Ferð um sunnanverða Vestfirði 26.-27. júní

Dagur 1

Lagt verður af stað frá Kennaraskólanum við Stakkahlíð kl. 8:00 þann 26. júní. Ekið verður sem leið liggur um Borgarfjörð og Dali, það söguríka svæði. Úr Dölum er ekið um Saurbæ, yfir Gilsfjarðarbrú, það mikla samgöngumannvirki, og í Króksfjarðarnes. Þar er fallegt handverkshús þar sem mögulegt er að sinna kalli náttúrunnar og skoða handverk kvenna af svæðinu. Áfram er haldið yfir splunkunýja brú yfir Þorskafjörð, í gegnum þrætueplið mikla, Teigsskóg, og sem leið liggur í Flókalund. Þar er snæddur hádegisverður. Þaðan liggur leið upp á Dynjandisheiði, til Bíldudals. Þess má geta að algengt er að sjá Haferni á flugi eða sitjandi á kletti. Áfram er ekið í gegnum Bíldudal út í Selárdal, þar sem við skoðum hið einstaka safn „listamannsins með barnshjartað“, Samúels Jónssonar og svipumst um á heimaslóðum Gísla á Uppsölum. Ökum til baka til Bíldudals. Þar verður litið við á hinu stórmerkilega Skrímslasetri. Fáum okkur hressingu þar áður en haldið er yfir til Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. Tökum rúnt um bæinn og höldum síðan í náttstað á Fosshóteli Patreksfirði. Þar munum við eiga, eins og vænta má, skemmtilega og notalega kvöldstund og göngum glöð til náða, ölvuð af vestfirskri náttúrufegurð.

Dagur 2

Snæðum morgunverð milli kl. 7 og 8:45. Höldum úr hlaði kl. 9:00 en þá er ferðinni heitið út á Látrabjarg, vestasta odda Evrópu, Bjargtanga. Þar getum við spókað okkur góða stund, heilsað upp á lundann á bjargbrúninni og gengið upp að Ritugjá eða Stefni (þau sem eru góð til gangs) Sérstaklega er varað við að fara of nálægt bjargbrúninni. Af Látrabjargi höldum við í Breiðuvík þar sem við snæðum hádegisverð. Að honum loknum er ekið yfir í Örlygshöfn þar sem við komum við á Minjasafni Egils Ólafssonar. Ef tími gefst lítum við inn í Sauðlauksdal, þar bjó sr. Björn Halldórsson, einn merkasti frumkvöðull Íslendinga á 18. öld.

Innan við Hvalsker er farið yfir Skersfjall niður á Rauðasand. Þar stoppum við góða stund, njótum óviðjafnanlegrar náttúrufegurðar svæðisins og komum við á Franska kaffihúsinu. Af Rauðasandi ökum við inn að Brjánslæk þar sem Breiðafjarðarferjan Baldur bíður okkar og ferjar okkur yfir til Stykkishólms. Um borð í Baldri munum við snæða kvöldverð, sem vegna aðstæðna verður í léttara lagi. Ferðin tekur rúma 2 tíma. Heimkoma um kl. 22:30. 

Verð í tveggja manna herbergi 57.000 kr. 
Gisting í eins manna herbergi 65.000 kr. 

Skrá þarf í ferðina fyrir 1. mars á netfangið bjorgbald@gmail.com. og taka fram nafn, kennitölu og síma. 
Greiða þarf helst samdægurs inn á reikning félagsins 0313-26-004211, kennitala 421190-1359.

Skráning í ferðina

Hafið í huga að skráning er ekki virk fyrr en búið er að staðfesta millifærslu ferðakostnaðar.
Verð í tveggja manna herbergi 57.000 kr.
Gisting í eins manna herbergi 65.000 kr.

Skrá þarf í ferðina fyrir 1. mars og greiða þarf inn á reikning félagsins 0313-26-004211, kennitala 421190-1359.
Leit