerð
401. stjórnarfundur FKE 6. sept 2018 í Austra

Fundur settur kl. 10.00
Viðstaddir: Pétur, Sigurlín, Guðrún, Halldór, Kristján, Marta, Guðmundur

  1. Ferðir sumarsins: Pétur gerði grein fyrir ferðum sumarsins. Finnlandsferð norrænna stjórnarmanna tókst vel í hvívetna. Þórsmerkurferð tókst einnig mjög vel. Pétur gerði grein fyrir Danmerkurferð og þakkaði Sigurlín fyrir gott og mikið starf við að skipuleggja hana. Ferðin tókst vel að flestu leyti. Einhver vandræði urðu vegna hótels. Pétur kom á framfæri kvörtun við GJ-travel.og las bréf sem fóru á milli hans og ferðaskrifstofunnar.
  2. Vetrarstarfið framundan: Þrír fundir ákveðnir á Grand. Á fyrsta fundi þarf að ræða vetrarstarfið og segja frá ferðum sumarsins. 
  3. Spiladagar í Jötunheimum, tveir í mánuði, annar í bridds og hinn vist. Spilamennska hefst kl. 13.30 og stendur til 16.00. Ákveðið að biðja Kristínu Ísfeld um að taka þennan þátt að sér. Halldór tók að sér að ræða við hana.– Pétur bauðst til að stýra félagsvist.
  4. Annað starf í vetur, með könnunina í huga: Bókmenntahópur hefur starfað lengi og áhugi virðist fyrir hendi. Sigurlín benti á góðan bókmenntahóp á vegum U3A, ef okkar hópur yrði of fámennur. Benda mætti á ýmislegt sem er í gangi, t.d. á bókasöfnum og víðar. Lagt til að kanna annað fyrir næsta fund, svo sem sundleikfimi, qi gong og fleira. Athuga mætti leikhúsferð t.d í nóvember. Tillaga um heimsókn á þjóðminjasafn, þar mætti jafnvel hafa fullveldið í huga. Guðmundi var falið að hafa samband við safnið og fá leiðsögn seinni hluta nóvember. Hugmyndir ræddar um gönguhóp og ákveðið að gera tilraun með hann. Hefja göngu í Öskjuhlíð og mæta við Perluna kl. 13.30 á mánudegi. Margar hugmyndir komu fram. Pétur er til í að hafa nokkra umsjón en stjórnarmenn taki þátt eins og þurfa þykir. Æskilegt er að hópurinn verði sjálfstæður þannig að þátttakendur leiði göngur.
  5. Fréttabréf haustsins: Kynning á vetrarstarfinu, m.a. skemmti- og fræðslufundum á Grand og spilafundum. Fyrstu fundir í Jötunheimum, skátaheimilinu í Garðabæ, verða 3. okt. og 17. okt. Rætt var um óskir til kennara á eftirlaunum um að taka að sér að lesa fyrir og með börnum, einkum börnum með annað mál en íslensku. Lagt til að þetta verði auglýst í blaði félagsins.
  6. Önnur mál: Formaður lagði fram fána sem félaginu barst frá Kennarasambandinu vegna fyrsta norræna mótsins hér á landi.

Næsti fundur boðaður mánudag 10. sept. kl. 14.00
Fundi slitið kl. 11.45
Guðmundur B. Kristmundsson skráði fundargerð

Sunnudagur, 04 Nóvember 2018 01:50

400. Stjórnarfundur

Fundargerð
400. stjórnarfundur FKE haldinn 28.5.2018 í Kennarahúsinu kl. 13:00.

Mætt voru; Pétur, Kristján,Halldór, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Marta. Guðmundur var forfallaður.

Pétur setti fund.

Það sem mest liggur á er lokafrágangur sumarferðanna. Ekki verður aftur haldinn fundur um þær en við munum skiptast á tölvupóstum þegar nær dregur. Sumarferðir okkar hafa verið niðurgreiddar eins og önnur dagsskrá hjá félaginu, þannig njóta félagsmenn styrksins sem fæst til starfseminnar.
Þórsmerkurferð 18. júlí.
Fullbókað er í þessa dagsferð enda er hún glæsileg og á lágu verði. Fengist hefur betra tilboð í rútur hjá GJ ferðir og búið er að staðfesta eina 49 manna og aðra 16 manna. Þeir sem ætla með af stjórnarmönnum eru Halldór, Guðmundur +1, Pétur +1, Kristján +1, Sigurlín +1, Guðrún og etv. Marta. Fólkið þarf að mæta við Olísstöðina í Norðlingaholti kl. 8.45 þar sem við getum ekki lengur farið frá Umferðamiðstöð. Sigurlín sér um samlokur í nesti og kaffi í hitabrúsum. Hún kemur í bílinn á Hvolsvelli. Einnig er hún búin að panta fyrir hópinn í Eldgosa-setrinu á Hvolsvelli og í mat á Hótel Rangá um kvöldið.
Jótlandsferð 27.-31. ágúst.
Enn eru laus sæti í þessa ferð og ljóst að ekki verða 40 eins og lagt var af stað með heldur nær 30. Þeir af stjórninni sem ætla með eru Kristján +1, Guðrún og Sigurlín (samið var um tvo frímiða). Þörf er á að senda út ítrekunarbréf og biðja fólk að ákveða sig sem fyrst en skráningu lýkur 10. júní og þá verður miðunum ráðstafað annað. Nú hefur ferðaskrifstofan ákveðið verðið kr. 159.200 sem dekkar allt nema tvo hádegisverði. Því var rætt að rétt væri að þeir félagsmenn sem fara í þessa ferð fái að njóta niðurgreiðslu af styrk félagsins eins og allir aðrir og að FKE bjóði í einn hádegisverð. Var það samþykkt.
Finnlandsferð 11.-15. 6. 2018.
Allt er undirbúið undir ferð til Hanaholmen í Finnlandi á ”Lærerpensionisttref”, búið að velja söngtexta og hvaðeina. Stjórnarmenn hittast í Leifsstöð.

Eftir þessar skemmtilegu ferðir í sumar tekur við að skipuleggja betur félagsstarfið í vetur. Pétur tekur að sér að tala betur við þá sem hafa með salinn í Garðabæ að gera svo það sé allt tryggt þegar við förum að vinna áfram með vetrardagsskrána í ágúst.
Önnur mál voru engin. Næsti fundur verður í ágúst.
Fundi slitið kl. 14.45.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Sunnudagur, 04 Nóvember 2018 00:42

Nóvember 2018

Við minnum á að gönguhópurinn hittist við Perluna á mánudögum kl. 13:00. Gengið er í u. þ. b. 1 klst. um nágrenni Perlunnar og kaffi að göngu lokinni fyrir þá sem vilja.

Þá verður félagsvist miðvikudaginn 7. nóvember í Jötunheimum í Garðabæ kl. 13:00 og bridds á sama stað miðvikudaginn 21. nóvember kl. 13:00.

Ekkókórinn æfir í HÍ við Stakkahlíð (Kennaraháskólanum) á þriðjudögum kl. 16:30 til 18:30. Nýir félagar eru alltaf velkomnir. Skráning hjá Guðrúnu Erlu Björgvinsdóttur, formanni í síma 862-8005 eða mæta á æfingu.

Bókmenntaklúbburinn fundar í KÍ-húsinu á fimmtudögum kl. 13:30, 15. og 29. nóv.

 Einnig viljum við ítreka að Þjóðminjasafnið við Suðurgötu verður heimsótt  fimmtudaginn 15. nóvember  kl. 14:00. Þátttöku þarf að tilkynna í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..

 Sjá nánari upplýsingar í september fréttabréfi FKE.

Laugardagur, 27 Október 2018 13:25

Bridds

Fyrsti bridds spiladagur var 17. október s.l. 10  mættu og átta spiluðu  á 2 borðum í Jötunheimum.

Von er á fleirum næst.

Sunnudagur, 07 Október 2018 18:22

Grandfundur 6. október 2018

Fyrsti félagsfundur FKE þetta starfsár var haldinn á Grand Hóteli 06.október 2018.
45 félagsmenn sátu fundinn.

Dagskrá:
1.Guðrún Samúelsdóttir kynnti vetrarstarf félagsins
2.Marta Sigurðardóttir sagði frá ferðum á vegum félagsins sumarið 2018
3.Guðmundur Kristmundsson flutti erindið “Litið til baka”.
4.Kaffi og Kökuhlaðborð

Fleiri myndir

Sunnudagur, 07 Október 2018 18:04

Grandfundur 6. október 2018

Fyrsti félagsfundur FKE þetta starfsár var haldinn á Grand Hóteli 06.október 2018.
45 félagsmenn sátu fundinn.

Dagskrá:
1.Guðrún Samúelsdóttir kynnti vetrarstarf félagsins
2.Marta Sigurðardóttir sagði frá ferðum á vegum félagsins sumarið 2018
3.Guðmundur Kristmundsson flutti erindið “Litið til baka”.
4.Kaffi og Kökuhlaðborð

Fleiri myndir

Laugardagur, 06 Október 2018 10:48

Gönguferðir

Fyrsta ganga var mánudaginn 1. okt. kl. 13:30. Ákveðið hefur verið að ganga einu sinni í viku, ca. klukkutíma í senn og stefna áað hittast í kaffi á eftir.
Fram að áramótum munum við hittast við Perluna í Öskjuhlíð á mánudögum og ganga þaðan kl. 13:30.
Reiknað er með að þátttakendur séu þokkalega göngufærir og vel útbúnir. Gangan mun þó ekki teljast erfið.
Kostnaður er enginn en ef keypt verður kaffi greiðir hver fyrir sig og það er valfrjálst.

Laugardagur, 06 Október 2018 10:35

Félagsvist og bridds í vetur

Við höfum leigt sal á annarri hæð í skátaheimilinu Vífilsfelli (Jötunheimar)
í Garðabæ. Húsið er við Bæjarbraut. Frá Hafnarfjarðarvegi er ekið fram hjá
Flataskóla og beygt til vinstri inn Bæjarbraut. Heimilið er um 300 metra frá
beygjunni. Þar eru næg bílastæði og lyfta í húsinu. Þar verður spiluð félagsvist
fyrsta miðvikudag í mánuði og hefst kl. 13:00, bridds þriðja miðvikudag í
mánuði á sama tíma, sjá töflu hér að neðan. Þátttökugjald er kr. 1.000 og kaffi
innifalið.
Félagsvistin verður 3. okt., 7. nóv. og 6. desember. (Ath. Spilað á fimmtudegi í
desember).
Bridds verður spilað 17. okt., 21. nóv. og 19. desember.
Eftir áramót er stefnt á að spila þessa daga: 9. og 23. janúar, 6. og 20. febrúar,
6. og 20. mars og 3. og 17. apríl.

 

Laugardagur, 06 Október 2018 10:21

Vetrarstarfið hafið

Félags- og fræðslufundur verður á Grand Hótel 6. október kl. 13:30.
Þar verður dagskrá vetrarins kynnt, sagt og sýnt frá ferðum sumarsins og Guðmundur Kristmundsson flytur erindi, “Litið til baka”.
Ekki verður spiluð félagsvist en veitingar að hætti Grand og aðgangseyrir kr. 2.000 eins og í fyrra. Veitingar eru niðurgreiddar eins og verið hefur.
Þá verður hátíðarfundur 2. febrúar 2019 og svo aðalfundur 6. apríl. Nánar verður sagt frá þeim í janúarfréttabréfi.

Fimmtudagur, 04 Október 2018 18:48

Bókmenntaklúbburinn

Bókmenntaklúbburinn hóf störf 4. október undir stjórn þeirra Grétu og Unnar. Þrettán mættu og báru saman bækur sínar ef svo mætti segja. Byrjunin lofar góðu um framhaldið.

Page 9 of 14