Ferðir

Innskráning

Nýskráning

FKE-ferðir

Ferðalýsing:

Kl. 08:30, lagt af stað frá Reykjavík. Farið frá bílastæðinu norðan við hús Menntavísindasviðs H.Í. við Stakkahlíð. Stefnan tekin á Grindavík. Ekin Krýsuvíkurleið meðfram Kleifarvatni, hugsanlega stoppað við hverasvæðið í Seltúni. Ekið inn á Suðurstrandarveg og til vesturs um Ögmundarhraun, kíkt á nýja hraunið og til Grindavíkur. Tekinn hringur um Þórkötlustaðanes/Hópsnes. Kíkt í gróðurhúsið hjá Orf líftækni, þar sem Björn Örvar ræður ríkjum. Kynning á einu merkasta nýsköpunarfyrirtæki landsins. 
Salthúsið, léttur hádegisverður í Grindavík.
Lagt af stað í átt að Reykjanesi. Mett og glöð tökum við stefnuna á Reykjanestá en á leið þangað kíkjum við á náttúrufyrirbrigðið Brimketil, lítum á hverasvæðið og kynnumst Auðlindagarðinum á Reykjanesi. Saga skipstranda og mannskaða sögð. Kynnt hin frábæra gönguleið - Gígaröðin. Nú er brunað í átt til Hafna sem eiga sér merka sögu allt frá landnámstíð. Stoppað hjá rústunum af stórbýlinu Kotvogi. Sagan af Jamestown, draugaskipinu sem rak á land. Við rennum framhjá Básendum, sem var verslunarstaður svæðisins allt þar til í Básendaflóðinu mikla árið 1799. Hvalsneskirkja heimsótt en henni þjónaði Hallgrímur Pétursson og bjó þar með Guðríði sinni. Reynir Sveinsson segir frá kirkjunni.
Eftir kirkjuheimsóknir rennum við í gegnum Sandgerði og áfram fram hjá merkum stöðum þar til við komum að Garðskagavita. Þar býður okkar þar kaffihressing en áður verður farið inn í vitann og sungið við einstök hljómgæði. Með kaffi og vöfflur að vopni rennum við um Ásbrú, gamla hersvæðið og fræðumst um uppbyggingarstarfið þar.
Kl.18:30. Marriott hótel, Þriggja rétta kvöldverður í nýja hótelinu í Reykjanesbæ.
Heimferð um kl. 20:30. Vonandi þreytt en glöð sem við ökum eftir Reykjanesbraut til höfuðborgarinnar. Fararstjóri verður Hjálmar Waag Árnason sem bjó í yfir 30 ár á Suðurnesjum en Grindvíkingurinn fyrrverandi, Gunnlaugur Dan er vís með að greina frá einhverjum leyndarmálum um Grindvíkinga fyrr og nú. Aðrir hvattir til að leggja vitleg orð í belg eftir því sem tilefni gefst og andi kviknar fólki í brjóst. Heimkoma ráðgerð kl. 21:30. Verð, þar sem allt er innifalið er kr.14.000 fyrir hvern einstakling. Ferðin er niðurgreidd af hálfu félagsins. Skráning í ferðina gerist með því að greiða fyrir ferðina inn á reikning 0313-26-004211, kt. 421190-1359 og skrá sig í ferðina samdægurs á heimasíðu félagsins w.w.w.fke.is. Látið koma fram fyrir hverja er greitt.

24. maí verður efnt  til menningarferðar austur fyrir fjall, þar sem lögð verður áhersla á að heimsækja áhugaverða staði í Flóanum, bæði sögulega og aðra sem vert er að kynnast.
Dagskrá:
Kl. 09:00. Lagt af stað frá bifreiðastæði norðan við hús Menntavísindasviðs H.Í. við Stakkahlíð og haldið austur fyrir fjall.
Á Drottningarbarmi á Kambabrún munum við hitta fyrir leiðsögumann ferðarinnar Guðna Ágústsson.
Þaðan verður haldið í Konungshúsið í Miðbæ Selfoss þar sem drukkið verður kaffi með flatköku.
Í framhaldinu verður hinn nýi miðbær á Selfossi skoðaður, en hann hefur hlotið verðskuldaða athygli margra sem gert hafa sér ferð austur til þess að berja hann augum.
Næst verður Skyrsafnið heimsótt. Þaðan verður farið að Laugardælakirkju, Bobby Fischer heiðraður og sagt frá nánast reifarakenndum eftirmálum eftir fráfall Fischers.
Kl. 12:30. Hótel Selfoss. Tveggja rétta máltíð með kaffi á eftir.
Eftir hádegisverð verður ekið að hinum gamla höfuðstað Eyrarbakka, þar sem elsti barnaskóli landsins er. Á Stokkseyri skoðum við merkilegt Veiðisafn, áður en haldið verður að Urriðafossi.
Þaðan munum við fara að Brúnastaðaflötum og kynnast Flóaáveitunni, því mikla mannvirki. Þegar hér er komið mun verða hugað að heimferð,
aðeins eftir að koma við á huggulegum kaffiveitingastað og fá hressingu áður en lagt verður af stað til Reykjavíkur. Áætlað er að vera kominn í bæinn kl. 18:15.