FKE stóð fyrir einni ferð í sumar, Suðurlandsferð frá Reykjavík að Smyrlabjörgum með viðkomu á ýmsum stöðum. Vegna aðstæðna komust færri með en vildu. Því olli m. a. takmarkaður sætafjöldi, þó rútan væri 56 manna komust aðeins 33 þátttakendur með. Ferðin hófst mánudaginn 24. ágúst með brottför frá Kennaraháskólanum við Stakkahlíð kl 8:30, ekið á Hvolsvöll og síðan að Skógum, fossinn skoðaður og myndaður. Næsti áfangi var að Dyrhólaey þar sem staldrað var við síðan ekið í Vík þar sem fólk gat fengið sér næringu. Þá var ekið að Fjallsárlóni sem var myndað og sumir fengu snert af ís. Næstsíðasti viðkomustaður á austurleið var svo Jökulsárlón og þar fóru sumir í siglingu á lóninu meðan hinir fengu sér göngu um svæðið. Lokaáfanginn var svo að Smyrlabjörgum þar sem snæddur var dýrindis kvöldverður áður en gengið var til náða. Næsta morgun var glampandi sól og heiðskírt og að loknum morgunverði var haldið af stað og fyrsti viðkomustaður var að Hala. Þórbergssetur skoðað að loknum skemmtilegum fyrirlestri sem Þorbjörg Anna, forstöðumaður safnsins og tengdadóttir Steinþórs bróður Þórbergs, flutti. Næsti viðkomustaður var Svínafellsjökull og síðan Skaftafell hvar fólk fékk sér hádegishressingu og myndaði Hvannadalshnjúk sem var vel sýnilegur í sólinni. Næst var komið að Dverghömrum þar sem tekin var hópmynd. Aftur var staldrað við í Vík þar sem sumir fengu sér kaffi og með því. Reynisfjara og Seljalandsfoss voru svo síðust á dagskrá áður en boðið var til kvöldverðar á Hótel Selfossi. Komið til Reykjavíkur um kl 22:00 að lokinni frábærri ferð og fararstjórn.
Myndir: Halldór Þórðarson
Þar sem stjórninni hafa borist margar fyrirspurnir um úthlutanarreglur Orlofssjóðs á sumarhúsum og fleira sem þeim tengjast, fengum við fund með Ólöfu S. Björnsdóttur. Hún fór yfir reglurnar með okkur og tók svo saman þetta ágrip til upplýsingar fyrir félagsmenn FKE.
LÁGMARKSPUNKTAEIGN
Til að geta bókað eða nýtt aðra þjónustu OKÍ þurfa félagsmenn að eiga orlofspunkta. Ef punktaeign fer niður fyrir mínus -23 punkta missa félagsmenn réttinn það árið eða þar til ný orlofspunktaúthlutun hefur átt sér stað (mars ár hvert). Félagsmenn ávinna sér 24 orlofspunkta á ári. Félagsmenn geta ef svo ber undir keypt viðbótarpunkta og er þá verðgildi hvers punkts kr. 500. Að hámarki er hægt að kaupa 24 punkta á 365 daga tímabili. Hafa þarf samband við skrifstofu ef slíks er óskað.
Leiga orlofshúsa eða önnur niðurgreidd þjónusta krefst þess einnig að félagsmenn eigi tiltekinn fjölda punkta. Einnig þarf að athuga að til þess að þeir félagsmenn sem hafa látið af störfum geta nýtt orlofsvefinn þá þurfa þeir að vera skráðir félagsmenn í FKE.
Á vef Orlofssjóðs er að finna gjafabréf í flug, flugmiða innanlands, kort, orlofshús og annað til sölu með eða án punktafrádráttar.
Sjóðfélagar sem eiga orlofspunkta geta keypt þjónustu á bókunarvef sjóðsins eða á skrifstofu Orlofssjóðs.
REGLUR ORLOFSSJÓÐS KÍ
Hér er hlekkur í núgildandi reglur orlofssjóðs:
https://www.ki.is/media/tsdlv3xy/orlof_reglur_2019_til_2020_uppfaert_a_vef_260619.pdf
REGLUR UM ÚTHLUTUN OG PUNKTAKERFI
Úthlutun orlofshúsa KÍ fer eftir orlofspunktaeign félaga. Úthlutunartímabil orlofshúsa KÍ eru þrjú á ári. Opnun fyrir sumartímabil (júní-ágúst) er í byrjun apríl ár hvert; hausttímabil (lok ágúst-byrjun janúar) er til úthlutunar í byrjun júní og seinni hluti vetrar/vor er til úthlutunar í byrjun september ár hver.
Á sumartímabili gilda tvær reglur: “úthlutun” (vikuleigur) eða „fyrstur kemur, fyrstur fær“ (flakkarar). Úthlutunarreglan er á þann máta að félagsmenn hafa nokkrar vikur til að bóka og geta jafnframt valið um allt að sex eignir. Bókunarkerfið úthlutar síðan eftir punktaeign félagsmanna. Reglan “fyrstur kemur fyrstur fær” felur í sér að þeir félagsmenn sem eiga flesta punkta geta fyrstir byrjað að bóka leigu á Orlofsvefnum og er hann [orlofsvefurinn] stilltur í samræmi við það. Opnunartímabil og dagsetningar eru auglýst á orlofsvef KÍ sem og send til félagsmanna í fjölpósti.
Félagsmenn í Félagi kennara á eftirlaunum (FKE) eiga ekki lengur punktaeignarforgang til að bóka orlofseignir þegar opnað verður fyrir sumarúthlutanir. Þeir geta því einungis bókað orlofseignir þegar opnað verður fyrir almenna úthlutun sumartímabilsins. Yfir vetrartímann eru ekki teknir punktar fyrir leigur í miðri viku í orlofshúsum á Flúðum og Kjarnaskógi.
Farið var frá Lindakirkju í Kópavogi og gengið um hverfið.
Myndir: Pétur Bjarnason
Gengið var frá IKEA umhverfis Urriðaholtið, rúmlega 4 kílómetrar, og kaffi í IKEA á eftir.
17 voru mættir.
Myndir: Halldór Þórðarson
Gengið var frá Golfskála GKG umhverfis Vífilstaðavatn og síðan kaffi á eftir í Golfskálanum.
Metþátttaka var eða 18 manns.
Myndir: Pétur Bjarnason
Ganga FKE sem stofnað var til fyrir tveimur árum hefur notið vinsælda og nú er kominn fastur kjarni sem mætir galvaskur á mánudögum kl. 13:00, gengur í klukkutíma og svo leitum við uppi kaffistað og spjöllum saman yfir kaffibolla, þeir sem það vilja. Þriðja starfsárið er hafið og hefur þátttaka verið góð, 17-18 manns í hvert skipti.Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt hafi samband með tölvupósti við göngustjórana Pétur (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.) eða Valborgu (This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.), því mætingarstaður er boðaður með netpósti og valin staðsetning eftir veðurhorfum og færð hverju sinni. Veður er aldrei fyrirstaða en klæðnaður valinn í samræmi við aðstæður.
Vegna kórónuveirunnar frestaðist aðalfundur félagsins í apríl sl. Með þeim fyrirvara að ástandið næstu daga versni ekki er ætlunin að halda aðalfund 3. október n.k. á Grand hóteli kl. 13:30, með venjulegum aðalfundarstörfum. Hugað verður vel að fjarlægðarmörkum og sóttvörnum. Að loknum fundarstörfum verða veitingar og síðan munu Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson koma fram og létta okkur lund með söng og gamanmálum.
Það hefur gengið á ýmsu varðandi ferðina okkar að Smyrlabjörgum. Ýmist verið að fara í ferðina eða fresta henni. Ástæðan er sú að stöðugar breytingar hafa átt sér stað varðandi reglur og ástandið í samfélaginu vegna Covid-19. En nú teljum við að sé lag og höfum þess vegna tekið ákvörðun um að fara austur að Smyrlabjörgum. Ákvörðunin er tekin með það í huga að farið verði eftir sóttvarnarreglum í hvívetna, grímur til staðar í rútu og spritt og rétt fjarlægð á milli borða á áningarstöðum. Ef ekki er hægt að virða 2ja metra nándarmörk í rútu skulu farþegar vera með andlitsgrímur (Ferðamálastofa, leiðbeiningar fyrir hópferðabíla). Gott er fyrir þá sem eiga andlitsgrímur að hafa þær meðferðis. Líklega verður gengið inn í rútu að aftan og þeir sem eiga heimili saman eða eru nánir geta setið saman. Við munum ferðast í stórri rútu, þannig að rúmt verður um alla. Áréttað verður að, fólk ferðist á eigin ábyrgð undir framangreindum reglum sem öllum ber að virða.
Að lokum skal áréttað að við förum frá bílaplaninu við Kennaraháskóla Íslands/v Stakkahlíð kl. 08:30, mánudagsmorguninn 24. ágúst. Greinargóðar upplýsingar um ferðina er að finna í fréttabréfinu frá því í júní í sumar.
Í ljósi þess að óvíst er um hve lengi áhrif COVID-19 veirunnar vara, ákvað stjórnin á síðasta fundi sínum að fresta útkomu maí fréttabréfs þar til í júní.
Vonandi verður þá orðið ljóst hvað af áður áætlaðri starfsemi félagsins verður hægt að framkvæma. Ólíklegt er að af dagsferðinni í júlí geti orðið en tveggja daga ferð að Smyrlabjörgum 24.-25. ágúst er líkleg og aðalfundurinn verður að öllum líkindum í byrjun október.
Aðalfundi FKE sem átti að vera laugardaginn 4. apríl verður frestað um óákveðinn tíma.
Póstur verður sendur á alla félaga þegar þeim takmörkunum á samkomum sem nú eru í gildi verður aflétt.