Fréttir og viðburðir

Hátíðar-og afmælisfundur FKE

Hátíðar-og afmælisfundur FKE

Laugardaginn 1. mars 2025 var hátíðar-og afmælisfundur FKE haldinn á Grandhóteli.

Félag kennara á eftirlaunum FKE var stofnað 1. mars 1980 og átti því 45 ára afmæli á þessum degi, 1. mars 2025.

Guðrún Erla Björgvinsdóttir ritari stjórnar, setti hátíðina og bauð gesti velkomna í fjarveru formanns, Gunnlaugs Dan Ólafssonar.

Guðrún Erla las upp bréf frá Gunnlaugi þar sem hann bað fyrir kveðjur til fundarins, en í bréfinu segir hann frá stofnun FKE 1980 þar sem tvö félög, Samband grunnskólakennara og Landssamband grunn - og framhaldsskólakennara voru sameinuð í eitt félag, Félag kennara á eftirlaunum. Lífeyrismál voru helsti hvatinn að sameiningu félaganna. Fyrsti formaður FKE var Magnús Jónsson skólastjóri Gagnfræðaskóla verknáms. Gunnlaugur sagði einnig frá hugmyndum sem komu fram í upphafi t.d. að stofnaðar yrðu sumarbúðir fyrir félagsmenn, ferðalögum sem væru hugsanleg og ýmis konar tómstundastarfi sem félagar gætu haft áhuga á.

Guðrún Erla tók við boltanum þar sem Gunnlaugur hætti og sagði frá þeim vexti og þróun sem átt hefði sér stað síðar. Fyrstu dagsferðir félagsins voru farnar árið 1994 og fyrsta þriggja daga ferðin 2005. Kór kennara á eftirlaunum var stofnaður 1996 og hefur verið mjög öflugur allar götur síðan. Stöðugt hefur verið bætt við verkefnum, svo sem utanlandsferðum, spila- og skemmtifundum ásamt öðrum tómstunda- og áhugamálum.

Magnús Þór Jónsson formaður Kennarasambands Ísland var sérlegur gestur fundarins en hann var að ljúka margra vikna vinnu við nýgerða kjarasamninga KÍ. Magnús Þór tók til máls og ræddi um starfsemi KÍ og samstöðu kennara í launabaráttu síðustu mánaða.

Þá var komið að glæsilegum hádegisverði (dögurði) og kaffi og kökum í eftirrétt.

Eftir matinn söng Ekkó-kórinn bæði einn og sér og í fjöldasöng sem gestir tóku mjög vel undir. Stjórnandi að þessu sinni var Friðrik Vignir Stefánsson í forföllum Bjarts Loga Guðnasonar.

Að lokum kom fram Anna Þóra Björnsdóttir uppistandari. Anna Þóra hafði greinilega lesið salinn vel áður en hún tók til máls, því hátíðargestir hlógu mikið að skólasögum hennar.

Tæplega 70 manns sóttu hátíðina sem tókst í alla staði mjög vel.

Engin ummæli enn
Leit