Fréttir og viðburðir
Laugardaginn 3. febrúar 2024 var spila- og skemmtifundur hjá FKE. Var það fyrsti Grandfundurinn á nýju ári. Guðmundur Björn formaður, stjórnaði fundinum. Sagði hann m.a. frá ferðum, innanlands og utan sem áætlaðar eru hjá félaginu í sumar.
Spiluð var félagsvist á 9 borðum undir stjórn Skarphéðins Guðmundssonar. Vinningshafar voru Kristín G. Ármannsdóttir og Árni Ingimundarson.
Eftir spilamennsku gekk fólk að glæsilegu kaffihlaðborði. Á meðan gestir gæddu sér á veitingum sagði Per Ekström leiðsögumaður og fararstjóri frá ferð félagsins til Finnlands og Eistlands í maí á þessu ári. Hann minntist einnig á aðrar ferðir sem hann stendur fyrir þó þær séu ekki á vegum FKE. Valborg E. Baldvinsdóttir sagði frá menningarferð FKE um Hafnarfjörð í apríl.
Þá tók Pétur Bjarnason við og sagði skemmtilega frá hinum ýmsu merkisdögum ársins, sérstaklega talaði hann um Kyndilmessu sem ber upp á 2. febrúar , en áður var oft talað um hið eiginlega skammdegi væri frá Marteinsmessu sem er 11. nóvember og fram að Kyndilmessu 2. febrúar. Þá ræddi Pétur um hvenær sæist til sólar eftir áramót á hinum ýmsu stöðum á Vestfjarðakjálkanum. Á Patreksfirði sést víða sólarrönd strax 6. janúar og þá höfðu Patreksfirðingar sólarkaffi með pönnukökum. Á Súgandafirði sér ekki til sólar fyrr en eftir miðjan febrúar. Ísfirðingar hafa sólarkaffi 25. janúar.
Eftir skemmtilegt fræðsluerindið hjá Pétri tók hann upp harmonikuna og spilaði þorralög og fleiri lög með aðstoð nokkra EkkÓ- kórs félaga og tóku gestir vel undir og af mikilli gleði.
Tæplega 50 gestir sóttu fundinn sem tókst afar vel.