Myndbönd

Innskráning

Nýskráning

Administrator

Fimmtudagur, 04 Október 2018 11:44

Mjór er mikils vísir

Félagsvistin hófst í dag í Jötunheimum í Garðabæ kl. 13:00.

Færri mættu en komust að og var spilað á tveimur borðum sem var skemmtilegt, því þegar skipt var mættust þeir sem fóru  á hærra númer og hinir sem fóru á lægra númer á hinu borðinu. Allir skemmtu sér vel og við fengum ljúffengar vöfflur með rjóma á eftir.

Við búumst við mun fleirum næst.

Miðvikudaginn 17. október, kl. 13:30 verður bridds á sama stað.

Fimmtudagur, 26 Apríl 2018 15:37

399. stjórnarfundur

Fundargerð
399. stjórnarfundur FKE haldinn 23.4.2018 í Kennarahúsinu kl. 13:00.

Mætt voru; Pétur, Kristján, Guðrún Ólafía, Guðmundur, Sigurlín og Marta. Halldór var erlendis.

Pétur setti fund og afsakaði seinkun frá boðuðum fundartíma.

Nýskipuð stjórn skipti með sér verkum. Pétur er áfram formaður til eins árs, Guðrún Ólafía varaformaður til eins árs, Kristján gjaldkeri til eins árs og Sigurlín ritari kosin til tveggja ára. Aðrir eru meðstjórnendur.
Guðmundur sagði frá KÍ-þingi sem hann og Guðrún Lára sátu. Það var áhugavert og fróðlegt einkum pallborð sem hann lét vel af sem Jón Torfi stjórnaði prýðilega. Þegar kom að nefndarstörfum fór Guðrún í orlofshóp en hann í skólamálahóp. Guðrún kom okkar sjónarmiðum að í sínum hópi. Margar ályktanir voru sendar út að loknu nefndarstarfinu. Það var ánægjulegt hversu margir sýndu félaginu áhuga og spurðu um margt.

Fréttabréf þarf ekki að koma út fyrr en í byrjun maí. Halldór kemur til landsins á morgun. Pétur klárar ásamt Halldóri að ganga frá því sem eftir er. Fram þarf að koma varðandi sumarferðirnar hvenær á að vera búið að skrá sig og hvar og helst að greiða sem fyrst. Nokkuð var rætt um þetta en það þarf að leita upplýsinga s.s hjá GJ ferðum.

Rætt var um Skemmti- og fræðslufundina. Pétur stingur upp á að ekki verði alveg hætt við Grand-fundina þótt þeir séu dýrir, en við höldum okkur við þrjá fundi: 6. október upplýsingar um vetrarstarfið, 2. febrúar hátíðarfund og 6. apríl aðalfund. Var vel tekið í þessa tillögu og fer Guðrún með þau skilaboð til samninga við Grand hótel. Síðan verði kynnt í haust önnur starfsemi félagsins í fréttabréfi og á fundi.
Önnur mál voru engin.

Næsti fundur verður mánudaginn 28. maí kl 13.
Fundi slitið kl. 14.35.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 20:13

393. stjórnarfundur

Fundargerð 
393. stjórnarfundur FKE haldinn 11.12.2017 í Kennarahúsinu kl. 11:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Kristján, Guðrún Ólafía, Guðrún Lára og Guðmundur.

Sigurlín var erlendis.
Pétur setti fund í seinna lagi.
Kristján greindi frá því að niðurgreiðslur vegna þriggja skemmtifunda næmi rúmlega þrjú hundruð þúsund krónum, en þar vegur þungt góð mæting á desemberfund. Menn voru sammála um að þeta væri of mikið.
Hækkun gjalds um áramót mun slá á þennan kostnað.
Formaður bað Kristján gjaldkera að afla upplýsinga úr ársreikningum eða frá fyrri gjaldkera um það hvenær framlag Kennarasambandsins til FKE hækkaði síðast með það að markmiði að sækja um hækkun sem fyrst.
Rætt um möguleika á að færa sig um set með skemmtifundina eða þþa starfsemi sem verður ákveðin næsta haust og Borgir, félagsheimili Korpúlfa koma sterklega inn í myndina. Pétur mun kanna það. Þá var Guðrúnu Ólafíu ásamt Pétri falið að kanna verð á veitingum fyrir hátíðafund í mars. Aðgangseyrir á hann verður kr. 3.500.
Farið var yfir fréttabréf í janúar 2017 og fastir liðir yfirfærðir á næsta fréttbréf skv. venju. Texti þeirra verður styttur og þar skapast pláss fyrir aðrar fréttir.
Sumarferðirnar verða kynntar þannig að það verður væntanlega komin dagsetning á Þórsmerkurferðina fyrir prentun um miðjan janúar, en síðan verður sagt frá athugun stjórnar á mögulegri utanlandsferð næsta haust.
Aðgangseyrir skemmtifunda verður kr. 2.500 eftir áramót. Það verður kynnt og ástæður útskýrðar.
Greint verður frá könnuninni um starf FKE sem fer af stað eftir áramótin.
Halldór og Pétur verða í sambandi um texta á síðu 3 og e.t.v. 4 varðandi framangreint o.fl.
Ákveðið að Guðrún Lára verður með dagskrá á janúarfundinum og segi frá ferðalagi sínu í Austurlöndum en Pétur í febrúar, þar sem Kyndilmessa og sólargangur vítt um land verði tekið fyrir. Ekki ákveðið enn hver verður dagskrá hátíðafundarins en þar verði gjarnan tónlistaratriði og skemmtiatriði. Í apríl, sem verði jafnframt síðasti fundur vetrarins verði aðalfundarstörf og e.t.v. eitthvað fleira.
Fundi slitið um kl. 12.05.
Næsti fundur var ákveðinn 22. janúar 2018 kl. 11 í Kennarahúsinu, Austra.

Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 20:11

392. stjórnarfundur

Fundargerð 
392. stjórnarfundur FKE haldinn 15.11.2017 í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Kristján, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur.

Guðrún Lára var erlendis.

Pétur setti fund.

Rætt var um skemmtifund 2. desember. Þar mun EKKÓ-kórinn syngja en einnig er formaður að vinna í því að fá bókakynningu. Var rætt um hvaða höfundar væru áhugaverðastir. Vilborg Davíðsdóttir mun ekki koma núna heldur í febrúar og fjallar þá nánar um þann sagnaheim sem hún hefur kannað svo vel. Pétur vinnur áfram að málinu.
Sumarferðir 2018. Dagsferðin var ákveðin í Þórsmörk um miðjan júlí, skoða Eldfjallasetrið á Hvolsvelli og borða kvöldmat þar á svæðinu.
Verið er að kanna verð og möguleika á 5 daga ferð til Danmerkur í lok ágúst. Sigurlín er búin að vinna nokkra undirbúningsvinnu og hefur leitað upplýsinga hjá Vibeke Nörgaard Nielsen sem hún hefur skipulagt ferðir með í rúm tuttugu ár. Vibeke býr á Jótlandi og það er gott að hafa einhvern staðkunnugan. Ferðaskrifstofa Guðmundar Jónassonar er tilbúin að sjá um allar bókanir á flugmiðum, gistingu og útvega rútu. Pétur og Sigurlín munu mæta á fund hjá ferðaskrifstofunni eftir nokkra daga. Eftir umræður var samþykkt að halda áfram með þessa vinnu.
Lagður var fyrir listi með spurningum fyrir tölvu-könnun til að heyra hvaða nýbreytni félagsmenn kynnu að vilja í starfið. Farið var yfir hann og orð á haft að hann væri góður. Halldór vinnur þetta áfram.
Rætt var um fréttabréf fyrir janúar 2018. Efnið verður unnið og verður að vera tilbúið á næsta fundi (í desember). Þar þarf að segja frá sumarferðunum, það verður að hækka verðið á kaffinu á Grand hóteli í kr. 2.500 og útskýra hvers vegna og síðan segja frá könnuninni.
Engin önnur mál.

Formaður sleit fundi kl. 11.15.

Næsti fundur var ákveðinn 11. desember kl. 11 í Kennarahúsinu.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 20:09

391. stjórnarfundur

Fundargerð 
391. stjórnarfundur FKE haldinn 16.10.2017 í Kennarahúsinu kl. 14:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur.

Kristján var forfallaður.

Pétur setti fund.
Halldór biður um að fá meira efni til að setja inn á netið. Rætt var um að skrifa stutta frásögn af skemmti- og fræðslufundunum. Ritari mun sjá um það.
Laugardaginn 4.11. verða kynnt verk frá leikhúsunum, eitt frá hvoru; Þjóðleikhúsinu og Borgarleikhúsinu. Formaður hefur verið í sambandi við þau og þetta mun skýrast nánar þegar nær dregur.
Laugardaginn 2.12. verður bókakynning og er formaður einnig að vinna að því. Bókatíðindi verða þá líka komin út. Nefnd var Kristín Steins. sem möguleiki.
Huga þarf að ferðum næsta sumars. Dagsferð gæti verið í Þórsmörk um miðjan júlí, skoða Eldfjallasetrið í Hvolsvelli og borða þar á svæðinu.
Lengri ferðin til Danmerkur í lok ágúst. Sigurlín vinnur áfram að því að kanna möguleika á þessum ferðum og kemur með tillögur á næsta fund.
Rætt var um að gera tölvu-könnun til að heyra hvaða nýbreytni félagsmenn kynnu að vilja í starfið.
Engin önnur mál.

Formaður sleit fundi kl. 15.15.

Næsti fundur var ákveðinn 15. nóvember kl. 10 í vestra í Kennarahúsinu.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 20:06

390. stjórnarfundur

Fundargerð 
390. stjórnarfundur FKE haldinn 14.09.2017 í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Kristján, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur.

Fyrir fundinn var tekið rækilega til í skápum félagsins og ýmsu hent.

Pétur setti fund.
Halldór sýndi síðan á skjá fréttabréfið sem á að fara að senda út. Engar athugasemdir voru gerðar og allir ánægðir.
Beiðni hafði borist frá ekkju félagsmanns um hvort hún gæti haldið áfram í félaginu þótt hún hafi ekki verið kennari. Það var samþykkt.
Kristján fór yfir innkomu og kostnað vegna sumarferða 2017. Þær hafa staðið undir sér.
Þá var ákveðið verð fyrir skemmti- og fræðslufundina í vetur. Ákveðið var að það verði óbreytt til áramóta þrátt fyrir aukinn kostnað, kr. 2000 á mann.
Halldór þarf laun fyrir mikla vinnu við vefinn. Ákveðið var að hann fái kr. 25.000 á mánuði frá 1. september að telja. Síðan verður að skoða betur um eingreiðslu vegna yfirfærslunnar. Greiðslur til Gísla falla niður frá sama tíma.

Fundur 30. september; sagt verður frá og sýndar myndir úr sumarferðunum. Kristján segir frá Reykjanesferðinni en Ólafur Rúnar Þorvaldsson frá Grindavík var fararstjóri. Varðandi Siglufjarðarferðina setur Halldór upp myndir en Pétur segir frá.
Eftir er að ákveða hvað verður á dagskrá á fundum okkar í nóvember og desember. Verður það gert á næsta fundi.
Sigurlín verður tengiliður vegna norræna samstarfsins.

Önnur mál; Huga þarf að ferðum næsta sumars. Dagsferð gæti t.d. verið í Þórsmörk, Lengri ferðin etv. til Danmerkur. Sigurlín vinnur áfram að því.

Næsti fundur var ákveðinn 16. október kl. 14. í Kennarahúsinu.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 11:15.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 20:03

389. stjórnarfundur

Fundargerð 
389. stjórnarfundur FKE haldinn 04.09.2017 í Kennarahúsinu kl. 10:00.

Mætt voru; Pétur, Halldór, Guðrún Lára, Guðrún Ólafía, Sigurlín og Guðmundur sem kom nokkru seinna. Kristján var forfallaður.

Pétur setti fund og þakkaði fyrir sumarferðirnar sem báðar tókust afar vel.

Halldór sýndi á skjá nýja vefinn sem hann er búinn að vinna mikið í. Fréttabréfin eru m.a. kominn inn og margt annað frá gamla vefnum. Hann mun vinna áfram með þetta. Fundarmenn lýstu ánægju sinni og þökkuðu honum frábæra vinnu.

Nú liggur á að koma næsta fréttabréfi út og var rætt um hvaða fréttum væri mikilvægt að koma að. Þótt fréttabréfið sé að mestu hefðbundið til að kynna vetrarstarf félagsins þarf að koma fyrir texta um nýtt samstarfsverkefni. Þar er um að ræða verkefni á vegum Rauða krossins í Reykjavík sem heitir Heilahristingur og snýr að heimanámsaðstoð fyrir börn. Verkefnið er unnið í samstarfi við Borgarbókasafnið sem lánar aðstöðu sína, en það vantar sjálfboðaliða. Stjórn FKE er jákvæð fyrir þessu verkefni og vill kynna það fyrir sínum félagsmönnum. Halldór mun koma texta inn í fréttablaðið.

Fræðslu- og skemmtifundirnir á Grand Hóteli munu halda áfram og verða einu sinni í mánuði, nema októberfundurinn færist í lok september: 30. sept., 4. nóv., 2. des., 6. jan., 3. feb., 3. mars, 7. apríl og 5. maí kl. 13-14.30. Pétur mun stjórna þeim sem formaður og Guðrún Ólafía mun sjá um spilaverðlaunin með aðstoð Guðmundar. Ekki liggur endanleg ákvörðun fyrir um verð á veislukaffinu til félagsmanna, enda gjaldkeri fjarverandi. Á haustmisseri mun stjórnin sjá um fræðsluþáttinn, nánar síðar.
Bókmenntaklúbburinn mun starfa á fimmtudögum í Kennarahúsinu í Austra. Eru það Unnur og Gréta Kaldalóns sem sjá um hann. Það verður: 5. og 19.okt., 2., 16. og 30. nóv., 11. og 25. jan., 8. og 22. feb., 8. og 22. mars, 5. og 26, apríl.

Ekkó-kórinn mun starfa eins og áður undir stjórn Bjarts Loga Guðjónssonar. Guðrún Erla er formaður stjórnar kórsins..

Örstutt var rætt um ferðir næsta sumars. Það er orðið mjög dýrt að ferðast um Ísland og gista á hótelum. Sigurlín var falið að athuga með ferð til Danmerkur, t.d. flug til Billund og ferðast um Jótland og Fjón. Skotland var einnig nefnt sem möguleiki í sumarferð.
Ákveðið var að næsti stjórnarfundur verði þann 14.9. nk. kl. 10.00.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 11:45.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 19:59

388. stjórnarfundur

Fundargerð 
388. stjórnarfundur FKE haldinn 27.05.2017 í Kennarahúsinu kl. 16:00.

Mættir voru allir stjórnarmenn.

Rætt var um spila- og skemmtifundina á Grand Hóteli. Guðrún Ólafía hefur kannað málið og leitað samninga. Þeir bjóða kaffihlaðborðið á kr. 3.500. Í kaffihlaðborðinu er eftirfarandi; marensterta, flatkökur með hangikjöti, brauðterta með rækjum og skinku, nýsteiktar kleinur, döðlugott, blandaðir ferskir ávextir og saltkaramellu, rice krispies rjómabomba.
Þetta verður einu sinni í mánuði, nema októberfundurinn færist í lok september. 29. sept., 4. nóv., 2. des., 6. jan., 3. feb., 3. mars, 7. apríl og 5., maí. kl. 13-14.30.

Þá var enn rætt um sumarferðirnar, en lagt verður af stað í báðar ferðir klukkan 9:00 frá BSÍ. Kominn er fararstjóri í Reykjanesferðina, hún mun kosta kr. 12.000 á mann en Siglufjarðarferðin kr. 90.000 miðað við tveggja manna herbergi og kr. 130.000 í eins manns herbergi. Pétur og Sigurlín munu skipta með sér leiðsögn í þeirri ferð og Guðmundur taka á móti hópnum á staðnum og síðan leiðsegja um nágrennið. Skráning í báðar ferðirnar fer fram í gegnum síma KÍ. Stjórnarmenn skipta með sér verkum um skráningu dagana 1. -11. júni, frá kl. 13.-16. Þar munu tveir í senn taka við skráningu. Allt er frágengið varðandi sumarferðirnar.

Rætt var um bókmenntaklúbbinn og verður kynnt í haustblaðinu um starfsemi hans.

Allt er klárt fyrir Svíþjóðarferð og allir komnir með farseðla.

Ákveðið var að næsti stjórnarfundur verði eftir sumarferðirnar.

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 18:00.

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 19:53

387. stjórnarfundur

Fundargerð 
387. stjórnarfundur FKE haldinn 10.05.2017 að Geitlandi 8 kl. 16:00.

Mættir voru allir stjórnarmenn auk Þóru A. Guðmundsdóttur, fráfarandi formanni.

Stjórnin skipti með sér verkum:
Pétur Bjarnason, formaður, kosinn á aðalfundi.
Guðrún Lára Ásgeirsdóttir, varaformaður.
Kristján Sigfússon, gjaldkeri.
Sigurlín Sveinbjarnardóttir, ritari og umsjón með norrænum samskiptum (þó ekki fund í Svíþjóð í júni nk. þar sem það var allt skipulagt sl. haust).
Halldór Þórðarson, hefur vefumsjón, sér um félagatal og fréttabréf.
Stjórnarmenn og varamenn hafa ætíð verið jafngildir í störfum.

Halldór hefur nú fengið lénið www.fke.is og er sá vefur í vinnslu. Lénið kostar kr. 5.980. á ári. Fréttabréfið er einnig í vinnslu og var rætt um það. Formaður tók að sér að skrifa um aðalfundinn og eins þarf að finna myndir þaðan. Síðan þarf að fá límmiða hjá KÍ (Fjólu) til að senda þeim sem ekki hafa gefið upp netföng.

Þá var rætt nánar um sumarferðirnar en lagt verður af stað í báðar ferðir klukkan 9:00 frá BSÍ. Kominn er fararstjóri í Reykjanesferðina, en hún mun kosta kr. 12.000 á mann en Siglufjarðarferðin kr. 90.000 miðað við tveggja manna herbergi og kr. 130.000 í eins manns herbergi. Pétur, Guðrún Lára og Sigurlín munu skipta með sér leiðsögn í þeirri ferð og Guðmundur taka á móti hópnum á staðnum. Skráning í báðar ferðirnar fer fram í gegnum síma KÍ frá 1. til 15. júní (kynnt í fréttabréfinu).

Rætt var um skemmtifundina sem verið hafa á Grand hóteli á laugardögum. Ákveðið var að kanna nánar verð á veitingunum. Pétur og Guðrún Ólafía gera það.

Ákveðið var að stefna að næsta stjórnarfundi 22. maí, kl. 13:00 í Kennarahúsinu.
Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 18:15

Sigurlín Sveinbjarnardóttir skrifaði fundargerð.

Þriðjudagur, 10 Apríl 2018 19:45

Fundargerð aðalfundar FKE 2017

Fundargerð aðalfundar FKE 2017
Aðalfundur Félags kennara á eftirlaunum var haldinn á Grand Hótel í Reykjavík að lokinni dagskrá á hefðbundnum skemmtifundi félagsins.

Aðalfundinn sátu um 35 manns.
Formaður, Þóra Guðmundsdóttir setti aðalfundinn, bauð félaga velkomna og skipaði Emil Hjartarson fundarstjóra.
Síðan var gengið til dagskrár samkvæmt lögum félgsins.
Formaður flutti skýrslu stjórnar þar sem farið var yfir starfsemi ársins. Hér verður ekki rakið efni skýrslunnar, þar sem þessi aðalfundargerð berst eingöngu stjórnarmönnum í hendur og fundargerðir stjórnar á árinu lýsa starfi stjórnarinnar að miklu leyti.
Þá lagði gjaldkeri, Kristján Sigfússon, fram reikninga félagsins fyrir árið 2016, fór yfir þá og skýrði einstaka liði. Tekjur og útgjöld stóðust nánast á og sagði Kristján að það ætti í raun að vera markmið félagsins að þeir peningar sem það hefði undir höndum rynnu til félagsmanna. Það er í raun gert með því að greiða verulega niður verð á skemmtifundum og ferðalögum en einnig fá Ekkókórinn og bókaklúburinn fjárframlag frá félaginu. Félagið á í varasjóði sínum um átta milljónir króna, sem er talið tryggja stöðu þess nægjanlega. Reikningarnir voru samþykktir samhljóða.
Þá var lögð fram tillaga stjórnar að lagabreytingu sem kynnt hafði verið með fundarboði. Breytingin varðar 4. grein félagslaganna og er sú, að í stað „Aðalfundur skal haldinn árlega í maí …“ komi: „Aðalfundur skal haldinn árlega í apríl …“ Lagabreytingin var samþykkt samhljóða. Fyrirspurn kom úr sal hvort þessi breyting þýddi að maífundir yrðu aflagðir, en formaður, sem kynnti lagabreytingartillöguna, svaraði því til að skipting funda á mánuði væri annað mál, óháð lögunum, en bundið ákvörðunum stjórnar hverju sinni.
Þá var lauslega kannað á fundinum vilji þeirra sem þar voru mættir til að fella niður maífundi, en áhugi virtist að halda því áfram, sem kom ekki á óvart í ljósi þess að eingöngu voru mættir til þessa fundar þeir sem mæta vilja í maí.
Þá var gengið til kosninga. Þóra formaður hættir störfum þar sem sex ára stjórnarsetu hennar lýkur nú í vor samkvæmt 6. gr. laga FKE. Fundarstjóri, sem er fyrrverandi formaður FKE, þakkaði Þóru samvinnu í stjórn félagsins og einstaklega farsæla formennsku, en hann sagðist hafa neytt hana til starfans er hann gekk úr stjórninni og aldrei hafa iðrast þess. Fundarmenn tóku undir orð fundarstjóra og þökkuðu Þóru fyrir með hressilegu lófataki.
Þóra ávarpaði fundinn og þakkaði stjórninni samstarfið og félagsmönnum sömuleiðis gott samstarf og skemmtilega viðkynningu á undanförnum árum. Hún myndi sjá eftir þessum störfum, sem hefðu veitt henni mikla gleði.
Pétur Bjarnason gaf kost á sér til formennsku í stjórn og þar sem ekki voru fleiri í kjöri var hann sjálfkjörinn formaður til eins árs.
Ekki þurfti að kjósa í aðalstjórn en eitt sæti laust í varastjórn. Tveir gáfu kost á sér til starfans, Hjálmar (Vantar föðurnafn) og Sigurlín Sveinbjarnardóttir. Var gengið til leynilegra kosninga og hlaut Sigurlín kosingu sem varamaður í stjórn til eins árs.
Skoðunarmenn reikninga voru endurkjörnir þeir Egill Sigurðsson og Þorvaldur Jónasson.
Enginn kvaddi sér hljóðs undir liðnum önnur mál.
Pétur Bjarnason nýkjörinn formaður ávarpaði fundinn, þakkaði traustið, stjórnarmönnum samstarf á undanförnum árum, en hann hefur setið í stjórn FKE í fjögur ár . Hann sagðist taka starfið að sér vegna öflugra stjórnarmanna, sem myndu vafalítið gera sér starfið léttbært.
Að svo búnu var aðalfundi formlega slitið og veitt verðlaun fyrir félagsvistina á skemmtifundinum.

Pétur Bjarnason skrifaði fundargerð.

Page 10 of 14